Örvitinn

Kennarar og laun verslunarfólks

Útaf ákveðnum fjölskyldutengslum hef ég lítið sem ekkert tjáð mig um þetta blessaða kennaraverkfall. Betra að þegja svo ekki sé hætta á að maður segi eitthvað sem ekki má segja.

En eitt af því sem ég hef lesið nokkrum sinnum undanfarið er samanburður á kjörum kennara og verslunarfólks. Nú síðast var blaðamaðurinn Svavar að hella úr skálum reiði sinnar

Að kennari sé með lægri laun en kassastelpa í 10-11 finnst mér fáránlegt. Kassastelpan tekur svo sannarlega ekki kvittanirnar með heim til sín, svo ég fái lánað af öðru bloggi...

Það er svo margt athugavert við þetta hjá Svavari og öðrum sem hafa tjáð sig á sama hátt að ég veit varla hvar ég á að byrja.

Í fyrsta lagi, þá er meirihluti verslunarmanna með lægri eða sambærileg laun og lægstu laun kennara.

Í öðru lagi er frítími verslunarmanna á allt öðru stigi en frítími kennara.

Í þriðja lagi er vinnutími verslunarmanna miklu lengri en vinnutími kennara. Kassadaman á 10-11 tekur nóturnar ekki með sér heim, en hún vinnur aðra hverja helgi til hálf tólf á kvöldin. Kassadaman í Hagkaup fer ekki heim fyrr en sjö, hálf átta á kvöldin.

Ég hef unnið í verslunum, vann við það flest mín unglingsár og ég vil fræða ykkur um að það er enginn lautarferð. Vinnutíminn er langur, tímakaupið er lágt og álagið er mikið. Stór hluti þeirra sem vinna í verslunum eru krakkar í hlutastarfi og stoppa stutt við.

Eina leiðin fyrir flest verslunarfólk til að ná sambærilegum launum við byrjunarlaun kennara, er að vinna myrkranna á milli. Verslunarfólk vinnur miklu fleiri tíma á dag, fleiri daga í viku, fleiri vikur á ári, borið saman við kennara. Hvað með það þó einhverjir þeirra nái með þeim hætti að komast nálægt grunnlaunum kennara?

Sigurrós segir

Þar komst ég að því að grunnlaunin mín sem kennara, svipuð og meðallaun þess sem vinnur við afgreiðslu á kassa, þ.e.a.s. í kringum 150 þúsund.

Nákvæmlega, grunnlaun vs meðallaun. Kommon, Sigurrós er kennari og á ekki að láta svona rökleysu frá sér.

Af hverju er ég þá að kvarta? Af hverju sætti ég mig ekki bara við að vera á sömu launum og afgreiðslumaður á kassa?

Þú ert ekki á sömu launum og afgreiðslumaður á kassa, það er málið. grunnlaun, meðallaun.

Í gvuðanna bænum, hættið að draga verslunarfólk inn í kjaraumræðu kennara. Laun þessa hóps eru ekkert til að hrópa húrra fyrir og umræðan er líka á lágu plani, ég get einfaldlega ekki séð að kennarar séu svona miklu merkilega fólk en það sem hefur valið sér að vinna verslunarstörf.

Kennarar og stuðningsmenn þeirra eru enn og aftur að falla í sóknarkonugildruna, hvar er Ólafur Ragnar?

Meira tjái ég mig ekki um kennaraverkfallið.

pólitík
Athugasemdir

Stefán - 22/09/04 11:24 #

Sammála því að það er engum til hagsbóta að draga inn laun fólks á kassa í súpermörkuðum.

Ef laun einhverrar stéttar eru lág, þá á að fara fram á hækkun þeirra, en ekki með vísun til þess að það sé svindl að einhverjir aðrir séu ekki enn lægri.

En ég er alvarlega að íhuga að slá næsta mann sem ég hitti sem líkir kennaraverkfalli við gíslatöku.

Matti Á. - 22/09/04 11:27 #

En ég er alvarlega að íhuga að slá næsta mann sem ég hitti sem líkir kennaraverkfalli við gíslatöku.
hehe, já þeir eru margir frasarnir í þessari umræðu sem eru gjörsamlega óþolandi.

Gullikr - 22/09/04 11:32 #

Bara smá athugasemd, Sigurrós ber saman sín grunnlaun við meðal'grunn'laun afgreiðslufólks. Ef könnun VR er lesin er ljóst að um grunnlaun er að ræða. Hjá Sigurrósu vantaði bara 'grunn' inn í orðið meðallaun.

Að lokum, þinn málflutningur er langt um verri en sá sem þú skammast yfir.

Matti Á. - 22/09/04 11:38 #

Sigurrós ber saman sín grunnlaun við meðal'grunn'laun afgreiðslufólks

Sigurrós segir

meðallaun þess sem vinnur við afgreiðslu á kassa, þ.e.a.s. í kringum 150 þúsund.
Ég veit ekki í hvaða veruleika þú lifir Gulli, en meðal grunnlaun afgreiðslufólks á kassa í verslunum á Íslandi eru ekki 150 þúsund krónur á mánuði. Það getur vel verið að meðaltekjur þeirra séu það, en það er þá fengið fram með því að vinna meiri vinnu en gengur og gerist (ekki 9-5). Meðalgrunnlaun afgreiðslufólks á kassa samkvæmt könnun VR eru 126.000 krónur á mánuði. Meðal heildarlaun þessa hóps eru 154.000 krónur á mánuði.

Af heimasíðu VR.

Lágmarkstekjur afgreiðslufólks (byrjunarlaun) fyrir fullt starf, fullar 171,15 unnar stundir á mánuði (39,5 stundir á viku miðað við að samningsbundnir kaffitímar séu teknir), eru sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri: 16. apríl 2004 kr. 98.428 á mánuði 1. janúar 2005 kr. 101.381 á mánuði 1. janúar 2006 kr. 105.943 á mánuði 1. janúar 2007 kr. 108.327 á mánuði
Ekki beinlínis glæsilegt !
Að lokum, þinn málflutningur er langt um verri en sá sem þú skammast yfir.
Rakalaust kjaftæði. Ég er hér að setja út á einn ákveðinn flöt umræðunnar. Þessi athugasemd þín er út í hött, það væri ágætt ef þú reyndir að hafa staðreyndir á hreinu áður en þú tjáir þig.

