Örvitinn

Skemmtigarðurinn Mirabilandia

Fórum í skemmtigarðinn Mirabilandia sem er um hálftíma akstur frá Rimini. Lögðum nokkuð snemma af stað og ég stakk upp á því að við ækjum ekki sömu leið úr bænum og þegar við ókum inn, lagði til að við færum beinni leið. Þetta reyndist ekki gáfulegt þar sem við lentum í heljar umferðarteppu og vorum um klukkutíma að komast upp á hraðbraut, leið sem annars ætti að taka fimm til tíu mínútur.

Í MirabilandiaÞegar við vorum loks komin á hraðbrautina gekk ferðin vel og áður en við vissum af vorum við komin að þessum risastóra skemmtigarði. Klukkan var um hálf eitt þegar við gengum inn í garðinn eftir að hafa borgað ágæta summu til að komast inn, reyndar þótti okkur þetta ekkert svo dýrt eftir daginn. Leigðum kerru fyrir Ingu Maríu og röltum af stað, byrjuðum í krakkasvæðinu þar sem stelurnar fóru í lestarferð, léku sér í kastala og hoppuðu um í boltalandi. Þvínæst fóru stelpurnar í eitt tæki, tvær og tvær saman í bátabraut með lítilli brekku [1][2]. Eftir það fór ég með Áróru og Ingu Maríu í annað bátatæki þar sem farið var í töluvert stærri brekku, Kolla þorði ekki. Inga María sat í fanginu mínu og sá afskaplega lítið en ég og Áróra skemmtum okkur vel.

Borðuðum hádegismat og skelltum okkur þvínæst í parísarhjólið. Þaðan var gott útsýni yfir allt svæðið og við gátum plottað framhaldið. Gyða var reyndar dálítið lofthrædd en hún þraukaði þessi hetja. Hafði óskaplega miklar áhyggjur af stelpunum þegar þær nálguðustu dyrnar en þær áhyggjur voru óþarfar, dyrnar voru læstar að utan.

Eftir parísarhjólið fórum við í lítinn rússíbana. Lágmarkshæð í hann var 90cm þannig að við ályktuðum að hann væri við hæfi barna og fórum öll. Komumst að því fljótt að þetta var alltof mikið fyrir stelpurnar, Kolla var mjög hrædd og öskraði af skelfingu þó ég gerði mitt besta til að halda í hana og sannfæra um að þetta væri ekkert mál, algjört klúður hjá okkur. Rússíbaninn var ósköp lítill og stuttur en samt var þetta alltof mikið fyrir Kollu og Ingu Maríu.

Næst á dagskrá var bátsferð í kringlóttur bát, man ekki hvað þetta heitir. Ágætur buslugangur olli því að við blotnuðum örlítið, stelpurnar höfðu gaman af þessu. Fórum í fjölda tækja, ýmist öll eða ég og Gyða með Áróru, Kollu og Ingu Maríu.

Í MirabilandiaÉg var búinn að sannfæra Gyðu um að koma með mér í stærsta rússíbanann en hún gugnaði á því. Ég var alveg við að gugna líka en gat ekki gert það fyrir framan stelpurnar :-) Þannig að ég lét mig hafa það og fór einn í stærsta rússíbanann. Það voru tvær raðir, ein fyrir fremstu röðina í rússíbananum og önnur fyrir allar hinar. Ég fór í stærri röðina því hún gekk mun hraðar og svo var ég ekkert svo spenntur fyrir því að vera í fremstu röð :-), þurfi líka ekki að bíða lengi. Ferðin í rússíbananum var mögnuð, aldrei hef ég öskrað jafn mikið á jafn stuttum tíma. Reyndar hló ég taugaveiklunarhlátri líka stóran hluta ferðarinnar, á myndinni úr rússíbananum er ég skælbrosandi, en þetta var svakalegt. Lykkjur og hringir á ógnarhraða, manni fannst eins og á næstu stundi myndi maður lenda á vegg eða jörðinni og krafturinn var ógurlegur.

Í MirabilandiaVið fórum í nokkur tæki til viðbótark, Gyða og Áróra fóru tvisvar í stóra rennibraut og stelpurnar fóru aðra ferð í lestinni. Á röltinu hittum við fígúrur garðsins sem voru duglegir við að stilla sér upp með börnunum og kvöttu svo foreldra til að taka myndir. Inga María var nú dálítið hrædd við risastóru kanínuna en við náðum þei mynd af þeim

Dagur var að kveldi kominn og tímabært að skunda aftur á Rimini. Yfirgáfum skemmtigarðinn klukkan átta og ókum greiðlega til Rimini.

Þegar við komum til baka ákváðum við að fara út að borða þó klukkan værði orðin nokkuð margt. Röltum út á göngugötu og fundum okkur veitingastað, það var nóg af þeim á Rimini en staðirnir voru ekkert rosalega spennandi. Úti að borða á RiminiÞetta kvöld fórum við þó á ágætan stað og sjávarréttarritsottóið var fínt. Við borguðum jafn mikið fyrir kvöldmatinn og við höfðum borgað fyrir daginn í skemmtigarðinum og þá þótti okkur aðgangurinn í skemmtigarðinn ekki svo dýr.

Klukkan var rúmlega ellefu þegar við röltum til baka á hótelið. Keyptum blöðrur handa Kollu og Ingu Maríu. Hittum íslendinga fyrir framan hótelið og ræddum örstutt við þau um daginn og veginn.

Það fóru semsagt allir seint að sofa eftir þennan vel heppnaða dag. Stelpurnar voru himinlifandi með daginn og ljóst að allir skemmtu sér vel. Klukkan var að verða tvö þegar við hjónin fórum loks að sofa.

Myndir dagsins

Toskana 2004