Örvitinn

Písa

Skakki turninn í Písa, nýr bílaleigubíll, sund og skokk.

Stefnan var sett á að taka daginn snemma og mæta til Písa snemma um morguninn en þau plön urðu að engu þar sem við sváfum frameftir, fórum á fætur rúmlega níu. Fengum okkur morgunmat og lögðum af stað þegar klukkan var orðin ellefu.

Ferðin til Písa gekk vel enda frekar einföld, ekið eftir hraðbrautinni í tæpar tuttugu mínútur. Við ókum á eftir Ásmundi og Gunnu, Stefán, Margrét og Nathan voru með þeim í bíl. Það gekk ágætlega, við höfðum reyndar dálitlar áhyggjur af því hversu duglegur Ásmundur var að svína fyrir vinstri akrein á hraðbrautinni en það tekur því varla að segja frá því. Ekki gekk jafn vel að aka innanbæjar í Písa, þröngur götur og mikil umferð ollu því að við ókum í nokkra hringi áður en við römbuðum á turninn skakka fyrir tilviljun. Lögðum í hliðargötum og gláptum á fyrirbærið, ætluðum að kíkja upp í turninn en nenntum ekki að bíða í rúmlega fjóra tíma eftir því. Settumst á kaffihús og fengum okkur ís, kynntumst þar stórkostlega lélegri þjónustu, sem er ákveðin upplifun. Kerlingin sem þjónaði okkur var fýld á svip, bauð okkur ekki að velja ísinn og henti í okkur reikningnum og sagði “pay now” þrátt fyrir að við værum langt frá því að vera búin.

Eftir ís röltum við út. Stebbi, Margrét og Nathan kíktu á skranmarkaðina, hinir fóru í skoðunarferð með hestakerru en ég rölti á netkaffihús og kíkti á fréttir að heiman og Liverpool, skellti inn örstuttri dagbókarfærslu. Mikið var gott að komast örstutt á internetið :-p Ég er fíkill.

Á bakaleiðinni komum við við á flugvellinum í Písa, fórum á skrifstofu Hertz vegna þess að framljósin á bílaleigubílnum okkar voru biluð. Ásmundur og kó fylgdu okkur þangað en fóru svo á undan okkur þegar við höfðum fundið bílaleiguna. Ekkert vesen var að fá nýja bíl sömu tegundar, reyndar sjálfskiptan en það var bara ágætt. Ókum þvínæst til baka að sumarhúsinu okkar. Vorum með ferðina alveg á hreinu, ókum upp á hraðbraut og pössuðum okkur á að beygja ekki of snemma til Lucca. Þegar við komum að afreininni sem við áttum að fara var búið að loka henni útaf umferðarslysi, vöruflutningabíll hafði farið á hliðina. Við þurftum því að aka áfram á hraðbrautinni og vorum orðin dauðstressuð yfir því að enda bera í Genúva. Svo var ekki, gátum snúið við eftir um tíu kílómetra og farið inn á rétta hraðbraut úr hinni áttinni. Kíktum í stórmarkað á bakaleiðinni og rákumst þar á hitt liðið. Versluðum heilan helling, erum búin að versla alveg ótrúlega mikið af mat og drykkjarvöru þessa þrjá daga sem við höfum verið hér í sumarhúsinu.

Skelltum okkur í sundlaugina þegar heim var komið, vorum nú með uppblásna báta og bolta og fjörið því mikið. Litlu krakkarnir (þar með talað Stebbi) léku sér með vatnsbyssur og fengu nauðsynlega útrás. Ég og Gyða voru í því að grípa litlu stelpurnar sem stukku út í laugina (aftur og aftur og aftur) en vorum leyst af þegar leið á, gátum slakað aðeins á.

Ég tók mig svo til og skokkaði eftir sundið. Fór ekki mjög langt, skokkaði með þrjá ruslapoka að ruslagámi hér rétt fyrir neðan, skokkaði svo meðfram veginum að afleggjaranum að veitingastaðnum og þaðan til baka að húsinu. Þetta hefur varla verið meira en kílómeter en maður verður að fara rólega af stað. Það var orðið svalt og þægilegt þegar ég hljóp og ég stefni á að gera þetta á hverju kvöldi hér eftir, sjáum til hvernig það gengur.

Í kvöldmat grilluðum við nautakjöt, Stefán skar kjötið niður og Ásmundur stóð við grillið. Ég bakaði kartöflur í ofni, skar þær niður, skar niður hvítlauk, sellerí og lauk. Hellti ólívu olíu yfir og bakaði við góðan hita í ofni.

Var lengi að svæfa Kollu, röbbuðum mikið um daginn og veginn. Áttum meðal annars skemmtilegt samtal um það hvernig börn verða til. Henni þótti bæði ótrúlegt og bráðfyndið að börn kæmu út um klobbann. Ég fór ekkert nákvæmlega út í það hvernig sæðið kemst inn í konuna, en flest annað var rætt.

Versluðum spilastokka í búðinni í dag, ætluðum að spila Liverpool í kvöld en þegar við opnuðum spilapakka kom í ljós að spilin sem við keyptum voru ekki “venjuleg”, sitjum því uppi með þrjá stokka af spilum sem við skiljum ekki. Röbbum því saman í kvöld og borðum ís og eplaköku.

Myndir frá Písa

Toskana 2004