Örvitinn

Vinnugrillboð og þjóðhátíðarþynnka

Fórum í grillboð með vinnufélögum mínum á miðvikudagskvöld, haldið heima hjá yfirmanninum. Tókum strætó frá Breiðholti í Grafarvog, það var ekkert svo vitlaus lausn og ekki ólíklegt að við gerum þetta oftar þegar við erum að fara út á lífið. Vorum hálftíma á leiðinni og borguðum ekki nema einn strætómiða, Gyða var með græna kortið. Leigubílinn heim um nóttina var rándýr enda á hátíðartaxta, sem betur fer deildum við honum með Jóa og Laufey.

Grillboðið var ósköp dannað, fólk var að fá sér í glas en þetta var samt með rólegra móti, að minnsta kosti miðað við sögurnar sem maður hefur heyrt. Ég var reyndar ekkert að rembast við að vera dannaður og hellti í mig áfengi og kjaftaði eflaust alveg óskaplega mikið :-P Fórum heim um hálf tvö.

Ég var afskaplega þunnur þegar ég vaknaði í gær, vodkamelónan greinilega ekki að fara nógu vel í mig (ég gef mér að bjórinn, rauðvínið og hvítvínið hafi ekki farið illa í mig). Við skelltum okkur í miðbæinn með stelpurnar. Vorum snemma á ferðinni, lögðum rétt hjá Sjávarútvegsráðuneytinu og röltum í bæinn. Veðrið var gott þó það hafi verið ansi hvasst. Byrjuðum á því að borða á Viktor, sátum úti í góðu skjóli, nutum sólarinnar og borðuðum fínan mat. Ég fékk mér ravioli með pesto og parmesan sem var sérlega vel heppnað. Eftir matinn röltum við í gegnum bæinn sem var nú fullur af fólki. Tókum með okkur handarbönd sem við ætlum að nota á stelpurnar í Ítalíuferðinni, æfðum notkun á þeim í bænum og gekk bara vel. Stelpurnar kíktu á Brúðubílinn og skemmtu sér vel, mér þótti sýningin ansi löng :-) Ég dundaði mér við að taka myndir af þeim og sýningunni, var spurður af því hvort ég væri blaðaljósmyndari -- svona er þetta þegar maður er með vígalega myndavél. Reyndar kom alvöru blaðaljósmyndari og fór að taka myndir hliðina á mér á tímabili og þá fór ekkert á milli mála hver var amatör á svæðinu, gaurinn var með alvöru græjur :-)

Kolla greyið var alveg að pissa á sig eftir sýninguna og við hlupum í gegnum þvöguna í leit að salerni, fundum ekkert þannig að ég endaði með hana í húsasundi og lét hana pissa þar sem enginn sá. Eftirá var staðurinn eflaust ekkert sérlega vel valinn, við inngang, en maður hugsar ekki um slíkt þegar barnið manns er sárkvalið og við það að pissa í buxurnar.

Stelpurnar skutluðu mér heim klukkan fjögur og ég glápti á England-Sviss í sjónvarpinu en þær fóru í kaffi til tengdó.

Elduðum risotto í gærkvöldi sem væri svosem ekki frásögum færandi nema vegna þess að Gyða sá um matreiðsluna meðan ég glápti á seinni EM leik dagsins. Ég aðstoðaði reyndar eitthvað smá, undirbjó allt hráefnið og kíkti svo á hana á fimm mínútna fresti :-) Heppnaðist ósköp vel. Prófaði í fyrsta sinn að nota þurkaða sveppi, lagði í bleyti og sauð. Kom mjög skemmtilega út.

Tók slatta af myndum: Grillboðið og 17. júní.

dagbók