Örvitinn

Hér er ekkert markvert

Ekki svaf ég mikið síðustu nótt. Þegar ég kom heim í gær byrjaði ég á því að skella í mig tveimur magic drykkjum til að halda meðvitund, þeir virkuðu, ég sofanði ekki fyrr en tvö í nótt. Grillaði svo ofan í krakkana, skaust líka tvisvar út í búð eins og ég hafði spáð. Tókst að klúðra innkaupum, keypti sjö pakka af hamborgurum og sjö pakka af brauðum. Verst að í hverjum pakka voru fjórir hamborgarar annars vegar og tvö brauð hinsvegar. Þurfti því að skjótast út í búð og kaupa helling af brauðum í viðbót eftir að krakkarnir voru sest og byrjuð að borða.

Það þurfti ekki að hafa mikið fyrir þessum krökkum, bara koma matnum á borðið - restina sáu þau um sjálf, eftir mat og köku léku þau sér úti langt fram á kvöld.

Ég var því þreyttur þegar ég fór á fætur í morgun. Gyða var heima í dag, ekki ennþá búin að jafna sig, en gat hjálpað mér að koma stelpunum út. Er svo búinn að vera frekar syfjaður og illa einbeittur í vinnunni í dag.

Fór á létta æfingu með Henson í kvöld. Vorum sjö sem mættum og spiluðum við einhverja gaura á sparkvellinum við Austurbæjarskóla. Ágætis sprikl, merkilegt samt hvað það er erfitt að fá menn til að mæta á æfingar. Flestir voru eflaust löglega afsakaðir. Leikur á fimmtudagskvöld, ekkert mál að fá menn til að mæta í leik, ég á von á að við verðum að minnsta kosti sextán.

Kíkti við hjá Jakobínu á heimleiðinni. Tölvan á heimilinu er biluð, ég þarf að mæta aftur á svæðið með Windows2000 geisladisk og ræsa með honum - get vonandi lagað þetta. Miðað við lýsingu í síma átti ég von á að harði diskurinn væri ónýtur en sem betur fer virðist þetta ekki vera svo slæmt.

dagbók
Athugasemdir

Halldór E. - 09/06/04 11:23 #

Tókst að klúðra innkaupum, keypti sjö pakka af hamborgurum og sjö pakka af brauðum. Verst að í hverjum pakka voru fjórir hamborgarar annars vegar og tvö brauð hinsvegar.

Það er reyndar spurning hvort hugtakið magnvilla eigi e.t.v. betur við um svona atburði. :-)