Örvitinn

Henson - Hunangstunglið

Fyrsta æfinaleik tímabilsins lauk með góðum 4-0 sigri Henson á Hunangstunglinu þar sem undirritaður fór á kostum og skoraði öll fjögur mörkin.

Spiluðum við fínar aðstæður í Laugardalnum. Þegar við mættum var smá stress þar sem völlurinn var ekki á mínu nafni, en svo kom í ljós að þetta var misskilningur og við fengum völlinn. Roskin starfskona Þróttar var ansi depremeruð yfir því hve við ætluðum að vera lengi þannig að við höfðum leikinn í styttra lagi og spiluðum í tvisvar sinnum þrjátíu og fimm mínútur.

Hinn frægi dómari, Kobbi, dæmdi leikinn og gerði það ágætlega. Gaf tvö eða þrjú gul spjöld við lítil tilefni en hélt leiknum niðri og fór hann þar af leiðandi drengilega fram. Engin gróf brot voru í leiknum, einhver smá óhöpp en engin viljaverk.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og eftir um fimm mínútna leik komst ég einn inn fyrir en fór illa með kjörið færi, chippaði beint í markvörðinn. Skömmu síðar fékk ég sendingu rétt fyrir innan miðju á þeirra vallarhelming, sneri á varnarmenn og komst einn í gegn, afgreiddi boltann í mark af um tuttugu metrum með örlítilli viðkomu í varnarmanni. Nokkrum mínútum síðar komst ég svo einn í gegn eftir góða sendingu, lék á markvörðinn og skoraði í tómt markið. Staðan í hálfleik 2-0.

Í byrjun síðari hálfleiks fékk ég svo frábæra sendingu innfyrir og skaut strax með vinstri við teigsjaðarinn - lagði boltann út við stöng hægra megin. Skotið var ekki fast en á réttan stað fór það. Fjórða markið kom svo eftir góða sendingu innfyrir frá Einari, komst í gegn vinstra megin og lagði boltann í sveig yfir í hægra markhornið. Ég fékk eitt-tvö færi til að bæta við mörkum og ýmsir aðrir fengu færi. Oddi komst einn í gegn, Óli var kominn í dauðafæri eftir að ég lagði boltann aftur á hann og Einar komst í geg eftir gott hlaup en missti boltann.

Sigurinn var sanngjarn þó markatalan sé kannski í hærra lagi. Vörnin var að gera góða hluti í dag og Björn stóð sig vel í markinu. Mjög traustur í teignum og kom sterkur út í alla bolta - greip vel inn í, það er skarð fyrir skyldi að hann verði ekki með í nema í fyrstu tveim leikjunum í sumar. Þessi leikur gefur vafalítið ekki rétta mynd af Hunangstunglinu, þeir voru að spila vel í fyrri hálfleik, létu boltann ganga vel á milli sín og spiluðu satt að segja betur en við á löngum köflum, léku iðulega vel út úr vörninni en sóknir okkar voru skarpari og þeir ógnuðu sjaldan þrátt fyrir ágætt spil. Í síðari hálfleik var komið meira óðagot í leik þeirra og minna um fínt samspil eins og í fyrri hálfleik. Vörnin var ekki að spila mjög vel, segir sig kannski sjálft þegar maður eins og ég kemst einn í gegn trekk eftir trekk :-)

Fínt að spila loks fótbolta á stórum velli, ljóst að ég þarf að koma mér í betra form því þó ég hafi ekki ælt blóði í kvöld var ég kominn með blóðbragð í munninn og það er engin lygi! Skipti mér útaf þegar fimmtán mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, kom aftur inná í lok hans og fór svo aftur útaf þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Ég held mér sé óhætt að segja að ég hafi átt ágætan leik. Ég er þó alltof þungur þessa dagana og ekki í nokkru formi. Það er fínn hvati til að taka sér átak í þeim málum að spila svona fótboltaleik, maður finnur fyrir hverju auka kílói. Held ég hafi tryggt mér framherjastöðuna í næstu leikjum með því að setja hann fjórum sinnum í kvöld.

Næsta mánudag mætum við FC Ótta. Sá leikur verður erfiður, sér í lagi þar sem nokkra trausta menn muna vanta hjá okkur, þar með talið undirritaðan.

Djöfulsins montpistill er þetta :-P

utandeildin
Athugasemdir

Ingi - 20/04/04 07:54 #

Menn eru greinilega að koma vel undan vetri í fjarveru minni. Ekki slæmt að setja 4 mörk í 70 mínútna leik. Nú er bara að koma Arnaldi í form, þá tel næsta víst að þið komist í úrslitakeppnina í vor ;)

Matti Á. - 20/04/04 10:29 #

Það hefur gengið treglega að draga Arnald á æfingar undanfarið, hann vælir sífellt undan meiðslum og slöku formi. Ég gruna að hann þori ekki með mér í sturtu!