Örvitinn

Sorphirða borgarinnar - aukinn óþrifnaður

Afsláttur af sorphirðugjaldi ef sjaldnar er hirt

Þeir borgarbúar sem sætta sig við sorphreinsun á tveggja vikna fresti geta lækkað sorphirðugjöld sín um 35% nái tillögur nefndar um mótun stefnu í úrgangsmálum fram að ganga. Voru tillögur nefndarinnar kynntar í borgarráði í dag.

Í Seljahverfi hefur fyrirkomulag sorphirðu verið þannig undanfarin ár að ef maður vill láta fjarlægja ruslið lyftir maður merki á sorptunnunni. Þegar ruslakarlanir mæta, opna þeir ruslageymsluna og kíkja eftir merkinu, ef það er ekki uppi skilja þeir tunnuna eftir óhreyfða, jafnvel þó hún sé full. Stundum jafnvel þó hún sé troðfull!

Hagræðið við þetta er að ekki þarf að dröslast með hálftómar tunnur að ruslabílnum og því er fljótlegra að afgreiða hverfi borgarinnar, þjónustan ætti þar af leiðandi að verða hagkvæmari og jafnvel betri.

Stöldrum aðeins við, hvað verður um ruslið í hálftómu sorptunnunum? Jú, það rotnar í tunnunni viku í viðbót. Ef húsráðandi man eftir að lyfta merkinu er ruslið fjarlægt viku síðar. Ef húsráðandi hefur gleymt því, er t.d. fjarverandi, fær ruslið að gerjast áfram. Ég hef oftar en einu sinni gleymt að setja merkið upp, oft er ruslatunnan t.d. ekki alveg full þegar ég hendi rusli á miðvikudagskvöldi en svo hendi ég ekki aftur rusli fyrr en eftir föstudagsmorgun og er þá búinn að missa af lestinni, með fulla tunnu.

Hefur enginn velt því fyrir sér hvort það geti verið heilbrigðis og umhverfisflötur á þessu máli. Hvers á ég að gjalda ef nágranni minn tekur upp á því að fleygja matvöru í tunnuna sína á föstudagseftirmiðdegi, þegar tvær vikur eru í að tunnan hans verði fjarlægð? Auðvitað rotnar þetta með tilheyrandi óþef, að sjálfsögðu þrífst einhver viðbjóður í þessum lífmassa. Hafið þið spáð í hversu margar kúkableyjur eru að meðaltali í sorptunnum borgarinnar hverju sinni? Það er að mínu mati bölvaður sóðaskapur að láta sorp borgarbúa liggja í tunnum í allt að tvær vikur, þetta er spurning um þrifnað.

Er ekki máið að finna aðrar aðferðir til að spara í sorphirðu en þá að láta sorpið liggja lengur í ruslatunnum borgarbúa?

Þá geri tillögurnar ráð fyrir að komið verði á móts við þá sem kjósa minni tíðni losunar með bættu aðgengi að grenndargámastöðvum.

Við eigum semsagt að keyra með ruslið á næstu gámastöð. Ég er nokkuð duglegur við að fara á Sorpu með allskyns drasl, en trúið mér, ég ætla ekki að fara að stunda það að aka þangað með matarafganga.

En svo getum við líka bara bitið í súra eplið og borgað 30% meira fyrir þjónustuna. Það er náttúrulega lykilatriði málsins. Borgarstjórnarmeirihlutinn er ráðþrota og ætlar að hækka þjónustugjöld enn og aftur, en kýs í þetta skiptið að dulbúa hækkunina með skrafi um breytta þjónustu.

kvabb pólitík umhverfið