Örvitinn

Pæjusokkar

Það er magnað hve flóknar morgunstundirnar eru stundum.

Í morgun var lítið stríð á mínu heimili um sokka. Kolla neitaði að fara í sokkana sem mamma hennar hafði tekið frá fyrr um morguninn, hún vildi fara í pæjusokka. Hvernig eru pæjusokkar"? Það má Gvuð1 vita.

Hún fór upp í rúm í fýlu, ég reyndi að finna pör í sokkahrúgunni á kommóðunni og tuðaði í henni um leið, það er tilgangslaus iðja. Fann nokkur sokkapör, engin ásættanleg, ekkert nægilega pæjulegt.

Það endaði með því að Kolla valdi sjálf ósamstæða sokka, er í einum rauðum, hinum hvítum.

Á leikskólanum eru fóstrur2 væntanlega gáttaðar á þessum föður sem mætir ekki bara seint á hverjum morgni með dætur sínar heldur lætur þær mæta í ósamstæðum sokkum.

1les: það veit enginn
2Mér leiðist titilinn leikskólakennari, fóstra er miklu fallegra orð og nær þar að auki utan um alla starfsmenn leikskóla, ekki bara þá sem hafa klárað tiltekið nám.

fjölskyldan
Athugasemdir

Gyða - 21/09/04 11:34 #

he he get ekki annað en brosað :-) þó þér finnist þetta eflaust ekki skemmtilegur morgun. Pæjusokkar eru t.d. sokkar sem eru stuttir þ.e. ekki yfir beininu (kúlunni). En svo notar hún þetta stundum yfir sokka með einhverjum pæjulegum myndum t.d. barbí eða prinsessum :-)

Matti Á. - 21/09/04 11:56 #

Sko, Gvuð pæjusokkanna eða að minnsta kosti stelpufatanna mætt á svæðið ;-)

Gyða - 21/09/04 12:57 #

he he já einmitt mundu það guðinn þinn mættur á svæðið :-Þ

Herra Svavar - 22/09/04 12:56 #

Hahaha :) Alveg hef ég lent í þessu nákvæmlega sama. Við deilum þarna sannkölluðum reynsluheimi feðra Matti :) Bestu Kveðjur, Svavar

Eggert - 23/09/04 11:00 #

Haha.
Ég get sagt ykkur það, að ég lendi aldrei í rifrildi við dóttur mína um neitt sem snýr að klæðnaði!
Bæði er það að ég hef sérstaklega góðan smekk og það hún er líka sérstaklega vel alin upp, ef hún kemur með mótrök eru þau mjög varlega ígrunduð og sett fram á varfærnislegan hátt og því lítið mál fyrir mig að samþykkja þau án þess að finnast ég vera að tapa neinu rifrildi. Þetta get ég allt saman sagt ykkur, en reyndar er ég þá jafnframt að ljúga.