Svavar Knútur - 22/09/04 11:41 #

Um leið og ég þakka umfjöllunina og umræðuna minn kæri Matti, þá vil ég benda á örlitla rökvillu sem felst í máli þínu. Í fyrsta lagi ertu á vissan hátt að tína til appelsínur og epli sérstaklega þegar verið er að taka dæmi úr aldingarðinum. Verslunarfólk er bara tekið þarna sem dæmi vegna þess að launin eru svipuð. Barþjónar eru líka með svipuð laun og einnig símsvörunarfólk og húsverðir, svo ekki sé minnst á ruslakarla, stöðumælaverði, dyraverði og annað ófagmenntað starfsfólk. Verslunarfólk er notað þarna til að draga fram muninn á háskólamenntun og engri háskólamenntun, ekki til neins annars. Leyfi ég mér að benda á þá staðreynd að vinnudegi kennara er alls ekki lokið þegar þeir fara heim klukkan fjögur eða fimm, ólíkt vinnudegi venjulegs launafólks. Honum lýkur oft ekki fyrr en eitt um nótt og síðan er unnið allar helgar, en ekki bara aðra hverja. Þetta er ekki tilgreint sem yfirvinna. Er það kannski sá lúxus sem fylgir þriggja ára háskólamenntuninni, að fólk fái ekki metna yfirvinnu? Húrra fyrir því þá! Allir í skóla! Mennt er máttur!

Frá hvaða reynslugrundvelli ert þú annars tilbúinn að segja að kennarar vinni einungis átta tíma á dag? Nú kann ég vel við þig og þú ert frábær náungi, en getur verið að sá grundvöllur sem þú hefur fyrir máli þínu sé á sandi reistur? Sjálfur hef ég 28 ára reynslu sem sonur kennara, með tilheyrandi upplifunum, auk þess sem ég hef kennt sjálfur lítillega. Svo ekki sé nefnd, t.d. reynsla Sigurrósar og Helgu sem kennarar sjálfar, frekar nýjar í starfinu og ferskar. Eða er persónuleg empírísk reynsla kannski ekki lengur marktæk heldur, heldur einungis retórík Gunnars Birgissonar og kó?

Kennarar koma ekki heim úr vinnunni, heldur heim með hana. Vissulega er undarlegt og óviðeigandi að líkja verslunarstörfum og kennslu saman, enda ólíku saman að líkja. Þetta eru gjörólík störf með gjörólíkar kröfur, bæði persónulegar og hæfnislegar. Þess vegna mætti ætla að launin væru gjörólík ekki satt?

Matti Á. - 22/09/04 11:47 #

Verslunarfólk er bara tekið þarna sem dæmi vegna þess að launin eru svipuð.
Það er þetta sem ég bendi á Svavar. Þetta er rangt. Kjör kennara eru miklu betri en kjör afgreiðslufólks í verslunum.
Frá hvaða reynslugrundvelli ert þú annars tilbúinn að segja að kennarar vinni einungis átta tíma á dag?
Hvar held ég því fram? Ég held því fram að á móti mikilli vinnu kennara í þessum samanburði komi mikil vinna verslunarfólks.

Þessi upptalning er út í hött Svavar.

Þess vegna mætti ætla að launin væru gjörólík ekki satt?
Þau eru það Svavar. Það er kjarni málsins. Samanburðurinn er falskur.

Hr. Svavar - 22/09/04 12:04 #

Við þetta má svo bæta að verslunarmenn fá sjaldnast borgað á taxta, heldur yfir honum. Kennarar fá hins vegar ALDREI borgað yfir taxta og ef reynt er að bæta þeim eitthvað upp, þá verður allt brjálað.

Kennarar eru ekki betra fólk eða merkilegra en afgreiðslufólk, enginn er að segja það og það er í raun meinfýsið að halda því fram. En Kennarar bera einfaldlega MIKLU meiri ábyrgð og hafa unnið sér inn MUN hærri laun en þeir fá. (létt grín byrjar) Börnin mín fá til dæmis engan varanlegan andlegan skaða ef afgreiðslumaðurinn í Dressmann er kengruglaður og selur foreldrum þeirra asnalegar eða götóttar buxur. (létt grín endar)

Að lokum: Matti, það er enginn að segja að verslunarfólk eigi að vera með lág laun. Þetta er bara perspektív sem verið er að láta hlutina í. Þú vanrækir til dæmis þau dæmi sem hafa verið tekin um viðskipta- og verkfræðinga sem eru yfirborgaðir. Í grundvallaratriðum er bottomlænið þetta: Kennarar eru allt of lágt launaðir og með allt of mikið álag, með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á starfsskyldum þeirra. Eftir þriggja til fimm ára menntun geta þeir varla borgað upp námslánin hvað þá meira. Þetta er skandall og þarf að laga og það kemur engum verslunarmönnum eða öðrum ófaglærðum við. Menn fara ekki í þriggja ára háskólanám til að fá skítalaun og það á ekki að bjóða upp á það. Svo virðast allir vera að gleyma því að ASÍ röflar og vælir um að kennarar megi ekki hætta, því þá bresti allir samningar. Hvað er það?

Með fyllstu virðingu og kærleik, Svavar

Matti Á. - 22/09/04 12:08 #

Við þetta má svo bæta að verslunarmenn fá sjaldnast borgað á taxta, heldur yfir honum. Kennarar fá hins vegar ALDREI borgað yfir taxta og ef reynt er að bæta þeim eitthvað upp, þá verður allt brjálað.
Það skiptir ekki máli í þessari umræðu, því hér er borið saman við tekjur kennara verslunarfólks samkvæmt launakönnun, ekki launatöxtum, þó ég hafi látið þá flakka með hér fyrir ofan.

Bætti inn vísun á launakönnunina í þá athugasemd.

Samanburðurinn er falskur, kennarar eru með betri kjör en afgreiðslufólk á kassa. Miklu betri kjör.

Hvergi hef ég haldið því fram að laun kennara megi ekki hækka. Menn mega ekki gera of mikið úr orðum mínum. Það eina sem ég bendi á er að samanburður á launum kennara og verslunarfólks er villandi og ekki kennurum til sóma í þessari kjaradeilu.

