Örvitinn

Tvítyngi og efahyggja

Fyrir nokkru gerði ég tilraun til að skoða hugtökin trú og trúleysi og útskýra hvernig þau eru stundum mis/notuð í umræðu um trúmál. Ég greip til þess ráðs þá að nota ensku hugtökin theism og atheism í stað íslensku hugtakanna.

Tvennt olli því, í fyrsta lagi hafði ég aðgengi að enskri alfræðiorðabók á netinu og gat því gripið til þessara hugtaka í fljótheitum. Í öðru lagi eru ensku hugtökin theism og atheism yfirleitt mun skýrari en íslensku hugtökin trú og trúleysi, sér í lagi þar sem trú er mun víðfemara hugtak en theism. Reyndar er atheism ekki alltaf rétt skilgreint í enskum orðabókum, en það er önnur umræða. Líklega hafði það einhver áhrif líka að besta umfjöllun um þetta mál sem ég hef lesið er á ensku í bókinni Atheism, the case against God.

Ég vitnaði einu sinni til þessa pistils í rökæðu á öðrum annál og fékk þá það svar frá þeim er ég var að rökræða við að hann tæki ekki mark á pistlinum þar sem ég notaði ensku, pistilinn var semsagt algjörlega marklaus að hans mati. Hann setti ekki fram neina gagnrýni á efni pistilins sjálfs. Mér þótti þetta einstaklega ómálefnalegt, þar sem ég hafði lagt nokkra vinnu í greinina og taldi hana sæmilega, en lét málið niður falla.

Ég varð því síðar nokkuð hissa þegar sami einstaklingur ritaði pistil þar sem hann fjallaði um tvítyngi og benti á að um sumt væri einfaldlega mun þægilegra að ræða á öðru tungumáli en íslensku, hugtökin væru misjanflega skýr eftir tungumáli. Nú virtist vera komið allt annað hljóð í strokkinn en áður.

Ég hef tekið eftir því að þar sem megnið af því efni sem ég les um trúleysi og efahyggju er á ensku á ég oft mun auðveldara með að tjá mig og hugsa um þess mál á þeirri tungu. Sérstaklega er þetta áberandi þegar ég hef verið að rembast við að þýða greinar úr Efahyggjuorðabókinni. Þar hef ég hvað eftir annað rekist á hugtök og orðasambönd sem ég skil og þekki en á óskaplega erfitt með að snúa yfir á íslensku.

Auðvitað er ekki hægt að fara fram á að allir séu fullkomlega samkvæmir sjálfum sér alltaf, ég stenst ekki slíka rýni frekar en nokkur annar. Ég er þó ennþá þeirrar skoðunar að stundum sé ágætt að skipta yfir í ensku og nota hugtök sem eru skýrari frekar en að halda sig við óljós og illa skilgreind íslensk orð.

efahyggja