Örvitinn

Sofnaðar

Það tók mig ekki nema klukkutíma og kortér að svæfa stelpurnar í kvöld. Gyða brá sér í bíó og því þurfti ég að sjá um þetta aleinn í kvöld, annars skiptum við vanalega verkum, ein stelpa á hvort.

Byrjaði á sterkum leik, manaði þær til að vera á undan mér upp á efstu hæð. Það klikkar aldrei, þær hlupu upp tvær hæðir flissandi yfir því að rústa pabba sínum í kapphlaupi. Burstuðum tennur, pissuðum í klósettið og svo las ég Hafmeyjuna fyrir þær báðar í rúminu hennar Kollu. Las svo aftur fyrir þær báðar hjá rúminu hennar Ingu Maríu, hún sættir sig nefnilega ekki við sameiginlegan lestur og vill láta lesa fyrir sig þegar kemur að því að setja hana í rúmið sitt. Kolla vill að sjálfsögðu vera með. Í kvöld las ég stafina okkar í Stafakarlabókinni, Á, G, I, K og M voru afgreiddir fyrir háttinn.

Þær voru svo ekkert á því að sofna og ég er búinn að vera skokkandi milli herbergja í klukkutíma, halda í hendi hér, kúra þar, halda aftur í hendi, pissa meira í klósettið (báðar) og svo framvegis.

Það er á svona stundum sem ég kann virkilega að meta það þegar þær sofna loksins.

fjölskyldan