Að sjálfsögðu er þetta svo allt sagt á vinsamlegum nótum með mikilli virðingu ;-)

JBJ - 22/09/04 12:43 #

Jæja Matti, gaman að lesa orð þín þó að "ekki (megi) gera of mikið úr orðum (þínum)".

Það eru þó nokkrir fletir hérna sem hægt er að fjalla, fyrst vil ég þó biðja núverandi og fyrrverandi kassastarfsfólk afsökunar á því að það er skyndilega orðinn hluti af kjarabaráttu kennara, eða allt að því.

Hins vegar getur núverandi og fyrrverandi kassastarfsfólk varla annað en játað því að starfið er ekki bara stressandi láglaunastarf heldur einnig starf sem gerir litlar kröfur um faglega þekkingu eða menntun.

Í fyrsta lagi, þá eru meirihluti verslunarmanna með lægri eða sambærileg laun og lægstu laun kennara.

Það hversu nálægt þeirra kjör eru kjörum ungra kennara sýnir svart á hvítu hversu mikil virðing er borin fyrir kennurum, sem eru fagmenntað háskólafólk, og með 3 til 7 ára nám fram yfir flesta kassastarfsmenn.

Nýleg rannsókn sýndi svo fram á að sú háskólamenntun sem skilar allra allra minnsta árangri í veskið er kennaranám, allir aðrir háskólamenntaðir einstaklingar fá mun meiri arð af námi sínu. Þetta er annað dæmi um vanvirðinguna sem kennarar þurfa að þola.

Í öðru lagi er frítími verslunarmanna á allt öðru stigi en frítími kennara. Í þriðja lagi er vinnutími verslunarmanna miklu lengri en vinnutími kennara. Kassadaman á 10-11 tekur nóturnar ekki með sér heim, en hún vinnur aðra hverja helgi til hálf tólf á kvöldin. Kassadaman í Hagkaup fer ekki heim fyrr en sjö, hálf átta á kvöldin.

Þú sumsé telur ekki að endalaus kvöld og helgarvinna kennara, sem er ólaunuð (fyrir utan 4 tíma, það er ein kvöldstund), sé ekki ígildi þess að vinna aðra hverja helgi og að fara heim um áttaleytið?

Nákvæmlega, grunnlaun vs meðallaun. Kommon, Sigurrós er kennari og á ekki að láta svona rökleysu frá sér.

Þú vilt sumsé meina að ólaunaða yfirvinnan sem kennarar stunda til að geta sinnt starfi sínu sómasamlega sé ekki jafngild launaðri yfirvinnu?

Persónuleg árás þín á Sigurrós er þér ekki til sóma. Þú varst að enda við að tala um vinnutíma í sambandi við laun og lendir hér í þversögn við sjálfan þig.

Ég hef unnið í verslunum, vann við það flest mín unglingsár og ég vil fræða ykkur um að það er enginn lautarferð. Vinnutíminn er langur, tímakaupið er lágt og álagið er mikið. Stór hluti þeirra sem vinna í verslunum eru krakkar í hlutastarfi og stoppa stutt við.
Við vitum að þetta er erfitt og illa borgað starf. Þess vegna er það tekið sem dæmi um starf sem virðist skila jafn miklum tekjum og kennarastarf! Þú getur þá væntanlega samþykkt það að kennarar eru í erfiðu og illa borguðu starfi!

Að auki eru kennarar ekki "krakkar í hlutastarfi sem stoppa stutt við". Þvert á móti er þetta faglært háskólamenntað fólk sem mun vinna við þetta alla sína ævi.

Aftur sjáum við að samanburðurinn á þessum tveimur starfsstéttum kemur illa út fyrir kennara.

Ég held því fram að á móti mikilli vinnu kennara í þessum samanburði komi mikil vinna verslunarfólks.
Og samt eru þeir með svipuð laun, háskólamenntaður starfsmaður til lífstíðar sem ber ábyrgð á börnunum þínum og annara, og ólærði starfsmaðurinn sem stoppar stutt við og skannar inn mjólkina þína.

Þetta skiptir ekki máli í þessari umræðu, því hér er borið saman við tekjur kennara samkvæmt launakönnun, ekki launatöxtum, þó ég hafi látið þá flakka með hér fyrif ofan
Þessi launakönnun kennara er reyndar margt merkileg, ungir kennarar stara þessa dagana á launaseðla sína og skilja ekki hvað er verið að tala um því að þeir hafa aldrei séð viðlíka upphæðir á sínum launatöxtum sem eru á þeirra launaseðlum.

Það eina sem ég bendi á er að samanburður á launum kennara og verslunarfólks er villandi og ekki kennurum til sóma í þessari kjaradeilu.
Hann er ekki villandi. Það er bara tilviljun að það var akkúrat þessi starfsstétt en ekki strætisvagnabílstjórar, dyraverðir eða aðrir sem hægt væri að benda á.

Kennurum ekki til sóma? Kennarar mega fullvel benda á það að kjör þeirra (yfirvinna og taxti) eru jöfn kjörum ófaglærðra starfsmanna í láglaunastarfi (yfirvinna og taxti).

Ef þú vilt fara fram á að aðrir sýni sóma sinn, þá skaltu byrja á því sjálfur.

Matti Á. - 22/09/04 12:50 #

Persónuleg árás þín á Sigurrós er þér ekki til sóma.
Held það sé engin ástæða til að ég kommenti mikið á athugasemd þína ef þú túlkar orð mín sem persónulega árás á konuna þína. Umræða á því plani er tilgangslaus.

Kennarar mega fullvel benda á það að kjör þeirra (yfirvinna og taxti) eru jöfn kjörum ófaglærðra starfsmanna í láglaunastarfi (yfirvinna og taxti).
Launin eru ekki jöfn Jói, staðreyndir benda á annað. Það er engum til sóma að halda öðru fram þegar það er borðleggjandi að þetta er rangt.

Ef það er túlkað sem persónuleg árás að benda á þessa staðreyndavillu er ljóst að eitthvað er athugavert við umræðuna.

Ég gæti sagt ýmislegt fleira, en geri það ekki útaf ýmsum ástæðum.

JBJ - 22/09/04 13:04 #

Þegar þú segir að hún "sé kennari og eigi ekki að láta svona rökleysu koma frá sér" þá túlka ég það já sem persónulega árás.

