Örvitinn

Dýrasta bensínáfylling sem ég man eftir

Keyrði heim af æfingu í gærkvöldi með bensínljósið blikkandi, agalega stressaður yfir því að verða bensínlaus á miðri leið. Hélt ég hefði gleymt veskinu heima en það var reyndar í íþróttatöskunni, stressið var algjörlega tilgangslaust.

Kom við á bensínstöð í morgun eftir að ég skutlaði stelpunum á leikskólann og fyllti tankinn. Dældi sjálfur. 5.248 kr. Fjandakornið, hvað er í gangi á þessu krummaskuði? Það er afrek að vissu leyti að ná að dæla 49,277 lítrum af bensíni á 45 lítra tank, en hverjum dettur í hug að rukka mann um 106.50 kr fyrir lítrann? Eru gullagnir í helvítis bensíninu?

Þeir aðilar sem sjá um innkaup á bensíni fyrir íslensku olíufélögin eru vafalaust vanhæfustu innkaupamenn landsins. Á einhvern ótrúlegan hátt tekst þeim að kaupa alltaf inn bensín á toppverði, sem gerir það að verkum að þegar bensín hækkar á heimsmarkaði þurfa þeir að hækka verð hér á landi, en þegar bensín lækkar, eins og gerðist nú í vikunni, skilar það sér seint eða aldrei til landans. Væntanlega sökum þess að þeir þurfa að klára birgðirnar af dýra bensíninu fyrst. Hvernig væri að byrgja sig upp af ódýru bensíni? Hverning væri að ríkið væri virkara í því að lækka skattinn á bensíni til að létta undir hjá landanum.

Spurning um að leggja bílnum, nota hann bara við hátíðleg tækifæri :-)

kvabb
Athugasemdir

gulli - 09/06/04 11:18 #

Eru bensínstöðvarnar ekki bara að svindla á okkur, ofan á ránið. Hefur einhver mælt hvort við erum í raun að fá eins mikið bensín og mælarnir sína?

Matti Á. - 09/06/04 11:22 #

Ég treysti því að dælurnar séu vottaðar eins og vogirnar í matvörubúðum.

Ástæðan fyrir því að næstum 50 lítrar komast á 45 lítra tank er að það er pláss í "leiðslunum" upp að tanki fyrir fimm lítra. Þetta segir okkur bara að ég var að keyra á bensíngufum síðustu metrana :-)

Sirrý - 09/06/04 15:27 #

Ég fór einmitt í gær og keypti bennsin hjá orkuni í Hafnarfirði og fékk 49 litra fyrir 5000kr literinn kostaði 100.8 frekar en 101.8 Ég mæli með að finna ódýra bennsínstöð og sniðganga þessar dýrari

Skúli - 09/06/04 16:07 #

Þetta er er nú ósköp svipað því sem er t.a.m. í Svíþjóð þar sem líterinn er á yfir 10 SEK.

Eina vitið er að skilja skrjóðinn eftir og hjóla bara á milli staða - einkum á sumrin. :)

Eggert - 09/06/04 18:41 #

Ef glöggt er gáð sést að bensínlítrinn lækkaði um 2 krónur (íslenskar) í Svíþjóð í gær. Þeir eru náttúrulega með ríkisrekið olíufyrirtæki... Eða þá ályktun dreg ég, af nafninu 'Statoil'

Óli - 09/06/04 20:18 #

"Ég treysti því að dælurnar séu vottaðar eins og vogirnar í matvörubúðum."

Ég man eftir frétt í fyrir um ári eða svo þar sem var verið að tala um þessar vogir, þær eru nefnilega ekki vottaðar, allavega var tekið dæmi í Hagkaup í fréttini. Þar voru margar vogir sem prufaðar voru kolvitlausar. Spurning hvernig þetta er í bensíninu, hver veit.

Jósi - 09/06/04 20:59 #

Ég fór einu sinni í jeppaferð þar sem maður var á 44" bensínbíl með aukatanki svo að heildarrúmmál tanka var 360 l. Hann eyddi yfir 36.000 krónum af bensíni á einni helgi. Núna gæti hann náð þessu upp í ca. 41.000.

Már - 10/06/04 01:49 #

Eggert, Statoil er reyndar Norskt fyrirtæki, þannig að það er a.m.k. ekki sænska ríkið sem rekur það ;-)

Ég held að Statoil hafi endurfyrir löngu verið norskt ríkisfyrirtæki en í dag er þetta bara hlutafélag - þó mögulega að einhverjum hluta í eigu Norska ríkisins... Þeir eru ábyggilega með heimasíðu þar sem hægt er að fletta þessu öllu upp, en ég nenni því alla vega ekki :-)

Skúli - 10/06/04 10:17 #

Já, held að Svíarnir hafi ekkert ríkisolíufyrirtæki enda eiga þeir enga olíu. H.v. er bensínverð þar skömminni lægra heldur en hjá grönnunum í vestri - hvað sem því nú veldur.

Vörubílstjórar sem keyra yfir landamærin til Noregs þurfa m.a.s. að greiða innflutningsgjöld af olíunni á tankinum sé hún yfir tilskildum mörkum. Þetta hef ég eftir traustum heimildum. :)

Norðmenn eru samir við sig.