Örvitinn

Markaður, skemmtigarður og höfrungasýning

Fórum í miðbæinn og kíktum á markaðinn. þegar við komum að miðbænum ók ég framhjá skilti þar sem tekið var fram að allur akstur væri bannaður. Gyða reyndi að benda mér á það en ég lét orð hennar sem vind um eyru þjóta og ók áfram. Áður en ég vissi af var ég akandi í mannþrönginni og fékk illt auga frá mörgun, heimskur túristi hugsuðu flestir. Komust út úr mannþrönginni að lokum gegnum afar þröngar götur. Lögðum bílnum og röltu minn á markað. Þar var margt skemmtilegt að sjá, við keyptum ferðatösku til að hafa nóg pláss fyrir allt dótið í heimferðinni. Borguðum 25 evrur fyrir töskuna.

Í hádeginu fórum við á Grískan veitingastað, ágæt tilbreyting. Fengum okkar meðal annars músakka sem var afar gott.

Kíktum í lítinn skemmtigarð í Rimini sem má muna betri tíð. Risastórt bílastæðið var grasi gróið á stórum hluta, ásóknin greinilega verið meiri í gamla daga. Stelpurnar skemmtu sér nú samt vel og stóra rennibrautin vakti mikla lukku hjá allri fjölskyldunni. Inga María var meira að segja farin að renna sér ein að lokum og var ákaflega stolt yfir því.

Ákváðum að kíkja á höfrungasýningu en komum að luktum dyrum. Ákváðum að fara síðar um kvöldið, klukkan hálf tíu. Þrátt fyrir að það væri frekar seint fyrir stelpurnar vildum við ekki að þær misstu af þessu.

Kíktum á veitingastað um kvöldið. Eftir matinn fóru stelpurnar og fengu sér ís en ég skaust í kjörbúðina og keypti Parmesan ost og ólívu olíu. Hitti svo stelpurnar og við ókum að höfrungasýningunni. Vorum þokkalega tímalega á ferðinni en þegar við komum þangað var ekki bílastæði nokkursstaðar nálægt. Gyða fór út til að kaupa miða en ég og stelpurnar ókum um í leit að stæði. Það tók heljar tíma og að lokum lagði ég lengst í burtu og hlupum við svo að lauginni. Þetta var heljar hlaup og við vorum afar stressuð enda að verða of sein.

Náðum þó tímanlega, rétt misstum af byrjuninni. Stelpurnar skemmtu sér mjög vel. Ég reyndi að taka myndir en það var afar erfitt, lítið ljós og mikið action í gangi.

Fórum aftur á Hótel og svæfðum stelpurnar. Unnum svo örlítið í því að klára vínbirgðirnar. Ég hringi í Þórð til að minna hann á að koma með bílinn að flugstöðinni. Hann sagðist hafa "ekki góðar fréttir" en neitaði að segja meira. Svona gerir maður ekki! Ég var dauðstressaður, hafði ekki hugmynd um hvað hafði gerst. Okkur grunaði helst að hann hefði klesst bílinn.

Pökkuðum niður áður en við fórum að sofa í síðasta sinn í þessari Ítalíuferð.

Myndir dagsins

Toskana 2004