Ef þú hefðir sagt "þetta er rökleysa hjá Sigurrós" og bakkað það upp með alvöru staðreyndum, þá væri það ekki persónuárás. Við höfum greinilega mismunandi skoðun á því hvað er persónuárás og hvað ekki.

Launin eru ekki jöfn Jói, staðreyndir benda á annað. Það er engum til sóma að halda öðru fram þegar það er borðleggjandi að þetta er rangt.
Nei Matti, svo ég endurtaki það sem þú vitnaðir í:

kjör þeirra [kennara] (yfirvinna og taxti) eru jöfn kjörum ófaglærðra starfsmanna í láglaunastarfi (yfirvinna og taxti).

Þetta er alveg deginum ljósara hjá kennurum undir þrítugu. Við gætum afritað launaseðla ýmissa kennara og sýnt þér svo þú sjáir staðreyndirnar svart á hvítu.

Með því að skoða heildarvinnutíma og heildarlaunin þá er alveg augljóst að kennarar eru ekki betur settir.

Ef kennarar hins vegar nytu sama munaðar og margir, að geta farið heim án þess að sinna vinnu sinni þar, þá væru þeir mun ofar en verslunarfólkið og aðrar láglaunastéttir.

Það er hins vegar ekki raunveruleikinn. Svo lengi sem þeir þurfa að vinna kvöld og helgar til að geta staðið sig næsta dag í vinnu, svo lengi getum við tekist á um taxtablindu þína.

Matti Á. - 22/09/04 13:15 #

Túlkun þín á persónuárás er óhefðbundinn, svo ég segi ekki annað. Þetta hlýtur þá líka að vera persónuárás á Svavar, samkvæmt þinni túlkun. Staðreyndin er þessi, Sigurrós ber saman meðal heildarlaun afgreiðslufólks á kassa við meðal grunnlaun kennara sem eru að hefja störf (þeir kennarar sem eru á lægstu launum). Lægstu meðal heildarlaun afgreiðslufólks á kassa í fullu starfi eru mun lægri, í kringum 120.000 krónur. Um fjórðungur afgreiðslufólks á kassa er með heildarlaun á því bili (100-150).

kjör þeirra [kennara] (yfirvinna og taxti) eru jöfn kjörum ófaglærðra starfsmanna í láglaunastarfi (yfirvinna og taxti).
Nei og aftur nei. Kjör sumra ófaglærða starfsmanna ná upp í lægstu grunnlaun kennara.
Það er hins vegar ekki raunveruleikinn. Svo lengi sem þeir þurfa að vinna kvöld og helgar til að geta staðið sig næsta dag í vinnu, svo lengi getum við tekist á um taxtablindu þína.
Drottinn minn dýri Jói, hvað gengur að þér og þínum? "Taxtablindu". Allt sem ég hef sett fram hér að ofan er rökstutt og stenst rýni. Ásakanir um taxtablindu eru út í hött.

Þó það tengist þessu máli ekki, vil ég að lokum benda á að fleiri en kennarar taka vinnuna með sér heim án þess að fá sérstaklega borgað fyrir það, en það er allt önnur umræða, þó sumir vilji endilega flækja því saman við þetta.

Matti Á. - 22/09/04 13:31 #

Eða til að einfalda þetta enn frekar, því þetta hefur ekki verið sagt beint út.

Meðal heildarlaun (263.000.-) kennara eru miklu hærri en meðal heildarlaun (154.000.-) afgreiðslufólks.

Kennarar mega verið óánægir með kjör sín og krafist hækkunar, ég set ekkert út á það. En þegar þeir fara að líkja kjörum sínum saman við laun afgreiðslufólk á kassa og halda því fram að þau séu sambærileg eru þeir að fara mjög frjálslega með staðreyndir.

JBJ - 22/09/04 13:53 #

Mér og mínum? Læt svona ósvöruðu og já, þú ert duglegur við svona persónuárásir oft.

Ég vil aftur afsaka það við starfsfólk verslana að það er dregið óafvitandi inn í þessa umræðu, þetta er hins vegar tilvalið tækifæri, eins og ég hef áður sagt og ekki fengið athugasemd við frá Matta, til að bera saman ófaglært starfsfólk sem stoppar stutt og faglært háskólamenntað starfsfólk sem stoppar ekki stutt.

Staðreyndirnar eru eftirfarandi: Launakönnun VR 2004 (sjá hér)

Afgreiðsla á kassa Grunnlaun Meðaltal: 126 25% mörk: 100 Miðgildi: 120 75% mörk: 159 Heildarlaun Meðaltal: 154 25% mörk: 131 Miðgildi: 146 75% mörk: 170

Já, 25% kassastarfsmanna (75% mörk grunnlauna) eru með HÆRRI grunnlaun en ungir kennarar. Væntanlega þeir kassastarfsmenn sem hafa umtalsverðan starfsaldur?

Ef við lítum á heildarlaunin þá geta kennarar voða lítið hækkað sig frá taxta á meðan að kassastarfsmenn geta unnið yfirvinnu og hækkað sig all verulega. Kennarar geta unnið gífurlega yfirvinnu (jafn mikla eða meiri en kassastarfsmenn) en hækka samt ekki. SAMT verða þeir að vinna þá vinnu heimavið svo þeir geti náð árangri í starfi sínu daginn eftir. Fáar starfsstéttir búa við þetta.

Þess má geta að þær 156 þúsund krónur sem Sigurrós talar um eru grunnlaun kennara sem eru eldri en 24 ára og eru með bekkjarumsjón sem ekki allir kennarar hafa. Margir kennarar eru á lægri taxta.

Afgreiðsla á matvöru (t.d. í kjötborði) Grunnlaun Meðaltal: 165 25% mörk: 135 Miðgildi: 156 75% mörk: 182 Heildarlaun Meðaltal: 195 25% mörk: 149 Miðgildi: 178 75% mörk: 211

Hér er miðgild grunnlauna 156 þúsund, sama og grunnlaun kennara með bekkjarumsjón og eldri en 24 ára. 50% eru því með meira en þessi kennari, aftur ítreka ég að margir kennarar ná ekki þessum taxta.

Hvað heildarlaun snertir þá fer það yfir laun margra eldri kennara.

