Örvitinn

Fyndna fólkið

Það er til einkennileg tegund fólks sem kalla má húmorista. Þessu fólki líður illa ef athygli allra beinist ekki að því, þögn þjakar það og yfirleitt skortir því alla gáfu til að hlusta á það sem aðrir segja. Þegar það hlustar er það einungis að bíða eftir tækifæri til að geta komist að, fengið athygli aftur.

Húmoristar nærast á viðhlæjendum. Yfirleitt eru það kunningjar þeirra sem sitja uppi með þá. Maður horfir stundum á svona hóp, fyndni maðurinn segir eitthvað hræðilega ófyndið, endurtekur það helst fimm sinnum. Viðhlæjendurnir hlæja í hvert skipti miklum hrossahlátri en samt er eitthvað óeinlægt við hláturinn.

Vondir eru þeir sem nota húmor þegar hann á ekki við, þykjast vera að grínast þegar þeir lenda í vanda og snúa út úr öllu sem reynt er að ræða. Slíkir húmoristar skilja eflaust ekkert nema kjaftshögg.

Verstir eru rugludallarnir. Trúgjarnir sauðir sem trúa á drauga, galdra, forspárgildi drauma og allskonar slíka vitleysu en ærast ef þeir heyra gagnrýni. Rugludallarnir hafa engin svör önnur en húmorinn, hræðilega ófyndinn og marklausan húmor. Það hlær enginn, nema viðhlæjendurnir sem líta vandræðalega í báðar áttir um leið, því þeir vita að þetta er ekki fyndið. Þetta er hlægilegt. Og sorglegt.

Ýmislegt