Örvitinn

Plötukaup

Skaust í Skífuna í hádeginu og keypti nýjustu afurð Nick Cave og nýrri the Shins diskinn.

Vissi að Abattoir Blues væri til, og þar sem Nick Cave er mikill snillingur ákvað ég að nota loksins gjafakortið, sem ég hef ekki getað notað þar sem ekkert af því sem mig langar í hefur verið til í Skífunni, en það kom mér skemmtilega á óvart að sjá að Chutes too narrow væri líka til. Hef verið að fylgjast með birgðastöðunni á vefsíðu Skífunnar en það er greinilega ekkert að marka það, þar er því ennþá haldið fram að sá diskur sé uppseldur.

Ágætt að bæta einhverju í playlistann, diskurinn með Polyphonic Spree hefur verið full mikið spilaður undanfarið, enda snilldarband þar á ferð. Útsala í gangi í Skífunni og hagstæðara en oft áður að fjárfesta í tónlist. Ég sá nokkra diska á 999 króna borðinu sem mig langar að eignast, en þetta er ágætt í bili.

DVD diskur með James Brown fylgdi svo með ókeypis. Er ekki mikill aðdáandi James Brown en maður kíkir eflaust á diskinn.

tónlist