Afgreiðsla á sérvöru (t.d. föt eða leikföng)
Grunnlaun
Meðaltal: 174
25% mörk: 134
Miðgildi: 160
75% mörk: 214
Heildarlaun
Meðaltal: 203
25% mörk: 160
Miðgildi: 185
75% mörk: 246

Fyllilega jafnokar hvaða kennara sem er. Þetta er ófaglært starfsfólk, ég óska því alls hins besta, ég hef sjálfur unnið í mörgum ófaglærðum störfum fyrir ekki margt löngu síðan og alltaf var borgað yfir taxta, öllum.

Verslunarfólk hefur hér bara verið dregið fram til að sýna hvar í goggunarröðinni kennurum hefur verið raðað. Það er mjög aftarlega og samt æpa og öskra menn að ef þeir hækki, þá verði allir aðrir að hækka því að andskotinn hafi það, kennarar skuli sko halda áfram að vera með þeim öftustu í goggunarröðinni.

Matti Á. - 22/09/04 14:00 #

Tölurnar sem þú vitnar í staðfesta einfaldlega að allt sem ég hef sett hér fram er rétt. Ég hef ekkert mistúlkað, hvergi farið rangt með og ekki fullyrrt neitt útfyrir þessar staðreyndir.

Eða getur þú fært rök fyrir öðru?

Mér og mínum? Læt svona ósvöruðu og já, þú ert duglegur við svona persónuárásir oft.
Bíddu við, var þetta líka persónuárás. Drottinn minn dýri Jói. Mér sýnist þú vera farinn að láta skapið hlaupa með þig.

Það kemur þessari umræðu ekki við þó ég sé að þínu mati oft duglegur við persónuárásir, þó mér þyki sú fullyrðing satt að segja afskaplega ósanngjörn. Ég hef ekki ráðist á nokkra persónu hér, ég vitnaði í konuna þína og gagnrýndi fyrir rökleysu, sérstaklega í því ljósi að hún er kennari.

Ekkert sem hér hefur verið sett fram hrekur þá gagnrýni mína á minnsta hátt. Það er hægt að benda á aðra fleti á málinu, en það breytir því samt ekki að samanburðurinn sem ég benti á í upphafi er villandi.

JBJ - 22/09/04 14:38 #

Nei Matti,

Í fyrsta lagi, þá eru meirihluti verslunarmanna með lægri eða sambærileg laun og lægstu laun kennara.
Þetta stenst ekki eins og þú sérð af töflunni fyrir ofan þar sem ég tek þrjá launalægstu flokka verslunarmanna.

Í annan stað þá vil ég sjá hvaða tölu þú vísar til sem "lægstu laun kennara" og í þriðja lagi neitar þú enn að telja vinnuframlag kennara sem felst að miklum hluta til í ólaunaðri yfirvinnu.

Þú rígheldur í þá reikningsformúlu, að skoða taxtann miðað við 8 tíma vinnudag þegar reyndin er sú að ekki eingöngu er kennsluskylda margra 42,5 tímar heldur bætist öll yfirvinnan heima ofan á það.

Allt í lagi, þú "vinnur" með því að telja ekki allt með. Það var, er og verður þín mistúlkun greinilega.

Kennarar vinna meira en 8 tíma á dag en þú gúterar það ekki. Það er þitt val að byggja þín rök á því að skoða hluta málsins, ekki allt.

Enn fremur var hvergi talað um að ALLIR kennarar og ALLIR kassastarfsmenn væru með sömu laun. Þarna ertu aftur að setja orð í munn annara. Staðreyndin er sú, eins og ég nefndi í upptalningunni, að margir kassastarfsmenn eru enn sem áður með sömu eða hærri laun og margir kennarar.

S t a ð r e y n d

Aftur vil ég taka það fram að þetta er ekki aðför að starfsfólki á kassa, þó að þér hafi líklega sýnst það sem fyrrum kassastarfsmanni sjálfum, enn og aftur endurtek ég þau orð mín sem þú hunsar (sem og fleiri), að þetta sýnir hverju kennarar standa frammi fyrir.

Matti Á. - 22/09/04 14:54 #

Þú leggur mér orð í munn og mistúlkar það sem ég set fram, væntanlega vegna þess að þér er heitt í hamsi. Ég skal svara þessu lið fyrir lið en svo nenni ég ekki að svara fleiri skeytum í þessum dúr.

Mér finnst þetta persónulega engin aðför að starfsfólki á kassa, mér finnst þetta bara heimskulegur og villandi samanburður.

Ég tala um verslunarfólk og starfsfólk á kassa til skiptis, en í báðum þeim tilvikum sem ég vitna í, þar með talið hjá Sigurrósu, er talað um starfsfólk á kassa. Það er sú fullyrðing sem ég gagnrýni og það er staðreynd að sú gagnrýni mín er rétt.

Í annan stað þá vil ég sjá hvaða tölu þú vísar til sem "lægstu laun kennara"
Þar er ég að tala um laun í kringum 150.000 krónur þar sem það eru launin sem hafa verið nefnd til sögunnar hér hjá kennara sem er að byrja að kenna, vafalítið er hægt að finna dæmi um kennara með lægri laun en það breytir engu í þessari umræðu. Ég hef einnig vísað á meðallaun þessa hópa.
Þú rígheldur í þá reikningsformúlu, að skoða taxtann miðað við 8 tíma vinnudag þegar reyndin er sú að ekki eingöngu er kennsluskylda margra 42,5 tímar heldur bætist öll yfirvinnan heima ofan á það. ... Kennarar vinna meira en 8 tíma á dag en þú gúterar það ekki. Það er þitt val að byggja þín rök á því að skoða hluta málsins, ekki allt.
Ég geri það alls ekki Jói, þetta er kolrangt Ég tala um heildarlaun hvað eftir annað og rugla þessu hvergi saman. Þetta er mjög gróf rangtúlkun á mínum málflutningi.
Enn fremur var hvergi talað um að ALLIR kennarar og ALLIR kassastarfsmenn væru með sömu laun. Þarna ertu aftur að setja orð í munn annara.
Hvar nákvæmlega geri ég það?
Staðreyndin er sú, eins og ég nefndi í upptalningunni, að margir kassastarfsmenn eru enn sem áður með sömu eða hærri laun og margir kennarar.
Hér er afskaplega loðið að tala um að margir séu með hærri laun en margir, því einnig er óumdeildanlega rétt að flestir kennarar eru með mun hærri tekjur en flestir kassastarfsmenn. Laun kennara eru þar að auki aldurstengd og þeir munu því allir fara upp fyrir laun lang flestra í þessum hópi sem þú ert að bera þá saman við.

