Örvitinn

21 gramm

21 grams er mynd sem fjallar um það hvernig líf fólks tengist saman fyrir slysni. Áhugaverð pæling um sorg, iðrun og dauðann.

Hugsanlega spillir þessi örlitla umfjöllun fyrir framtíðaráhorfi á myndinni, þarf samt ekki að gera það!

Þetta er einföld saga en borin fram á áhugaverðan hátt. Flakkað fram og til baka í tíma, sem er frekar ruglingslegt til að byrja með en virkar vel að mínu mati.

Maður og tvær dætur hans deyja þegar ekið er á þau þegar þau ganga yfir götu. Háskólaprófessor sem Sean Penn leikur fær hjarta þessa manns. Hann fer svo og finnur ekkju mannsins og hún fær hann til að fara með sér og drepa ökumanninn. Þetta er í grunninn plott myndarinnar.

Trú skipar ansi stóra rullu í myndinni. Jack sem Benicio Del Toro leikur er trúarnöttari og er ekki sýndur í mjög sterku ljósi, trúin hefur hjálpað honum að losna undan áfenginu og gerir það eflaust að verkum að hann gefur sig fram eftir að hafa valdið slysinu en hún hjálpar honum á engan hátt að vinna úr iðruninni eftir slysið. Atriðið þar sem presturinn hans mætir í fangelsið sýnir á magnaðan hátt hvernig trú getur komið í veg fyrir að annars eðlilegt fólk vinni úr aðstæðum sínum. Það er ekki hægt að sjá nokkuð jákvætt við trú í þessari mynd að mínu hógværa mati.

Mér þykir alltaf óskaplega óþægilegt að horfa á myndir sem fjalla að einhverju leyti um barnmissi enda er þetta það sem foreldrar óttast mest af öllu. Ég var t.d. alveg á nálum í atriðinu þar sem slysið er sýnt og var afskaplega þakklátur fyrir að það væri gert á þennan hátt í myndinni.

Nafn myndarinnar er dregið af því að einhverjar rannsóknir áttu að hafa sýnt fram á að við andlát léttist líkami manna um 21 gramm. Þessi mýta hefur borist víða en eins og ýmislegt annað stenst hún enga rýni. Í myndinni er því haldið fram að þetta gildi um alla en svo er alls ekki. Ein rannsókn var gerð, það var ekki hægt að endurframkvæma hana og fá sömu niðurstöður. #

En þó nafnið sé mýta er myndið þrælgóð.

kvikmyndir