Örvitinn

Fánalög eru tímaskekkja

Lögreglan í Reykjavík hefur of lítið að gera.

Gleyma fánanum við hún fram á nótt

Lögreglumenn tóku niður fána við hús fyrirtækisins klukkan tvö í nótt en samkvæmt fánalögum má ekki flagga eftir sólsetur þegar svo ber undir en aldrei lengur en til miðnættis. Að sögn lögreglunnar er talsvert um að fólk hirði ekki um að draga fánann niður á tilsettum tíma og lögreglumenn verði að gera það fyrir það.

Menn geta bent á að það sé hlutverk lögreglunnar að framfylgja lögum og þarna sé um asnaleg lög að ræða. Aðrir benda á að það beri að virða fánann. Hugsanlega sama fólk og heldur því fram að það beri að virða forsetann ;-) Í alvöru, fáninn er vissulega þjóðartákn. En hann er ekkert meira en það, tákn. það er út í hött að refsa fólki fyrir að flagga fánanum lengur en einhver lög segja til um. Þeim eina sem er sýnd óvirðing í þessu máli er þegnum þessa lands sem þurfa að lúta því að svona vitleysa sé fest í lög og framfylgt af laganna vörðum.

Ég blæs á svona rugl, svona þjóðrembingslög eru algjör tímaskekkja og lögreglan á að gera eitthvað annað við tíma sinn en eltast við glæpamenn sem brjóta þau. Ef það er svona rólegt hjá þeim í vinnunni, beinlínis ekkert annað markvert fyrir löggurnar að gera, legg ég til að það verði fækkað á þessum vöktum og sparnaðurinn nýttur til að fjölga lögreglumönnum á vakt í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

pólitík
Athugasemdir

Óli Gneisti - 10/06/04 12:00 #

Ég tók eftir að Danir virðast hafa sömu lög þegar ég var úti um daginn, allavega var verið að taka niður fána í Tívolí löngu áður en komið var að því að loka. En þetta er náttúrulega rugl.

Pétur Björgvin - 10/06/04 17:55 #

Það sem mér finnst umhugsunarvert líka er að samkvæmt sömu lögum ber þeim sem eiga fánastöng að flagga á fánadögum íslensku þjóðarinnar en ég hef aldrei heyrt að gerðar væru stórar athugasemdir þó einhver fánastöng væri fánalaus á einum af fánadögunum.

Hins vegar væri ég lögreglunni þakklátur ef þeir tækju niður fána sem ég hefði gleymt að taka niður af þeirri einföldu ástæðu að fánar sem eru við hún að nóttu til eiga það til að hverfa og alveg sjálfsagt að taka þátt í kostnaði Lögreglunnar við umrædda aðstoð. Og í því samhengi vil ég sjá fréttina um umræddan atburð í nótt: Lögreglumennirnir voru fyrst og fremst að gera viðkomandi fánaeiganda greiða, þetta er þjónusta sem mér líkar.

Rétt er að endurskoða þarf þessi lög eins og mörg önnur en þar sem ég er ekki á því að fjölga eigi þingmönnum enn frekar finnst mér að þetta sé ekkert atriði sem þarf að setja framarlega í forgangsröðina.

Sverrir - 14/06/04 13:11 #

Íslendingar hafa mun strangari fánalög en Danir.

Hver einasti sumarbústaðaeigandi í Danmörku dregur reglulega upp fánann en á Íslandi væri slíkt líklega bannað.

Finnar virðast einnig hafa rýmri fánalög en Íslendingar, a.m.k. ef eitthvað er að marka finnska sendiráðið við Túngötuna. Þar er flaggað með finnska fánanum og Evrópufánanum hvern einasta dag.

Pétur Björgvin - 21/06/04 16:05 #

Ekkert sem bannar þér að flagga við sumarbústaðinn hvern einasta dag við sólarupprás, en þú þarft að taka fánann niður þegar sólin sest!

Eggert - 21/06/04 16:44 #

Eða á miðnætti, hvort sem gerist fyrr.