Megnið af gagnrýni þinni virðist beinast gegn einhverju allt öðru en því sem ég hef sett fram, því ég hef ekkert rætt um vinnutíma kennara.

enn og aftur endurtek ég þau orð mín sem þú hunsar (sem og fleiri), að þetta sýnir hverju kennarar standa frammi fyrir.
Ég hunsa einfaldlega þá gagnrýni þína sem beinist að einhverju sem ég hef aldrei haldið fram. Ég skrifaði hér gagnrýni á mjög afmarkað efni, gagnrýni sem er rökstudd og óhrakin. Þú ert að hrekja eitthvað allt annað.

Ingi - 22/09/04 15:03 #

Þó maður skilji málarekstur kennara þá get ég ekki annað en haft minni vorkunn fyrir þeim en t.d. leikskólakennurum. Þeir hafa eftir 3 ára háskólanám, yfir 20 ára starfsreynslu og komnir í deildarstjórastöðu meðallaun um 170 þús á mánuði. Að mínu mati á forgangur sveitarfélaganna vera hjá þessari stétt kennara.

Oli H - 22/09/04 15:21 #

Tek undir gagnrýni Matta á málflutning kennara, finnst hann vera ansi "frjálslegur" á stundum.

Kennarar hafa það í sjálfu sér ekkert svo slæmt, grunnlaun fólks sem er að byrja í starfi eftir nám eru jú langoftast lægst en hækka svo smám saman. Það er í sjálfu sér fullkomlega löglegt og kennarar ekki eina stéttin sem hefur lág byrjunarlaun, þess utan þá veit flest það fólk sem fer í kennararmenntun út í hvað það er að fara og á því að vita nokkurnveginn að hverju það gengur eftir námið, ekki satt?

Það að öfundast út í "yfirborgaða" viðskipta- og verkfræðinga eins og ég las hér að ofan er svo fyrir allar hellur og er gamaldags íslensk vinstri della um ósanngirni þess að einn hafi hærri laun en annar.

Bendi ennfremur á það að kennari sem vinnur hjá hinu opinbera hefur meira atvinnuöryggi en þessir "yfirborguðu" hópar sem nefndir voru að ofan og mun líklegast einnig kenna sama efnið ár eftir ár eftir ár, spilltu starfskraftarnir þurfa hinsvegar líklegast að vera sífellt að fylgja eftir þróun og aðlagast á hverju ári.(og vinna jafnvel mikið alfarið á eigin vegum)

Og hananú!

JBJ - 22/09/04 16:05 #

Bendi ennfremur á það að kennari sem vinnur hjá hinu opinbera hefur meira atvinnuöryggi en þessir "yfirborguðu" hópar sem nefndir voru að ofan og mun líklegast einnig kenna sama efnið ár eftir ár eftir ár, spilltu starfskraftarnir þurfa hinsvegar líklegast að vera sífellt að fylgja eftir þróun og aðlagast á hverju ári.(og vinna jafnvel mikið alfarið á eigin vegum)
Þú veist greinilega ekki hundsvit um störf kennara nú til dagas ef þú heldur að þetta sé raunin.

þess utan þá veit flest það fólk sem fer í kennararmenntun út í hvað það er að fara og á því að vita nokkurnveginn að hverju það gengur eftir námið, ekki satt?
Þannig að af því að kennarar vita að starf þeirra er lítils metið að þá er það þeim að kenna að starfa við göfugt starf sem þeir hafa áhuga á? Þeir ættu bara að sætta sig við skítalaunin eða fara í viðskiptafræðina ella?

Æ, vanþekking og fordómar eru illseigar skepnur að drepa.

Matti Á. - 22/09/04 16:19 #

Eitt enn varðandi þessa "persónuárás".

Mér og mínum? Læt svona ósvöruðu og já, þú ert duglegur við svona persónuárásir oft.
Þó þú sjáir um að kommenta hér en ekki konan þín sé ég ekki betur en það hafi verið hún sem kom hér inn á undan þér og sendi vísun á þennan pistil í tölvupósti til þín. Auk þess sem hún les þetta milli þess að þú kommentar, t.d. rétt áður en þú settir inn síðustu athugasemd.

Ekkert óeðlilegt við það, en ég sé ekki neitt athugavert við að ég tali um ykkur í fleirtölu, enda kæmi það mér afskaplega mikið á óvart ef þið væruð ekki að ræða þetta mál milli þess að þú kommentar hér. Þú virðist alveg líta framhjá því að þú hefur séð um hamaganginn og rakalausar ásakanir í minn garð hér.

En þetta var útúrdúr, hafið það gott bæði tvö.

Oli H - 22/09/04 16:23 #

Uppfræddu þá fáfróðan almúgamanninn :)

Sama bókin er þrædd í gegnum 10 árganga, efnistökin þau sömu eða svipuð og því að fara yfir sama efnið ár eftir ár. Virðist það allavega virka svo ef miðað er við mína skólagöngu og svo minna yngri systkina. Kennarar virðisfelldu síðan sjálfir starf sitt enn meira þegar þeir gagnrýndu gott framtak Íslandsbanka sem bauð upp á barnagæslu.

Hvað er það sem ég skil ekki, atvinnuöryggið er til staðar, þeir þurfa ekki að uppfæra sig á hverju ári, þeir geta gert mistök af og til eða oftar án þess að það valdi gífurlegum kostnaðarauka eða setji allan skólann í uppnám.

Í mörgum skólum skipta krakkar um umsjónarkennara á hverju ári, allavega í þeim 3 skólum sem ég var í og mín yngri systkini. Það þýðir það svo að slæmur kennari veldur í raun engum skaða á menntun barnanna þar sem að þónokkrir aðrir munu koma að og gætu bætt úr skaða þess eina. Mistök í efnistökum eða meðhöndlun eru því ekki sérlega afdrifarík í þessu starfi.

