Örvitinn

Fahrenheit 9/11

Glápti á þessa nýjustu mynd Michael Moore í gærkvöldi, hef beðið nokkuð spenntur eftir henni enda myndin búin að fá mikið lof á ýmsum bloggsíðum (t.d. hjá Einari), jákvæða umfjöllun í erlendum tímaritum og Gullpálmann á Cannes.

Að mínu mati er þessi mynd léleg. Það kemur ekkert áhugavert fram í henni, engir nýir fletir á málum og í raun ekki ljóst hvert Moore er að fara.

Bowling for Columbine fannst mér góð og var að vonast til að þessi mynd væri betri en svo er alls ekki. Aðferð Moore er að mínu mati þreytt, hann klippir til allskonar filmubrot og talar svo yfir þeim, uppáhaldsaðferð hans er að taka eitthvað úr samhengi og segja svo eitthvað skondið til að hljóma gáfulega. Samsæriskenningarnar fljóta í stríðum straumum og ýmislegt er gefið í skyn en ekki fullyrt.

Ég skil bara ekki hvað fólk sér við þessa mynd, Bowling for Columbine er skemmtileg mynd en Fahrenheit er einfaldlega slöpp. Ég horfi ekki á þessar myndir eins og þær séu heimildarmyndir enda hefur Moore sjálfur sagt að hann geri ekki heimildamyndir, þetta eru pólitískar áróðursmyndir og ágætar sem slíkar.

Kannski olli myndin mér vonbirgðum vegna þess að ekkert nýtt kemur fram í henni, ef maður er búlinn að lesa Stupid White Men og Dude, where's my country? hefur maður þegar fengin innsýn Moore í allt það sem fjallað er um í myndinni.

Mæli með umfjöllun Spinsanity: Fahrenheit 9/11: The temperature at which Michael Moore's pants burn Spinsanity er ekki hægt að afgreiða með þeim rökum að þar séu bara fúlir hægrimenn á ferð því þessi vefur er mjög vandaður og gagnrýnir alla sem beita vafasömum rökum í opinberri umræðu vestan hafs.

kvikmyndir