Örvitinn

Fjölmiðlagjá

Þetta fjölmiðlamál hefur verið rætt út og suður af nokkurri ákefð. Eva spurði í dagbókinni sinni:

Af hverju vakti þetta frumvarp meiri reiði og hneykslun en t,d. Kárahnúkavirkjun? .... Er það af því að fjölmiðlarnir sjálfir eiga hagsmuna að gæta og nota stöðu sína til að kynda undir reiðinni?

Ég tók undir þetta í byrjun, reiðin væri eflaust útaf því hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um máli. En svo runnu á mig tvær grímur.

Er þessi reiði og hneykslun jafn almenn og af er látið? Ég veit að fullt af fólki er reitt og hneykslað útaf þessu máli en ég þekki líka fullt af fólki sem er það ekki. Fjölmargir netverjar hafa hátt og eru ánægðir með ákvörðun forsetans, flestir vegna þess að þeim þótti kominn tími til að einhver sýndi Davíð í tvo heimana.

Þátttaka í mótmælum hefur verið lítil og niðurstöður skoðanakanna bendir til þess gjáin sem forsetinn nefnir til sögunnar (Össur Skarphéðinsson var víst fyrstur til að tala um þessa gjá í kringum þessi lög) sé miklu minni en maður gæti haldið. Er hugsanlegt að gjáin sé tilbúningur, framleidd af fjölmiðlum? Er umdeild undirskriftasöfnun eina raunverulega heimildin um þessa miklu gjá?

Annað þótti mér áhugavert í umræðunni, þessi aðgerð forsetans er réttlætanleg, að sumra mati, vegna þess að þó þetta tiltekna mál sé ekki merkilegt í raun sé þetta uppsafnað! Er þetta alvöru röksemdarfærsla? Er virkilega hægt að réttlæta svona ákvörðun með því að þetta hafi verið dropinn sem fyllti mælinn?

Í athugasemdum hjá Evu var einnig minnst á að ef forsetinn hefði skrifað undir þess lög væri málskotsrétturinn ónýtur. Ég sé ekki að það standist. Hefði málskotsrétturinn þá ekki verið jafn ónýtur fyrst hann skrifaði undir hin lögin sem fólk er almennt sammmála um að hafi verið meiri hitamál, alvöru gjá hafi verið milli þings og þjóðar. T.d. eftirlaunafrumvarpið alræmda.

Gjáin mikla er aðal forsenda forseta fyrir að neita að skrifa undir lögin en er gjáin raunveruleg? Ég spyr.

pólitík
Athugasemdir

Binni - 04/06/04 17:55 #

Ég er sammála hverju orði hjá þér. Það er svo óvenjulegt, að ég er að hugsa um að drekka þína skál í kvöld. ;-)

Halldór E. - 04/06/04 18:09 #

Þetta mál kallar á sterk viðbrögð hjá þeim sem hafa skoðanir, en mikill meirihluti þeirra sem ég heyri í er skoðanalaus í þessu máli. Það sýndi sig líka í skoðanakönnunum Fréttablaðsins að fjöldi hlutlausra var gífurlega mikill, en túlkun blaðamanna leit einungis til þeirra sem tóku afstöðu. Við sjáum þetta sömuleiðis í könnun IBM fyrir Vefþjóðviljann. Meirihlutinn hefur ekki skoðun á málinu. M.ö.ö. háværi hópurinn í þjóðfélaginu plataði Ólaf Bessastaðabúa til að sjá gjá. Ég tek undir með Binna, það gleður mitt hjarta að vera sammála Matta.

Matti Á. - 04/06/04 18:18 #

Mikið er hressandi að fá jákvæð viðbrögð af og til.