Örvitinn

Montecatini Terme

Slökuðum á í Montecatini Terme, fórum í almenningsgarð. Hittum Ásmund og Gunnu um kvöldið.

Gyða vaknaði fyrst þennan morgunin, var vöknuð korter í sjö en við hin sváfum til hálf níu. Fengum okkur morgunmat á hótelinu, ég byrjaði reyndar á því að skokka út að bíl og borga í stæðið. Eftir morgunmat ákváðum við að rúnta aðeins um bæinn. Ókum í um tíu mínútur þar til við fundum markað og almenningsgarð. Kíktum í garðinn sem var flennistór. Röltum þar um, leigðum hjólabíl (sjá mynd) og tókum smá rúnt. Ég og Áróra sáum um að stíga hjólið til að byrja með en ég sagði þeim mæðgum að skipta eftir stutta stund, þótti álagið á mér óþarflega mikið. Ég og Gyða sáum því um puðið næstu mínúturnar og svitnuðum óskaplega í steikjandi hitanum. Eftir hjólatúrinn röltum við að hringekjunni og stelpurnar fóru nokkra hringi. Kolla var skíthrædd en Inga María skemmti sér ágætlega. Áróra og Gyða sáu um að passa þær. Gengum framhjá markaðnum þar sem Gyða keypti sér skó. Fundum kaffihús þar sem við gátum svalað þorstanum og skýlt okkur fyrir sólinni. Stelpurnar fengu sér ískalt Sorbet og ég fékk mér bjór. Þegar sieastan hófst um hálf eitt rúntuðum við um bæinn og römbuðum á kjörbúð (supermarket). Versluðum okkur brauð, álegg og ýmislegt fleira, fórum svo á hótelið og héldum pikknikk á rúminu. Settum barnamynd í gang í ferðatölvunni og lögðumst í rúmið til að lesa. Við hjónin vorum bæði steinsofnuð eftir tvær mínútur.

Um kvöldið röltum við um svæðið í leit að veitingastað. Komum við í apóteki til að kaupa plástur fyrir Áróru til að setja á milli tánna. Þurftum að koma aftur við á hótelinu svo Gyða gæti skipt um buxur, hvítu buxurunar hennar entust ekki lengi hreinar með Ingu Maríu í eftirdragi. Heyrðum í Ásmundi og Gunnu sem voru mætt í bæinn og búin að finna hótel. Veitingastaðaleitin endaði á bar, settumst þar úti og pöntuðum pizzu og pastarétti. Ásmundur og Gunna hittu okkur svo þar um kvöldið.

Við skunduðum svo aftur á hótel, stelpurnar orðnar þreyttar og ég vildi að sjálfsögðu horfa á meiri fótbolta. Frakkland og Grikkland áttust við og ég hélt að sjálfsögðu með Grikklandi, þoli ekki Franska landsliðið í fótbolta. Grikkir stálu sigri og ég fagnaði gríðarlega, eða þannig talað, var að minnsta kosti ákaflega sáttur með þessi úrslit.

Myndir dagsins

Toskana 2004