Og já Jói, þú hlýtur að vera að velja þér eitthvað ákveðið þegar þú velur þér starf og nám, ef þú velur eitt þá ertu að taka starfsumhverfið líka. Að sjálfsögðu geturðu alltaf reynt að breyta og bæta en þú þarft samt alltaf að ganga að hlutunum eins og þeir eru, því það hefur alltaf legið fyrir.

Annars finnst mér það ansi fyndið að vera sakaður um vanþekkingu og fordóma með mitt bakland :)

Matti Á. - 22/09/04 17:10 #

Tek undir það að kjör leikskólakennara þarf einnig að bæta og jafnvel umfram kjör kennara.

Um þessar mundir bíða leikskólakennarar spenntir eftir því hvernig þessi kjarabarátta kennara fer.

Þar kemur tvennt til, annars vegar er ljóst að samningar kennara verða hafðir til hliðsjónar þegar samið verður við leikskólakennara. Hinsvegar eru kennarar að nýta sameiginlegan verkfallssjóð allra kennara, þannig að það er líklegt að það verðir enginn sjóður fyrir leikskólakennara til að grípa í ef viðræður þeirra fara í hart.

JBJ - 22/09/04 20:34 #

Þó þú sjáir um að kommenta hér en ekki konan þín sé ég ekki betur en það hafi verið hún sem kom hér inn á undan þér og sendi vísun á þennan pistil í tölvupósti til þín. Auk þess sem hún les þetta milli þess að þú kommentar, t.d. rétt áður en þú settir inn síðustu athugasemd.
Jahá!

Það er naumast hvað þú ert skarpur!

Konan mín sendi vissulega tilvísun á þennan pistil á mig, þar með lauk hennar afskiptum og hef ég ekki heyrt í henni fyrr en ég kom heim.

Hvers konar snilling telurðu sjálfan þig vera að skoða referral logga og álykta út frá því hvað við "hjónin" gerum! Þetta er svo grátbroslegt að það er fyndið.

Vissulega eru kjör leikskólakennara líka skammarleg, reynið ekki að ræna umræðunni á þann máta.

Hvers vegna leikskólakennarar eiga að vera hærri en kennarar, þegar þeir eru oftast með færri börn á sínum snærum, er hins vegar speki sem þú væntanlega skilur einn í samræmi við röksemdafærslur þínar varðandi vinnuframlag hingað til.

Nú þessi umræða er orðin að skopi einu.

Hvað Óla H varðar þá er tilvalið að segja fáfróðum almúgamanninum með leynilega baklandið frá því að kennarar stunda mikla endurmenntun, nýjar áherslur og kenningar skjóta upp kollinum og margt er að gerast í kennslumálum og margar mismunandi stefnur og straumar í gangi.

Sama gamla bókin í 10 ár átti við í gamla daga, en gerir það ekki lengur, nema kannski í MR en þar er um allt aðra kennara að ræða sem ekki eru í verkfalli enda með mun betri kjör en grunnskólakennarar.

Óli H (hver svo sem þú ert), þú mátt alveg vera sauðkind fyrir mér og ganga í störf og starfa innan einhvers hefðbundins ramma eins og "gert hefur verið frá örófi alda" mér að meinalausu. Sjálfur er ég meira fyrir að betrumbæta heiminn og láta þá ekki einhverja gamla siði og venjur stoppa mig.

Hvort viðhorfið aðhyllist þú:

  • Kennarar hafa það skítt, því ætla ég ekki að verða kennari þó mig langi til þess, verð bara verkfræðingur
  • Kennarar hafa það skítt, ég læt það ekki stöðva drauma mína og mun jafnframt berjast fyrir bættum rétti
  • Ef þú býrð að svona ríku baklandi af þekkingu, þá er fyrri færsla þín ekki fyndin, hún er grátleg.

    Ég ætlaði nú að leyfa ykkur að þusa í friði en þessi njósnastarfsemi Matta og ályktanir út frá því eru með því fáránlegra sem ég hef séð og varð bara að kommenta á það.

    Sigurrós - 22/09/04 20:36 #

    Já, ég sendi Jóa tölvupóst með tengli á síðuna þína, ég vildi honum á að lesa það sem hafði verið skrifað um málið enda hefur hann sýnt kjarabaráttu kennara áhuga. Að því loknu fór ég og sinnti mínum málum. Þegar ég var komin heim aftur hafði ég áhuga á að sjá hvort meira hefði verið skrifað og sá þá að maðurinn minn hafði ákveðið að taka þátt í umræðunum hér á þessum vef. Milli þess sem ég tók úr uppþvottavélinni, las blöðin og fékk mér nokkrar kexkökur kíkti ég við og við á vefinn, enda forvitin að eðlisfari. Samskipti okkar Jóa voru engin frá því um morguninn þangað til hann kom heim. Jú, reyndar hringdi hann í mig og við ákváðum að hann myndi kaupa hamborgara til að steikja í kvöldmatinn. Það er gaman að geta því komið þér "afskaplega á óvart" - athugasemdir Jóa hér á netinu voru nefnilega ekki leynileg samráð okkar. Kannski þú teljir þig sjá tortryggilegar aðgerðir nú þegar við setjum bæði inn komment hjá þér á sama tíma. Nú erum við nefnilega bæði stödd heima, tölvurnar okkar eru í sama herberginu og þú afsakar það vonandi að ég skuli hafa sagt manninum sem ég bý með frá því að þú værir búinn að bæta við kommenti. Við Jói erum hins vegar ekki sami einstaklingurinn. Vonandi er samt í lagi að við skrifum athugasemdir hjá þér á sama tíma :) Það er gott að vita að fylgst er grannt með manni. Viltu að ég láti þig vita næst þegar ég sendi manninum mínum tölvupóst? :)

    Matti Á. - 23/09/04 00:08 #

    Það er naumast hvað þú ert skarpur!
    Þakka þér kærlega fyrir að tala niður til mín á þessum vettvangi.

    Hvers konar snilling telurðu sjálfan þig vera að skoða referral logga og álykta út frá því hvað við "hjónin" gerum! Þetta er svo grátbroslegt að það er fyndið.
    Þakka þér aftur fyrir að tala niður til mín.

