Örvitinn

Bílskúrstiltekt

Tók til í bílskúrnum í gærkvöldi og skutlaðist með draslið á Sorpu í kvöld. Þurfti tvær ferðir með stútfullan bíl til að koma þessu í almennilegt horf og enn er hálfur bílfarmur eða svo eftir í skúrnum.

Ég stefndi alltaf á að geta haft bíl í bílskúrnum mínum og gat það fyrsta veturinn sem við bjuggum hér. Það var mikill lúxus. En svo safnaðist ruslið hægt og rólega saman í skúrnum, tiltektir í húsinu enduðu yfirleitt á því að nokkrir kassar voru bornir út í skúr þar sem þeir gleymdust. Bíllinn komst aldrei inn síðasta vetur.

Ég fór með tvo kassa og fjóra poka af fötum, mest megnis eitthvað sem er alltof stórt á mig núna. Skellti þeim í gám, vonandi nýtast þau einhverjum. Henti líka tjaldinu okkar, það er rifið og svo vantaði einhverjar stangir, við erum ekki mikið útilegufólk en við kaupum okkur bara nýtt tjald fyrir næsta sumar.

Fór svo með fullan bíl af flöskum af ýmsum stærðum og gerðum, fékk rétt rúmar þrjúþúsund og sjöhundruð krónur. Mér fannst furðulega mikið af bjór og léttvínsflöskum þarna á meðal, merkilegt hvað þær safnast saman hjá svona hófdrykkjufólki eins og okkur.

Það er semsagt nóg pláss í skúrnum núna, þó ekki fyrir bílinn, því foreldrar mínir fá að nýta hann sem geimslupláss á næstunni, þau eru nefnilega að fara að flytja í næstu viku.

dagbók