Örvitinn

Rimini

Fórum á fætur klukkan hálf átta og tókum til í húsinu, fengum okkur morgunmat og ókum af stað til Rimini. Byrjum á því að aka að hraðbraut, fórum reyndar vitlausa leið og keyrðum eflaust helmingi lengra en tilefni var til. Þegar á hraðbrautina var komið gekk ferðin vel, enda ek ég eins og vindurinn á hraðbrautinni, fyrst til Bologna, stoppuðum á veitingastað skömmu eftir að ókum framhjá Bologna, rándýrri vegasjoppu. Keyptum okkur kort af Rimini og hringdum í farastjóra Heimsferða á Rimini. Ókum svo beint til Rimini og vorum ekki lengi að finna hótelið þegar þangað var komið.

Þetta er ágætt hótel og íbúðin er fín. Áróra og Kolla sofa í hjónarúminu, Inga Maríu sefur í barnarúmi með þeim inni í svefnherbergi. Ég og Gyða sofum í svefnsófa í stofunni sem einnig gegnir hlutverki borðstofu og eldhúss. Staðsetningin er mjög góð, ekki tekur nema fimm mínútur að ganga á ströndina með eina tveggja ára í eftirdragi eða fanginu.

stelpurnar við ströndinaEftir að við höfum komið okkur fyrir á hótelinu röltum við á ströndina og skoðuðum okkur aðeins um, stelpurnar stungu tánum í sjóinn og eru ósköp spenntar. Á morgun ætlum við að eyða deginum á ströndinni. Við setjum stefnuna á að eyða einum degi á ströndinni en fara svo í einhverja skemmtigarða næstu tvo daga, sjáum svo til með miðvikudaginn, kannski förum við aftur á ströndina þá, veðrið hefur náttúrulega eitthvað með það að segja.

Í verslunarmiðstöð fundum við krakkahorn (boltaland) og Áróra passaði stelpurnar þar meðan við skutumst yfir götuna í matvöruverslun og redduðum helstu nauðsynjavörum. Þegar við komum til baka voru stelpurnar enn á fullu að leika sér, Áróra hafði fulla stjórn á stöðunni.

Röltum aftur á hótel og ég eldaði spagettí með kjötsósu. Fengum okkur reykt nautakjöt, sem við tókum með frá fyrri íverustað, í forrétt. Helvíti fínt með ólívuolíu, svörtum pipar og helling af parmesan osti. Við eigum alveg óskaplega mikið til af parmesan osti og hann verður því lítið sparaður næstu daga.

Sátum úti á svölum í kvöld og slökuðum á meðan stelpurnar léku sér. Tókum undarlegar myndir [1 2 3] af hvort öðru og slökuðum á. Svæfðum þær yngri um tíu og lágum svo frammi og horfum á MTV kvikmyndaverðlaunin. Heyrðum í flugeldasýningu en sáum ekki rassgat, varla mikið varið í þessar ítölsku flugeldasýningar.

Myndir

Toskana 2004 prívat