Örvitinn

Djáknar á LSH

Einhvar Djákni að tjá sig í aðsendri grein í Morgunblaðinu, ég renndi í gegnum hana áðan. Æi, ekkert merkilegt, bara enn einn hagsmunaaðilinn að réttlæta eigin tilvist. Megnið af aðsendum greinum í Moggann er af þessum toga.

En þessi tilvitnun í greininni er dæmigerð, ég skrifa þetta eftir brigðulu minni.

kristinn mannskilningur er það sem heilbrigðisþjónustan byggir á...

Alveg er þetta merkilegt með trúmenn hvernig þeir eigna sér allar jákvæðar hneigðir. Það að hjálpa fólki byggir á kristnum mannskilningi. Er það þá hinn kristni mannskilningur um að maðurinn sé skapaður af Gvuði og fari aftur til hans þegar hann deyr?

Dettur þessu fólki aldrei í hug að hugsanlega sé það ekki kristið heldur mannlegt að láta sér velferð náungast einhverju máli skipta. Dettur þessu fólki aldrei í hug að kristni hefur dóminerað í næstum tuttugu aldir á vesturlöndum en samt er það ekki fyrr en völd kirkjunnar dvína sem verulegar framfarir verða, þar með talið á heilbrigðistsviðinu. Kristin trú hefur ekki einkarétt á kærleika. Kærleiki er ekki uppfinning Kristinnar Kirkju og í gegnum söguna hefur hún ekki verið góður boðberi kærleika. Það er þrátt fyrir Kristna kirkju, ekki vegna hennar, að við búum við núverandi aðstæður, þar með talið gott heilbrigðistkerfi fyrir flesta.

Má ég frekar biðja um fleiri lækna, hjúkrunarfólk og sálfræðinga heldur en Djákna á LSH

kristni
Athugasemdir

Halldór E. - 18/08/04 18:25 #

Um leið og ég tek undir skilning þinn á eðli greinarinnar í Morgunblaðinu í dag, sé ég mig tilneyddan til að mótmæla þeim fullyrðingum að framfarir í sjúkraþjónustu séu þrátt fyrir starf kirkjunnar. Upphaf nútímasjúkrahúsþjónustu má annars vegar rekja til starfa nunnureglna eins og þeirra sem ráku lengi vel sjúkrahús hér á Íslandi og hins vegar til diakonissuhreyfingarinnar sér í lagi í Þýskalandi og Norður Evrópu. En bæði nunnureglurnar og diakonissuhreyfingin byggðu starf sitt á einstaklingum sem töldu Guð hafa kallað sig til þjónustu við sjúka. Þessar hreyfingar störfuðu sem útrétt hönd kirkjunnar til hinna þurfandi. Því sem næst allar framfarir í hjúkrun má rekja til ofangreindra hópa allt fram á miðja 20. öld.

Það er enginn sem heldur því fram að kirkjan hafi einkarétt á kærleikanum. Ég ætla ekki að halda því fram að allar framfarir í læknisfræði séu kristnum mönnum að þakka. Hins vegar er ljóst að nútímasjúkrastofnanir eru upprunar í nánum tengslum við nunnureglur katólsku kirkjunnar og diakonissustofnanir mótmælendakirkjunnar. Tilraunir til að halda öðru fram eru einfaldlega afneitun á raunveruleikanum eða tilraun til sögufölsunar.

Matti Á. - 18/08/04 20:35 #

Kristin kirkja stóð á tímabili í vegi fyrir framförum í læknavísindum, meðal annars með því að banna krufningar, verkalyf og þess háttar. Ég nenni ekki að telja þetta upp en bendi á bókina Blekking og þekking í þessu sambandi en þar er vandlega fjallað um það hvernig kirkjan stóð í vegi fyrir framförum á þessu sviði.

Bendi auk þess á að múslimar stóðu mun framar en hin kristna evrópa þegar kemur að ummönnun sjúkra lengi vel. Sjá t.d. hér.

Ég er ekki að halda því fram að ekkert gott megi rekja til kirkjunnar og að kirkjan hafi ekki meðal annars rekið spítala, en þetta er ekki kristin uppfinning.

Það er enginn sem heldur því fram að kirkjan hafi einkarétt á kærleikanum.
Nei, en margir frammámenn, biskup, dómsmálaráðherra og ýmsir þjóðkirkjuprestar fara ansi oft verulega nálægt því að fullyrða það.

Halldór E. - 18/08/04 22:11 #

Ríkjandi valdastéttir eru í eðli sínu íhaldssamar og leitast við að viðhalda ríkjandi ástandi. Sjá t.d. kenningar George Vold. Það er ekkert séreinkenni kirkjunnar heldur sammannlegt vandamál (ég skelli einhvern tímann inn pælingum um erfðasyndina).

Ég get samþykkt að fátt er nýtt undir sólinni. Hins vegar byggir sjúkrahúshefð vesturlanda á því starfi sem hófst með störfum diakonissanna og nunnanna á 18. og 19. öld. Auðvitað var veiku fólki sinnt fyrir þann tíma og sumu þeirra mjög vel. Það er hins vegar þessi hefð sem ég geri ráð fyrir að Rósa vísi til. Hún er að vísa til þess að sjúkrahús Vesturlanda byggja á hugmyndafræðigrunni sem mótaðist hjá ofangreindum konum sem litu á verk sem köllun frá Guði.