Örvitinn

Dagsferð til Siena

Ég og Gyða fórum á fætur klukkan sjö um morguninn, ferðinni heitið til Siena borgar þar sem við ætluðum að eyða deginum barnlaus. Inga María vaknaði á sama tíma og við þannig að Gunna þurfti að fara á fætur með henni. Við brunuðum af stað klukkan hálf átta og fórum lengri leiðina til Siena, styttri leiðin var lokuð! Vorum komin til Siena um níu.

Þegar til Siena var komið lögðum við bílnum í bílastæðahúsi rétt fyrir utan miðbæinn. Röltum svo að aðaltorginu, fengum okkur brauð og vatn og borðuðum morgunmat við torgið sem er sérlega vel heppnað, í laginu eins og skel og hentar vafalítið mjög vel fyrir tónleika og sýningar. Eftir það gengum við 400 þrep upp turninn við torgið og dáðumst að útsýninu og tókum ótal myndir. Eftir gönguna í turninn settumst við á bar við torgið og fengum okkur drykk.

Þvínæst skoðuðum við Kapelluna sem er fjandi tilkomumikil, ljóst að óskaplega marga spítala hefði verið hægt að byggja fyrir gullið og vinnuna sem fór í að byggja þetta blessaða hús. Bruðlið var endalaust, hvílík sóun.

Röltum um bæinn og ákváðum að vera snemma á ferðinni á veitingastaðnum Hostaric Il Corraca sem mælt er með í bókinni góðu. Fundum staðinn eftir smá leit og settumst inn fyrsta gesta klukkan hálf eitt, einhverjir sátu úti. Hálftíma síðar var staðurinn kjaftfullur. Ég fékk mér kjúklingalifur í antipasti, pici – einskonar þykkt spagettí – í fyrsta aðalrétt og svínakjöt með appelsínu og plómusósu í seinni aðalrétt. Dásamlegur matur á frábærum stað. Pici kom skemmtilega á óvart, ég þarf að prófa að elda það.

Eftir mat kíktum við á internetkaffi í stað þess að fá okkur desert, sátum þar í hálftíma meðan maturinn sjatnaði. Gyða var bara ósköp sátt við þessa reynslu, ég tel að maður hafi ekki raunverulega heimsótt borg ef maður hefur ekki kíkt á internetkaffi þar! Fundum bókabúð og keyptum tvær bækur, eina fyrir Ásmund sem skortir lesefni, fundum fyrir hann bók um sögu Medici ættarinnar og eina fyrir mig, sá bók eftir Dan Brown, höfund Dawinci lykilsins og greip hana, ætla ekki að lesa hana strax, Quicksilver verður kláruð fyrst.

Þvínæst röltum við á torgið, Gyða fékk sér alvöru desert, ís með sítrónu og bananabragði (sitthvor kúlan), ég sagði pass, reyni að sleppa ísnum þessa dagana með frekar slöppum árangri. Komum okkur fyrir á torginu og slöppuðum af þar til rigningardropar fóru að falla af himnum, tókum dótið okkar saman og röltum af stað en vorum ekki komin af torgina þegar rigningin, sem aldrei komst yfir dropastigið, hætti. Sátum því aðeins lengur. Ég fékk þá símtal frá Heimsferðum, en við kaupum flugið frá þeim. Þau voru að hringja til að benda á að flugið heim færi frá flugvellinum í Bologna en ekki Forlí. Við komum alveg af fjöllum, höfðum ekki hugmynd um þetta. Á miðanum okkar stendur Forlí/Bologna – en flugvöllurinn í Forlí heitir Bologna. Nokkuð ljóst að ef við hefðum ekki fengið þetta símtal hefðum við endað á vitlausum flugvelli og misst af vélinni heim.

Lögðum af stað til baka um fimm og vorum fljótari en um morguninn, fórum lengra á hraðbrautinni en þurftum samt að aka töluverðar krókaleiðir í gegnum smábæi, það er viss upplifun. Poggibonsi fékk örlitla uppreisn æru við nánari skoðun, þetta er ekki svo ljótur bær! Vorum komin aftur í hús klukkan sex, höfðum húsið fyrir okkur í smá stund þar sem restin af hópnum hafði farið með Áróru á hestanámskeið.

Ég eldaði spagettí carbonara handa stelpunum, Ásmundur og Guðrún fóru út að borða. Notaði extra mikið af eggjum og beikoni í kvöld og þetta heppnaðist helvíti vel að mínu sérlega hóværa (en ekki hvað) mati.

Kláruðum Liverpool spilið sem hófst í gærkvöldi, Áróra vann tvö síðustu spilin og telst að minnsta kosti móralskur sigurvegari, þó afi hennar hafi endað með færri stig þegar allt var talið.

Myndir

Toskana 2004 prívat