Örvitinn

Illa sofinn

Ég svaf of lítið í nótt, get engum kennt um öðrum en sjálfum mér. Glápti á sjónvarpið frameftir. Horfði að sjálfsögðu á 24, er orðinn háður því klisjukennda drasli. Asnaðist svo til að glápa á breska glæpaþáttin sem kom á eftir því og til að toppa þetta horfði ég á restina af Blade II á Bíórásinni. Af hverju veit ég ekki. Klukkan var langt gengin í tvö þegar ég fór loks í bælið.

Inga María kom snemma upp í til okkar í nótt og skömmu síðar koma Kolla sem vaknaði upp með harmkvælum, var með martröð og dreymdi kóngulær. Kolla svaf á dýnu við hlið okkar en Inga María svaf á milli. Inga María er ekkert sérlega þægilegur næturgestur, byltir sér og bramlar, maður má búast við að fá reglulega ágætis spark í andlitið þegar hún er í stuði!

Gyða er veik, með hálsbólgu og hita. Ekki beinlínis heppilegt í dag því klukkan hálf sex mæta bekkjarsystkin og vinir Áróru til okkar í afmælisboð. Reyndar ætti þetta ekki að verða mjög mikið mál, ég skýst í Nettó á eftir og kaupi hamborgara, meðlæti og gos og grilla svo ofan í krakkana. Eftir eitt eða tvö ár verða þau unglingar og eflaust alltof miklar gelgjur fyrir svona bekkjarteiti, á maður ekki að njóta þess meðan það varir.

Pabbi ætlar að hafa Ingu Maríu og Kollu, það væri alltof mikið streð að hafa þær heima á meðan þetta varir. Þarf bara að fara í búðina og versla allt sem vantar. Fara í leikskólann og sækja yngri stelpurnar. Fatta að eitthvað vantar og skjótast aftur út í búð, tvisvar. Grilla 20 hamborgara, einhverjar pylsur og beikon, hita franskar í ofni, skera niður kál, tómata, paprikur. Setja allt meðlæti á borðið. Skenkja gosi. Taka til, skella köku á borð. Skenkja gosi. Taka myndir. Ganga frá og stilla til friðar.

Það er gott að ég er að leka niður úr þreytu nú þegar, annars yrði ég eflaust uppgefinn eftir allt þetta.

dagbók
Athugasemdir

Sirrý - 07/06/04 15:46 #

Það fer að styttast í að haldin verði afmælispartý þar sem eitthver mætir með vín og farið verður í sanleikan og kontor og allt það :C) þá verður fjör. Bið að heilsa Gyðu og vonnadi batnar henni sem fyrst