Örvitinn

Sumarhúsið

Farið frá Montecatini Terme að sumarhúsinu rétt fyrir ofan smábæinn Bozzano.

Við sváfum frekar lengi þennan morguninn og ákvaðum að sleppa morgunmatnum á hótelinu enda var hann ekkert svo merkilegur, dæmigerður hótelmorgunmatur. Pökkuðum því í töskur, tékkuðum okkur út af hótelinu og komum við í matvörubúðinni og keypum okkur brauð og álegg. Fórum í almenningsgarðinn og settumst á bekk og fengum okkur að borða. Hittum Ásmund og Gunnu þar. Afskaplega þægilegt stundum að hafa ömmu og afa á svæðinu, það fannst okkur að minnsta kosti þegar við sátum tvö og borðuðum meðan þau sinntu stelpunum hjá hringekjunni.

Lögðum snemma af stað í áttina að Massarossa. Ferðin gekk ágætlega, við vorum reyndar ekki alveg með það á hreinu hvernig við áttum að fara út á hraðbrautina en römbuðum fljótt á hana. Vorum búin að mæla okkur mót við konuna sem sér um húsið klukkan fjögur en vorum mætt tveimur tímum fyrr, versluðum því í matinn í Penny stórmarkaðnum og settumst við niður fyrir framan kaffihús.

Tímanlega klukkan fjögur mætti konan til að leiðbeina okkur að húsinu. Við vorum reyndar með ansi ítarlegar leiðbeiningar frá henni en eftir á séð er augljóst að við hefðum aldrei fundið þetta, þvílík krókaleið. Ókum þröngar götur í gegnum bæinn og svo út í skóg. Þar er þröngur vegur og til siðs að flauta við allar beygjur. Við ókum næst á efttir henni, Ásmundur og Gunna á eftir okkur. Þegar við vorum komin að húsinu sáust Ámundur, Gunna og Áróra ekki. Ég rölti til baka en sá þau hvergi, þau skiluðu sér að lokum, höfðu týnt okkur í einni beygjunni.

Húsið er rosalega flott, mun flottara en ég átti von á og útsýnið er svakalegt. Erum með fjögur góð svefnherbergi, þrjú baðherbergi, þar af eitt með baðkari, hin tvö með sturtu. Stóra stofu, fínt eldhús og stórt boðstofuborð. Fyrir neðan húsið er svo sundlaugin sem við ákváðum að bíða með að prófa.

Stelpurnar skemmtu sér vel við að kynnast maurum og eðlum sem þarna búa, Áróra Ósk var dugleg við að taka myndir af dýraríkinu og ég stalst til þess líka.

Þegar þetta er skrifað er klukkan orðin hálf ellefu og ég sit fyrir framan sjónvarpið og horfi á leik Svía og Hollendinga ásamt því að skrifa um síðustu þrjá daga.. Held með Hollandi í kvöld, þoli ekki sænska landsliðið. Ásmundur og Gunna fóru að sækja Stefán, Margréti og Nathan sem flugu frá London til Písa í kvöld. Ég eldaði spagettí með túnfisksósu handa litlu stelpunum áðan og þær eru steinsofandi. Ef áhugi verður fyrir því elda ég spagettí carbonara þegar hópurinn kemur frá flugvellinum. Ég held það sé varla auðvelt að rata til baka í myrkri.

Þau skiluðu sér að lokum, höfðu tekið vitlausa beygju á hraðbrautinni og töfðust nokkuð. Síðasti kaflinn, heim að húsi, gekk þó vel. Ég eldaði spagettí og allir fóru í háttinn um miðnætti.

Myndir frá deginum

Toskana 2004