Örvitinn

Hvar er kirkjan hans?

Mæli með áhugaverðum pælingum Kristjáns Atla um trú og trúarbrögð. Kristján Atli er góður penni og gerir þessu efni góð skil í pistlinum. Guðfræðingar ættu að hafa gaman að lestrinum.

Hvar er mín kirkja?

Ég trúi því að þessar grunntilfinningar sem eru eins konar leiðarljós fyrir sálina sem býr innra með hverju okkar, séu í raun Guð. Ég trúi því að þegar þú finnur fyrir hamingju eða sorg þá sé það af því að þú ert að tengjast einhverju sem er æðra en þú ert, einhverju sem þú getur bara tengst á ákveðnum forsendum, og veldur því að þú færð tilfinningu sem er í senn einstök og yfirþyrmandi.

...

Sem sagt, ég myndi í raun segja að tónlistin sé mín kirkja. Og ef ekki hún, þá knattspyrnan. Ég hitti fólk, umgengst fólk, stunda samskipti við fólk og er í sambandi við fólk vegna þessara tveggja hluta

Ég get tekið undir ýmislegt en tel þó óþarfa að tala um eitthvað æðra í þessu samhengi. Það gæti þó verið spurning um hugtakanotkun.

En fótbolti og tónlist eru vafalítið mín Kirkja, að minnsta kosti að megninu til.

efahyggja
Athugasemdir

Kristján Atli - 17/09/04 15:35 #

Ég nota hugtök eins og 'æðra', 'Guð' og 'kirkja' í pistlinum af því að það eru ríkjandi nöfn fyrir það sem ég var að reyna að segja.

Hins vegar, þegar ég segi 'Guð' þá meina ég ekki aldraður, vitur, gráhærður og skeggjaður maður sem situr uppí á skýi og spilar mínígolf ... ég meina bara þetta sem ég trúi að búi innra með okkur öllum og tengi okkur öll saman. Kannski hugtakið 'sál' sé hentugra fyrir það sem ég er að reyna að segja.

Vildi bara hafa það á hreinu ;)

Halldór E. - 18/09/04 02:10 #

Smá þankar vegna skemmtilegra pælinga, trú vs. trúarbrögð, trú án yfirnáttúru - er slíkt til o.s.frv. Þeir sem kalla sig kristna þurfa að glíma við þessar spurningar líkt og þeir sem skilgreina sig án trúar á Guð. Veruleikinn sem við ölumst upp við í dag hefur í hugum margra breytt kirkjunni úr meginstofnun þjóðfélagsins í enn eitt frístundatilboðið. Svipað tilboð og svarthvít 8mm bíómynd án tals. Sjarmerandi fyrir einhverja en án raunverulegra tengsla við daglegt líf. Mér sýnist að það sé þessi kirkja sem má lesa um hjá Kristjáni Atla. Án nokkurs vafa útbreiddur kirkjuskilningur hjá fjölmörgum, sér í lagi á aldrinum 18-40 ára. Þeir sem bera hag kirkjunnar fyrir brjósti þurfa að takast á við þennan skilning, hvernig það er gert er flóknara svar.