Örvitinn

Læti í næsta herbergi

Inga María vaknaði eldsnemma, klukkan átta. Við hjónin fórum ekki að sofa fyrr en klukkan tvö þannig að Gyða fór illa út úr þessu – ég lá að sjálfsögðu í rúminu, ekki steinsofandi en samt meira sofandi en hún.

Eyddum deginum á ströndinni, kíktum á pizzastað klukkan tvö. Eflaust vorum við of mikið í sólinni þennan daginn, að minnsta kosti notaði ég ekki nóg af sólarvörn – hugsanlega brunninn á hægri öxl vegna þess að ég var í fyrsta sinn í þessari ferð of kærulaus við að setja á mig sólarvörn, get engu nema eigin heimsku kennt um.

Eldaði svepparisotto úr pakka sem var ágætt. Gyða keypti tvær flöskur af hvítvíni, eina ódýra og eina dýra. Við neyðumst til að marinera okkur í áfengi þessa síðustu daga til að klára lagerinn, annað væri óskaplega sóun.

Kvöldið var ekki búið, í kringum miðnætti komu nágrannar okkar í næsta hótelbergi aftur til baka eftir ferð í Mirabilandia skemmtigarðinn. “pabbi ekki” “mamma ekki” heyrðist hátt og greinilega, húsgögn virtust hreyfast af hljóðinu að dæma. Við hjónin stóðum við hurðina, hleruðum og spáðum í því hvað við ættum að gera. Að lokum fór ég niður til húsráðanda og dró hana upp. Þá voru lætin reyndar búin, nágrannar af næstu hæðum höfðu bankað upp á og kvartað undan látum, sögðu mér svo að svona hefði þetta verið alla vikuna. Fjölskyldufaðir baðst afsökunar, síðar kom annar nágranni og bankaði, þá kom kona/stelpa til dyra og kannaðist ekkert við vandræði.

Ég bað húsráðanda um að hafa samband við fararsjóra og ræddi við konu (Þóru) á vegum Heimsferða. Sagði henni hvað við hefðum heyrt og reyndi að fá hana til að gera eitthvað. Hún var ráðalaus, hafði eitthvað heyrt af látum í húsinu en það tengdist þessum íbúm ekkert að því ég best veit. Ég sagði henni að ég vildi að hún færi með málið lengra, í aumingjaskap mínum krafðist ég þess ekki að hún hringdi á lögregluna, sé eftir því. Sagði henni að hringja í þau, held hún hafi ekki látið af því verða – hef að minnsta kosti ekkert heyrt og ekki hefur lögreglan mætt á svæðið.

Toskana 2004