Örvitinn

Heimferðin

Fórum á fætur klukkan hálf sjö, tókum til og kláruðum að pakka. Ókum af stað frá Hótelinu klukkan átta. Ósköp mikill kostur að vera á bíl, þegar við ókum í burtu stóðu voru hinir íslendingarnir að búa sig undir að ganga 100 metra að rútunni með allan farangur.

Ferðin gekk vel, lentum ekki í umferðarteppu á leið frá Rimini og brunum á hraðbrautinni í átt að Bologna, vorum komin þangað eftir klukkutíma akstur en þó var töluvert eftir, hálftíma akstur að flugvellinum eftir að komið er að borginni.

Kolla var orðin ansi slöpp og ældi í bílnum um leið og við stoppuðum á flugvellinum. Við þrifum það sem við gátum, Gyða fór inn með stelpurnar og farangurinn en ég fór að skila bílnum.

Við vorum komin töluvert á undan flestum íslendingunum og vorum því framarlega í röðinni. Þurftum þó að bíða í einhvern tíma þar til byrjað var að tékka inn. Merkilegt annars hvað þessi innskráning á flugvöllum getur gengið illa. Við vorum þó fljótt komin inn í biðsal og biðum eftir vélinni okkar.

Af einhverri rælni kveikti ég á ferðavélinni og prófaði að skanna eftir þráðlausu neti. Viti menn, á flugvellinum í Bologna er opið net og ég gat því ráfað um í smá stund, þorði ekki að vera of lengi þar sem ég fann ekki innstungu og ætlaði að leyfa stelpunu að horfa á bíómynd í flugvélinni. Setti þó inn eina færslu í dagbókina. Einhver töf varð á fluginu, þurftum að bíða í þrjú korter í röð. Vorum þó heppinn því hluti farþega þurfti að bíða þann tíma úti í steikjandi hitanum.

Heimferðin gekk vel, Inga María svaf stóran hluta ferðarinnar. Verslðum tollinn okkar í fríhöfninni eins og gengur og gerist. Vorum með örlítið of mikið þegar við löbbuðum í gegnum hliðið en ekkert stórsmygl í gangi. Held við höfum haft eina léttvín og eina Limone flösku auka.

Þórður tók á móti okkur á flugvellinum. Ég spurði hann náttúrulega strax hvaða "ekki góðu fréttir" hann hefði að færa. Þá var málið að bíllinn var enn á verkstæði, í ljós hafði komið að stýrisvél var biluð og áætlaður viðgerðarkostnaður vel yfir hundrað þúsund krónur. Ætla ekki að fjalla meira um það í ferðadagbókinni. Jóna Dóra og Óttar komu skömmu síðar á öðrum bíl svo hægt væri að koma öllum hópnum heim.

Ljóst er að aldrei verið jafn fínt heima hjá okkur og þennan dag er við komum heim frá Ítalíu. Mamma og Jóna Dóra (ásamt fleirum) höfðu tekið húsið í gegn og skrúbbað hátt og lágt. Auk þess höfðu þau fyllt ísskáp og frysti af mat, en meðan við vorum úti hafði rafmagn farið af húsinu og allt sem var í frysti skemmst.

Það var gott að koma heim, en sárt að vera farinn frá Toskana.

Toskana 2004