Örvitinn

Henson - FC Moppa

Henson 2 - 2 FC Moppa

Liðin áttust við í blíðviðri í Laugardalnum í kvöld. FC Moppa komst yfir í tvígang en Henson náði að jafna með tveimur skallamörkum. Við erum svekktir að hafa ekki náð þremur stigum en að sama skapi eru Moppumenn vafalítið súrir að hafa fengið á sig jöfnunarmark í lokin.

Leikurinn var í þokkalegu jafnvægi í upphafi, við áttum betri færi en náðum ekki að nýta þau. Oddi lagði upp gott skotfæri fyrir mig en ég átti afar slakt skot með vinstri beint á markvörðinn. Skömmu síðar átti ég ágætis skot rétt yfir markið. Henson var ívið betra liðið í fyrri hálfleik en gegn gangi leiksins komst FC Moppa yfir. Aggi náði ekki að hreinsa frá, hitti ekki boltann og sóknarmaður Moppu komst einn í gegn og lagði boltann í markið. Við áttum nokkur þokkaleg færi, Kjartan fékk meðal annars dauðafæri en skaut framhjá.

Í upphafi seinni hálfleiks sóttum við af krafti og vorum mun betri. Um miðjan hálfleikinn fengum við aukaspyrnu við hægra teigshornið. Axel spyrnti fyrri markið og Aggi kom á fleygiferð og skallaði boltann í markið (með öxlinni!).

Eftir þetta jafnaðist leikurinn, liðin sóttu á víxl en fengu ekki mörg færi. Í einni sókn Henson dæmdi slakur dómari leiksins vafasama rangstöðu, hugsanlega var dómurinn réttur en það var þá tæpt. Í næstu sókn FC Moppu var sóknarmaður þeirra svo kolrangstæður þegar hann fékk boltann og skoraði mark. Það er alveg óþolandi þegar ekki er samræmi í dómum. Annað hvort njóta bæði lið vafans eða hvorugt.

Henson sótti stíft og reyndi allt til að jafna leikinn. Þegar um tíu mínútur voru eftir skoraði Aggi mark sem dæmt var af þar sem dómarinn dæmdi aukaspyrnu á FC Moppu rétt fyrir utan teig! Þetta er náttúrulega glórulaus ákvörðun hjá dómara, sóknarliðið á ekki að líða fyrir brotið og dómarinn var ekki búinn að flauta þegar boltinn var kominn í netið, jafnvel þó leikmenn Moppu haldi öðru fram. Þarna voru menn alveg við það að missa vonina en leikurinn var ekki búinn. Axel átti ágætt skot úr aukaspyrnunni sem markvörðurinn hélt ekki, a.m.k. þrír leikmenn Henson komu að boltanum en Alli skaut framhjá.

Á síðustu andartökum leiksins gaf Lárus eldri, góðan bolta upp hægri kantinn þar sem Kjartan lumaði. Hann gaf góðan bolta fyrir markið með hægri, sem er afrek útaf fyrir sig, þar var Alli mættur og skallaði með kollinum, ólíkt Agga og jafnaði leikinn. Við áttum eina eða tvær sóknir í viðbót og í lokin var Lárus skammt frá því að ná sendingu frá Kjartani en markvörður Moppu var á undan í boltann.

Leikurinn var þokkalegur hjá Henson, við áttum okkar góðu og slæmu kafla. Mörkin sem við fengum á okkur voru klaufaleg en mörkin sem við skoruðum góð, bæði skallamörk eftir góðar fyrirgjafir. Jafntefli eru ekki nægileg góð úrslit en við megum vera sáttir við stigið miðað við gang leiksins.

Allir áttu ágætan leik í dag, sendingar voru stundum að klikka eins og gengur og gerist, en heilt á litið var þetta nokkuð gott. Fínt samspil á köflum og ágætis vinnusemi. Við spiluðum 4-5-1 í fyrri hálfleik en 4-4-2 í þeim síðari. Ég held að 4-5-1 henti okkur betur, þurfum bara að gæta þess að miðjumenn séu þokkalega vinnusamir. Sérstaklega átti Höddi fínan leik í markinu, kom vel út í boltann og var öruggur í flestu sem hann gerði í kvöld.

Ég spilaði allan leikinn, fyrst á miðjunni, svo á hægri kanti, aftur á miðju og frammi í lokin. Var alveg búinn á því, hefði átt að skipta mér útaf, en átti sæmilegan dag held ég. Hefði átt að nýta færið sem Oddi lagði fyrir mig í byrjun leiks betur og átti að setja seinna skotið á rammann. Fann ekki fyrir neinu í kálfa og er vonandi orðinn nokkuð góður. Þarf að koma mér í betra form.

Hópurinn stækkar með hverjum deginum og sterkir leikmenn koma aftur í næstu leikjum. Ég er því þokkalega bjartsýnn á framhaldið og held við getum gert ágætis hluti ef við höldum áfram að bæta okkur.

Þess má geta í lokin að ég fékk pennann minn aftur, dómarinn var með hann!

utandeildin
Athugasemdir

Egill Darri - 03/06/04 08:33 #

Sko!!! Sagði ég ekki, hann tók pennann.....

Annars ágætispistill sem lýsir leiknum vel.