Örvitinn

il Lebbio

Vöknuðum klukkan hálf átta til að ganga frá, þurfum að skila húsinu klukkan tíu um morguninn. Stelpurnar sváfu sem betur fer áfram og reyndar ákveðnir aðrir eldri íbúar, en við hin fórum í tiltekt.

Klukkan tíu yfirgáfum við svæðið og ókum í átt til il Lebbio. Hinn bíllinn fór þó í öfuga átt þar sem þau ætluðu að finna lækni fyrir Stefán sem var að drepast í eyranu. Við ókum hraðbrautina framhjá Lucca og fórum útaf henni hjá bænum Altopascio. Stoppuðum þar í smá stund en ókum svo áfram til Santa Croce sull’ Arne þar sem við stoppuðum til að fá okkur að borða. Þegar við mættum gengum við í gegnum ansi stóran götumarkað þar sem seldur var allskonar varningur, allt frá inniskóm að mygluosti. Okkur gekk ekki vel að finna veitingastað, röltum í gegnum allan miðbæinn og vorum búin að ákvað að keyra annað þegar við römbuðum inn á pizzastað á bakaleiðinni. Fengum þar ágætar pizzur og gátum slakað örlítið á. Eftir mat röltum við að bílnum sem var um 50 metra frá pizzastaðnum, rétt í þann mund er við komum að bílnum kom náungi á hjóli á eftir okkur. Þar var mættur sonur hjónanna sem áttu staðinn með veskið hennar Gyðu sem hún hafði skilið eftir við borðið.

Við ókum af stað eftir sveitavegum og enduðum í bænum Montaione. Þar lögðum við bílnum og biðum eftir ferðafélögum okkar og dáðumst að mögnuðu útsýninu. Þegar þau komu hringdi Ásmundur í staðarhaldara og fékk leiðbeiningar, við ókum sex kílómetra til baka og svo í hlaðið á il Lebbio. Þar erum við í rúmgóðri íbúð með þremur stórum svefnherberjum, góðri stofu en afar litlu eldhúsi. Kæliskáparnir eru þrír, tveir ísskápar og einn frystir en ofninn er afar aumingjalegur, lítill rafmagnsofn. Það verður því frekar eldað á pönnu og litlu útigrillu næstu daga.

Hér eru um tíu íbúðir sem deila góðri sundlaug og opnu svæði. Við röltum um svæðið áðan og þá heyrði ég afskaplega kunnuglegan hljóm, þegar við gegnum nær heyrði ég þá dönsku og hafði á orði við Gyðu að danskan hljómaði helvíti líkt íslensku. Örstuttu síðar heyrðum við íslensku og var þetta þá hópur af íslenskum og íslenskum/dönskum krökkum. Ræddum aðeins við þau og komumst að því að þau eru frá Reyðarfirði, síðar hittum við foreldrana og spjölluðum við þau. Reyndar má segja að ástæða þess að við erum á þessum stað sé einmitt þetta fólk en Gyða er að vinna með kunningjakonu þeirra og hún sagði Gyðu frá þessum stað. Við áttum samt ekki von á því að vera hér á sama tíma og þau. Hér eru einnig danir og bretar held ég, kynnist þessu fólki vafalítið betur við sundlaugina á morgun.

Myndir

Toskana 2004 prívat