Örvitinn

Skúr og dularfull umferðarljós

Þegar ég fór úr ræktinni í morgun lenti ég í þeim rosalegasta skúr sem ég hef upplifað á skerinu. Ég hljóp að bílnum um þrjátíu metra leið og var rennblautur þegar ég stökk inn í bíl, það hefði mátt halda að ég hefði skellt mér í sturtu í öllum fötunum, svo blautar voru buxurnar og bolurinn. Mínútu eftir að ég komst í bílinn stytti upp, dæmigert.

En að öðru dularfullu máli. Í vikunni hef ég farið fjórum sinnum í ræktina á morgnana fyrir vinnu. Ég ek alltaf sömu leið í ræktina og svo úr ræktinni í vinnuna. Leiðin úr ræktinni liggur yfir brúna við Álfabakka sem tengir saman Kópavog og Breiðholt. Þessi brú er fræg að endemum fyrir það hversu mörg umferðarljós eru á henni og næstum því án undantekninga þarf maður að stoppa á rauðu ljósi þegar ekið er yfir.

tilbiðjið migÍ öll fjögur skiptin sem ég hef ekið þessa brú á leiðinni úr ræktinni í þessari viku hef ég lent á grænu ljósi og því aldrei stoppað. Hverjar eru líkurnar á því? Ég skal segja ykkur það, þær eru engar, líkurnar er engar, 0.0%. Hvaða ályktun getum við dregið af þessu? Það liggur í augum uppi, blasir við, engum blöðum um það að fletta og um það verður ekki deilt að þetta er óyggjandi sönnun þess að ég er heilagur maður, bý yfir yfirskilvitlegum hæfileikum og umferðaljósin á Álfabakkabrú lúta mínum vilja.

Tilbiðjið mig.

Ýmislegt
Athugasemdir

Sirry - 30/07/04 12:32 #

Ég var næstum lent í þessum skúr eða öðrum eins þegar ég fór með Tinnu á leikskólann. Hljóp inn og þegar ég var að fara út aftur var svona mikil rigning svo ég reyndi að gefa karlinum merki um að koma nær með bílinn en hann var of upptekinn við eitthvað annað en að taka eftir mér svo ég hikaði en hljóp svo af stað og þá minnkaði rigningin svo ég blotnaði ekki mikið.

En annars er ég viss um að Guð almáttugur hefur vakað yfir þér á leið í ræktina og skipt ljósunum fyrir þig svona til að sína þér mátt sinn.

Matti Á. - 30/07/04 12:42 #

Guð almáttugur hefur vakað yfir þér á leið í ræktina og skipt ljósunum fyrir þig svona til að sína þér mátt sinn
Neineinei, þú misskilur. Þetta sýnir óumdeilanlega að ég er Gvuð almáttugur.

Ég skil ekki hvernig fólk getur mistúlkað svona kraftaverk. :-)

pallih - 30/07/04 13:10 #

Ég var ekki að hlaupa úr ræktinni þegar þetta gekk yfir... ég var úti að hlaupa.

Þetta stóð sem hæst þegar ég kom upp brekkuna í Litluhlíð að ljósunum yfir Bústaðaveginn. Þar var rautt. Ég stóð í einar 30 sekúndur og var helst að hugsa um að henda mér fyrir einhvern af bílunum sem óku framhjá.

Þetta var ömurlegt.

Og ég átti eftir 30 mínútur holdvotur.

Matti Á. - 30/07/04 13:18 #

Úff, þetta hefur verið agalegt.

Halldór E. - 30/07/04 17:06 #

Kæri Matti, þrátt fyrir sjálfshólið undanfarna daga skaltu varast að ganga ekki of langt. Ég mundi telja augljósa ályktun af þessari frásögn að líkamsræktaratferli þitt er Guði þóknanlegt og eins víst að Guði fannst þú EKKI nægilega duglegur í morgun sbr.:

Þegar ég fór úr ræktinni í morgun lenti ég í þeim rosalegasta skúr ...
Verst allt aumingjans fólkið vítt og breytt á höfuðborgarsvæðinu sem þurfti að taka út refsinguna með þér. :-)

Matti Á. - 30/07/04 17:30 #

En umferðaljósin maður, umferðaljósin. það er ekki hægt að hunsa svona sönnun :-)

Ingi Magnusson - 30/07/04 20:21 #

Það eina sem gæti toppað þetta er mæting Arnaldar á æfingu hjá Henson. Það eru nánast engar líkur á því að það muni gerast ;)

Matti Á. - 30/07/04 21:53 #

Það er semsagt engin furða að ég sé með deusarkomplex eftir að Arnaldur mætti galvaskur á gervigrasið í Breiðholti í gærkvöldi og spilaði knattspyrnu eins og engill.