Örvitinn

Gyllinæðarblús

Ekki laust við að ég væri þunnur í dag. Fórum í brúðkaup til Auðar og Benna í gær og skemmtum okkur fram á nótt. Fórum í bæjarrölt með ættingjum eftir veisluna, röltum á Vínbarinn, Hús málarans Sólon og Næsta bar. Fórum heim frekar seint, alltof seint.

Gærdagurinn var helvíti fínn, eftir að hafa glápt á fótboltaleik eyddum við nokkrum tímum í garðinum. Tengdó mættur í hádegiskaffi sem tekið var úti í góða veðrinu og svo sló ég blettinn og klippti helling af trjágreinum.

Um sex skutluðum við stelpunum í næturgistingu á Arnarnesi og fórum svo í kvöldmat hjá foreldrum mínum fyrir brúðkaupið. Athöfnin var í Dómkirkjunni klukkan átta og veislan var í Skemmtihúsinu á Laufásveg. Sérlega vel heppnað allt saman og brúðhjónin voru afar glæsileg. Kirkjunathöfnin sjálf var fín þó mér hafi þótt feðgarnir koma heldur mikið við sögu, en þannig er það yfirlett, þessir prestar eiga stundum erfitt með að halda aftur af sér. Presturinn í þessu tilviki var reyndar móðir brúðgumans.

Ég tók helling af myndum, sárafáar heppnuðust vel, lýsingin í kirkjunni var afar slæm. Skelli myndunum inn síðar.

Tókum strætó í bæinn í dag til að sækja bílinn og éta þynnkufæði, hamborgarinn á Grillhúsinu var fínn og heilsan batnaði í kjölfar áts. Sóttum stelpurnar og svo skutlaðist ég með garðúrganginn frá því í gær á Sorpu.

Er að fara að spila með Henson í kvöld, nú er að duga eða drepast, ef þessi leikur vinnst ekki erum við í slæmum málum. Hvað er ég að bulla, við erum í slæmum málum nú þegar, ef við vinnum ekki erum við í verri málum. Markvörðurinn tók upp á því að afboða sig og nú er heljar stress að redda öðrum markverði, erum með þrjá eða fjóra skráða en það gengur eitthvað treglega að ná sambandi við þá.

Og já, ég er með gyllinæð. Það er ekkert sérstakt.

dagbók
Athugasemdir

Halldór E. - 15/08/04 22:49 #

Dómkirkjan er alveg hrikaleg upp á myndatökur. Það blandast saman ójöfn gluggalýsing, tungsten-lýsing af ljósum, sem gerir alla veggi gulleita, svalir sem blokkera ljós úr efri gluggum og svo mætti lengi telja. Annars er nú svolítið trist að kvarta undan því að prestur sem annast trúarlega athöfn í kirkju, tali um feðgana.

Matti Á. - 15/08/04 23:36 #

Það er kannski trist, en ég er ekki að ætlast til þess að prestarnir haldi borgaralegar athafnir, einungis að þeir haldi feðgatalinu í hófi.

Í þessu tilviki var ræðan mjög áhugaverð en vísanir í yfirnáttúru pössuðu, að mínu hógværa mati, ekki sérlega vel þar inn í. Svo var þetta nú bara smá athugasemd, ekki hörð gagnrýni :-)

Matti Á. - 16/08/04 00:53 #

Varðandi myndatökur í Dómkirkjunni, þá notaði ég RAW format fyrir allar myndirnar sem ég tók þar inni. Það gefur manni sveigjanleika til að breyta white balance og lýsa upp myndirnar. Náði að bjarga nokkrum þannig en margar voru dálítið hreyfðar.

Hefði þurft að hafa hraðari linsu, stórt flass eða þrítfót en það var ekki í boði :-)

Gyða - 16/08/04 09:51 #

Já en annars verð ég nú að fá að bæta við að Dómkirkjan er ekki skemmtilegasta kirkjan til að njóta athafnarinnar heldur. Ég sá t.d. ekkert brúðina en sá reyndar brúðguman vel. Það eru súlur fyrir manni út um allt og svo er altarið svo langt inn að maður sér ekki allt það sem fer fram þar nema á fáum stöðum í salnum. Skrítið að hanna sal með þessum göllum þar sem að það hlýtur að skipta máli að maður njóti athafnarinnar sem best en kannski á maður bara að hlusta. :-)