Örvitinn

Garðaskóli

Rölti aðeins um ganga Garðaskóla í gærkvöldi. Ég, Davíð og Óli hittumst örstutt og kíktum í Garðabæ til að taka myndir. Þar sem við vorum á vappi í kringum skólann mætti okkur ungur maður sem hleypti okkur inn þannig að við gátum rifjað upp gamla tíð.

Það hefur mikið breyst frá því við gengum þarna út árið 1989. Búið að byggja við skólann þannig að hann er gjörbreyttur að utan og að innan hefur ýmislegt þróast í áranna rás.

Ég var heillengi að átta mig á því hvað hefur breyst að framan, horfði á framhlið skólans og fannst eins og svæðið milli steypta sparkvallarins og skólans væri allt öðruvísi en það var í den. Það er það líka, aspirnar sem nú gnæfa yfir voru bara hríslur fyrir fimmtán árum, málið er ekki flóknara en það, maður er orðinn æfaforn :-)

Svarti bekkurinn er blár, skápar um allan skóla í stað fatahengja og mötuneyti hefur verið plantað niður í salinn. Bókasafnið er komið í nýtt húsnæði og plássið tekið undir skólastofur. Diskóbúrið er á sínum stað en ég sá engin borðtennisborð.
Minningarnar helltust yfir þegar við röltum um efri hæðirnar og rifjuðum upp stofurnar, kennarana og samnemendur. Það magnaðasta við upprifjun okkar okkar er hversu lítið ég man, ég er alveg einstaklega ómannglöggur og óminnugur.

Röltum að lokum um íþróttasvæðið, nýja aðstaðan er nokkuð flott. Gervigrasvöllur þar sem grasvöllurinn var áður, minni æfingavellir þar sem malarvöllur var og flott stúka. Ég skil ekki til hvers, Garðbæingar hafa aldrei mætt á knattspyrnuleiki, getur samt verið gott að hafa aðstöðu fyrir stuðningsmenn aðkomuliðs.

En í haust, væntanlega í lok September, verður semsagt fimmtán ára reunion árgangsins sem útskrifaðist úr Garðaskóla 1989 en það er önnur saga.

dagbók
Athugasemdir

Sirrý - 21/07/04 13:56 #

Vííí það verður fjör. Þá á ég bara eftir að léttast um 15 kg láta slétta úr hrukkunum, fara í brúnkumeðferð, Fá siliconið, kaupa dressið úfffffff ég ætti kannski bara að sleppa því að mæta og fara bara til útlanda í staðin :C)

sirry - 19/08/04 14:03 #

Þú svarar ekki tölvupóstinum frá mér en veistu nokkuð hvenær reunionið verður ??

Matti Á. - 19/08/04 14:09 #

Hvert sendir þú tölvupóstinn? Ég hef engan fengið.

Skv. þessu verður reunion 18. september.