Örvitinn

San Gimignano

Ég fór á fætur með Ingu Maríu rétt rúmlega níu, fengum okkur morgunkorn og horfðum saman á CNN. Stefnan er tekin á Sam Gimignano í dag, stelpurnar verða hjá ömmu sinni og afa. Klukkan er orðin ellefu og við erum ekki enn komin af stað.

Sam Gimignano er frægur fyrir ótal turna, en á sínum tíma byggðu menn turn í stað þess að kaupa sér jeppa. Þegar mest var voru turnarnir um 70 en í dag standa 14.

Komum til San Gimignano í hádeginu og urðum strax vör við gríðarlegan fjölda túrista. Ekki var nokkur leið að fá bílastæði og við ókum marga hringi þar til við fundum stæði við hliðargötu. Opinberu stæðin voru öll troðfull.

Röltum inn í miðbæðinn þar sem túristar vöfruðu um eins og býflugur. Fullt af búðum minntu á markaðsbása, nema verðið var hærra. Sömu vörurnar í búð eftir búð. Frekar lítið spennandi. Við stoppuðum á einum fyrsta veitingastaðnum sem við fundum, vorum orðin svöng. Staðurinn var afskaplega lítið spennandi, maturinn eflaust hitaður í örbylgju en bjórinn var kaldur.

Eftir mat röltum við á aðaltorgið, þaðan á ráðhústorgið. Keyptum miða og skoðuðum Dómkirkjuna sem er fræg fyrir freskurnar, afskaplega miklar og myndarlegar myndir sem príða veggi og loft. Meðal annars myndræn lýsing af helvíti þar sem djöflar pynta fólk, þessu tók fólk mjög bókstaflega á sínum tíma, svona var helvíti, en í dag brosir maður af þessum perraskap.

Kíktum þvínæst í ráðhúsið og stóra turninn sem gnæfir yfir bæinn, útsýnið var frábært og ég tók slatta af myndum. Gyðu þótti ekki þægilegt að ganga upp(innskot frá Gyðu: það var mikið verra að labba niður því maður verður eitthvað að horfa niður fyrir fæturnar á sér þegar maður labbar niður en þegar maður labbar upp getur maður horft upp), nýlegur stigi innan í turninum var með tröppum úr járngrindum og því horfði maður niður í gegnum tröppurnar, ekki beint það sem lofthrætt fólk ásælist. Eftir turnferð fórum við á stóra torgið og settumst á kaffihús, Gyða, Stebbi og Nathan fengur sér ís, Margrét fékk sér kokteil og ég pantaði litla flösku af aqua frizzante, sódavatnið látið duga. Röltum á fornminjasafn bæjarins sem olli okkur vonbrigðum. Á leiðinni gengum við framhjá internetkaffi sem ég hunsaði, svona er viljastyrkurinn magnaður.

Ég var orðinn afskaplega þreyttur þegar þarna var komið, með hálfgerðan hausverk og slappur. Við röltum til baka, komum samt við á stóra torginu og kíktum í Ísbúðina við torgið sem er víst afskaplega fræg. Þar braut ég ísregluna, en ég er hættur að borða ís í ferðinni, og pantaði mér Saffran Cream ís sem mælt er með í bókinni góðu. Ísinn bragðaðist sérlega vel og ég mæli með því fólk stoppi í ísbúðinni á torginu þegar það bregður sér til San Gimignano. Röltum svo út úr miðbænum í átt að bílnum okkar, hann var á sínum stað, sjóðandi heitur.

Þurftum að koma við í kjörbúð og ákváðum að bregða okkur til Poggibonsi sem fær þá umsögn í bókinni góðu að þar sé ljótasti bær Toskana. Ég held að sá dómur hljóti að vera réttur, afskaplega óspennandi og leiðingur lítill bær. Stórmarkaðurinn þar var aftur á móti stór og spennandi. Þar versluðum við heilan helling, matar og drykkjarbirgðir ásamt öðru nauðsynlegu.

Keyrðum sömu leið til baka, þ.e.a.s. í gegnum Sam Gimignano. Stoppuðum við vegarkant skömmu eftir að hafa ekið úr turnabænum og tókum myndir. Ég hefði viljað vera með lengri linsu en náði samt ágætum myndum.´

Þegar heim var komið hófumst við handa við að elda. Settum kol í afskaplega lítið og ómerkilegt grill sem hér er. Þessu tókst mér að klúðra, notaði of lítið af kolum og hitinn varð því ekki nægur. Náði að grilla minnstu sneiðarnar en þær stærri þurfti ég að klára í ofninum, sem einnig er afskaplega lítill og ómerkilegur. Um kvöldið sátum við og spjölluðum, ég drakk heilan helling af bjór og fann meira að segja á mér sjálfur.

Myndir

Toskana 2004 prívat