Örvitinn

Göngutúr í Heiðmörk

Gyða fór að vinna eldsnemma í morgun og ég er því heima með Kollu og Ingu Maríu. Áróra fór með vinkonu sinni í sumarbústað um helgina. Við höfðum það ágætt í morgun, stelpurnar horfðu á barnatímann og ég dundaði mér í tölvunni. Þegar leið á daginn voru þær farnar að ókyrrast þannig að ég ákvað að skreppa í heiðmörk með brauð, banana og djús og fara í fjallgöngu!

Ókum í Garðabæinn, framhjá Vífilstaðavatni og lögðum hjá útigrillinu. Gengum svo all lengi upp á við þangað til við fundum laut þar sem við gátum sest niður og borðað nesti. Röltum svo ennþá lengra en þó ekki alla leið upp á topp. Stelpurnar voru ósköp kátar og ég hef gaman af svona göngutúrum, maður fær afsökun til að taka myndir :-)

Veðrið var frábært og þó það hafi verið frekar hvasst var blankalogn milli trjánna í Heiðmörk. Það var aðeins farið að þykkna upp þegar við snerum við, gengum því rösklega til baka á bílastæðið ef það skyldi rigna.

Brjóstarhaldari sem hékk á tré í miðjum skóginum stakk í stúf. Líklega einhver saga á bak við þetta, vonandi jákvæð.

dagbók fjölskyldan myndir