Örvitinn

Heimsókn frá trúarnötturum

Fékk óvænta heimsókn frá tveimur ungum bandarískum mönnum í kvöld. Þeir mættu hingað um hálf sex og hringdu dyrabjöllunni. Ég var að vonast til að meindýraeyðir væri mættur til að eyða geitungabúinu en þá voru þetta tveir karlmenn um þrítugt, skeggjaðir í gallabuxum og peysu. Sögðust vera að gera könnum og spurðu hvort ég væri til í að svara nokkrum spurningum. Ég var til. "Ertu trúaður?" "Trúir þú að Jesús hafi verið raunveruleg persóna?" og svo framvegis. Þetta voru semsagt trúboðar frá Kirkju sjöunda dags Aðventista í leit að fórnarlömbum.

Ég spjallaði við þá í stundarfjórðung eða svo, reyndar sá annar þeirra um að tala, hinn stóð bara hjá og fylgdist með, líklega í starfsþjálfun. Við rökræddum á góðum nótum, ég nennti ekkert að bjóða þeim inn, þannig að ég stóð bara í gættinni, var líka að vonast til að geitungar myndu ráðast á þá :-P Þetta eru bókstafstrúarmenn af verstu sort, hafna þróunarkenningunni "sem aldrei hefur verið sönnuð" og trúa því að heimurinn hafi verið skapaður á sex dögum. Ég held þeir hafi haft nokkuð gaman að þessu, þó sá sem hafði orð fyrir þá hafi æst sig örlítið á tímabili held ég að þeir séu vanari því að fólk skelli bara á þá. Hver veit, kannski bíð ég næstu trúarnötturum inn og spjalla við þá í stofunni, þyrfti kannski að vera undirbúinn og eiga útprentaðar greinar, t.d. þar sem bullinu í sköpunarsinnum er svarað, það hefði verið gaman að geta rétt þeim þessa grein áðan. Ég hafði glettilega gaman að þessu spjalli og æfði mig örlítið í ensku í leiðinni.

Sniðugt að sjá að þeir eru ekki jakkafataklæddir og smjörgreiddir trúborðarnir í dag, eða er það einhver annar trúarnöttarahópur?

kristni
Athugasemdir

Halldór E. - 26/07/04 21:19 #

Skemmtilegt, annars eru jakkafataklæddu smjörgreiddu trúboðarnir frá Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu sem oft eru kallaðir mormonar. Slóðin þeirra er einmitt www.kirkjajesukristshinnasidaridagaheilogu.is. Ég vissi ekki að Aðventistarnir gengu í hús. En svona er þetta.

Annnars áttu von á Bolla og Valgeiri hvað á hverju. Enda stendur í tilskipun frá 27. maí 1746 að (sem n.b. hefur lagalegt gildi):

Prestarnir á Íslandi skulu, hver einn fyrir sig, vera skyldir til, í minnsta máta tvisvar á ári, að vitja þeirra safnaðar í þeirra hús og híbýli, og það hvers húss og bústaðar í þeim sama; en hvar sóknin er lítil, ellegar engin annexía finnst, skal hann oftar taka sér fyrir þessa nauðsynlegu höndlun, hvar með prófasturinn í hverju héraði skal hafa kostgæfilega tilsjón
.

Matti Á. - 26/07/04 21:33 #

Annnars áttu von á Bolla og Valgeiri hvað á hverju.
Það verða aldeilis fagnaðarfundir :-)

Óli Gneisti - 26/07/04 22:02 #

Ég fæ aldrei trúarnöttara í heimsókn, í vetur þá komu reyndar einhverjir Vottar sem Eygló sendi í burtu, þegar hún sagði mér frá því var ég næstum því búinn að hlaupa út á eftir þeim.

Arnaldur - 27/07/04 02:49 #

Þetta er dæmi um afbragðs húmor almættisins! Að senda trúarnöttara í heimsókn til þín er algjört brill. Er til betri sönnun á tilvist almættisins? Þessi húmor er ekki jarðneskur.

Birkir - 27/07/04 18:05 #

Einu sinni fékk ég svona mormónastráka í heimsókn til mín á stúdentagarðana. Ágætir drengir í flesta staði... komu frá höfuðstöðvunum í Utah. Ég spjallaði heillengi við þá og las fyrir þá úr Tómasarguðspjalli (Nag Hammedi skjölunum) um það hvernig kristur hataði konur og svona... Það fannst þeim ekki góð biblía.

Við skildum sáttir, þeir óafguðaðir og ég enn sami heiðinginn. Ég rakst á þá oft á næstu vikum þegar þeir voru að þvælast á görðunum í leit að fórnalömbum. Þeir heilsuðu mér alltaf með miklum virktum.

Davíð - 28/07/04 01:24 #

.....andsk.... Það er einhver að fífla þig Matti. djö... andsk...fyndið. hahahahaha.

DJ - 31/07/04 11:13 #

Suss, það er hvergi friður fyrir þessum gæjum. Ég hélt að rekja mætti trúboð mormóna til þess að þeir væru hér að heimsækja "the old country" og notuðu tækifærið til að breiða út sorgarerindi sitt, en að kanar frá ýmsum trúarhópum séu hér í sömu erindum er full mikið af því góða.

Man samt eftir því einu sinni að indverji hljóp mig uppi á planinu hjá Ikea (ég var keyrandi og hann á tveimur jafnfljótum og hann hljóp og hljóp þangað til ég gafst upp og stoppaði) til þess eins að gefa mér einhverja Hindu bók. Svo þegar ég ætlaði að taka þessu góða boði hans, þá vildi hann samt endilega þiggja frjálst peningaframlag á móti - sem að vísu innihélt leiðbeinandi verð.

Hvernig ætli fólki yrði við ef að trúleysingjar færu að banka á dyr og útbreiða lífsskoðun sína? Hræddur er ég um að slíkt þætti ekki til fyrirmyndar. En held að það sé þeim mun betri hugmynd fyrir vikið. Tilvalið t.d. að banka upp á hjá öllum komandi fermingarbörnum og rökræða við þau um trúmál.