    Ályktanir mínar voru ósköp eðlilegar. Ég skoða alltaf vefþjónslogginn í rauntíma og sá því strax þegar þú komst inn frá vefpóstinum þínum hvernig það mál lá. Það er ekkert leyndarmál að ég skoða vefþjónslogginn og hefur aldrei verið. Ég hef minnst á það hér oftar en einu sinni, meðal annars mjög nýlega.

    Varðandi aðrar ályktanir, þá dró ég þær einfaldlega útfrá því að bæði hafið þið hjónin verið að blogga um þetta mál á síðum ykkar og báðum virðist ykkur vera heitt í hamsi, svosem skiljanlega þar sem þetta snertir ykkur beint.

    Miðað við það þykir mér furðulegt hve harkalega þú bregst við, bæði við þessari saklausu athugasemd og hinum, þar sem þú sakar mig um persónuárásir. Að mínu mati eru þær ásakanir algjörlega úr lausi lofti gripnar og mjög ósanngjarnar. Ég hef reynt að vera málefnalegur að öllu leyti í þessari umræðu. Það sama er ekki hægt að segja um þig Jói, tal um "Taxtablindu", persónuárásir og skilningsleysi, auk þess sem þú hefur reynt að teygja umræðuna langt frá upprunalegri gagnrýni minni.

    Bið þig um að sleppa því að kommenta hér ef þú getur ekki haldið aftur af þér og talað niður til mín eða gert mér upp skoðanir. Ég fagna heiðarlegum skoðanaskiptum en ég hef margt betra við tíma minn að gera en að rífast.

    Þakka ykkur svo kærlega fyrir nákvæma skýrslu um samskipti ykkar í dag. Bið ykkur innilega afsökunar á að hafa dregið ranglegar ályktanir um samskipti ykkar í dag.

    Stend samt enn við gagnrýni mína úr pistlinum og tel að hún hafi ekki verið hrakin.

    Anon - 22/10/04 13:43 #

    Ég rakst á þessa síðu þegar ég var að leita að samanburði á launum opinberra starfsmanna og ég verð að segja þér eitt Matti minn.

    Það getur vel verið að samanburður á launum kennara og kassafólks séu að þínu mati ekki kennurum sæmandi. Það er þín skoðun og þú mátt halda henni útaf fyrir þig.

    Að öðru leit vil ég biðja þig um að hætta að alhæfa eitt og annað um störf kennara - Þú talar sem aðili sem hefur unnið í verslun. Sigurós talar sem kennari.

    Ég tala hins vegar sem háskólalærður kennari til 4 ára og starfsmaður á kassa í 7 ár. Ég taldi mig vera að gera rétt þegar ég sótti um í KHÍ og taldi að 3ja ára háskólanám myndi auka mínar tekjur. Staðreyndin er hinsvegar sú að kennaranámið borgaði sig ekki. Ég hef reyndar núna 2 þúsund krónum hærri mánaðarlaun að jafnaði en þegar ég vann í versluninni. Og ég skal viðurkenna það að ég er ekki eins bundinn í minni vinnu og áður hvað varðar viðveru. En það þýðir alls ekki að ég vinni ekki mína vinnu. Og stundum óska ég þess heitt og innilega að vera komin á kassann aftur og geti hætt klukkan 7 og ekki hugsað um það meira fyrr en næsta morgun. En kennarastarfið er bara ekki þannig. Það að bera ábyrgð á 20-30 einstaklingum er bara annað og miklu meira en að verðmerkja fiskbúðing eða segja "góðan daginn" mest allan daginn.

    Þú kemst kannski að því þegar þú gengur inn í skólastofu og sérð í hverju starf kennara felst. Það er eitthvað sem margir mættu gera meira af áður en þeir fara að gagnrýna umfjöllun kennara.

    Starf kennara er í raun starf uppalanda, stjórnanda, félagsráðgjafa og sálfræðings - allt sama daginn. Og ekki má gleyma kennsluhlutverkinu. Hins vegar fáum við borguð laun í samræmi við starfsfólk á kassa í verslun. Og málið snýst ekki um hvort kassadaman hefur kannski ekki nákvæmlega sömu laun og kennarinn eins og þú ert að benda á. Hún snýst um það að háskólalærður kennari með þær skyldur sem hann ber að sinna samkvæmt námskrá grunnskólanna + allt hitt sem ekki er talað um í námskrá ætti að hafa miklu miklu miklu hærri laun óháð vinnutíma.

    Ég skal kannski taka annað í mál þegar þú sem verslunarmaður hefur lent í að viðskiptavinur þinn hefur reynt sjálfsmorðstilraun vegna eineltis inní versluninni. Og það er þitt að stórum hluta að vinna með það - að sjálfsögðu í samstarfi við skólayfirvöld og sálfræðing. Eða þegar þú hefur tilkynnt barnaverndarnefnd um stöðu mála hjá einhverjum að þínum viðskiptavinum, með öllum því sem fylgir.

    Og ég vil biðja þig um að gera ekki lítið úr þessum dæmum. Því þetta er því miður staða sem kennarar glíma við þó sem betur fer gerist þetta ekki dags daglega. En þú gerir þér þá kannski vonandi grein fyrir að kennarar eru ekki að vinna með dautt "hráefni" sem leyfir fólki að stimpla sig út úr vinnu klukkan 5 eða 7 og þurfi ekki að hugsa um það aftur fyrr en næsta dag.

    Og dæmi sem þetta eru kannski ástæðan fyrir því að það ÞARF hæfa einstaklinga inn í grunnskólanna til að taka á öllum þeim málum sem þar koma upp. Þess vegna er kennaranámið þriggja ára háskólanám en ekki viku námskeið í upphafi skólaársins.

    Ég spyr - Er eitthvað skrítið þó að starfandi kennarar fari fram á hærri laun? Er það kannski ekki skrítnara að ríki og bæjarfélög skuli bjóða þessum aðilum svipuð lúsalaun og verslunarfólki en ætlast til þess að hafa ekkert nema hámenntaða topp starfsmenn sem geti tekið á öllum því sem fylgir starfi innan skólans í dag?

    Kannski ættum við bara að fá starfsfólk verslana til þess að taka að sér kennsluna? Þetta er jú svipuð laun og hvaða máli skiptir þriggja ára háskólanám hvort eð er?

    Matti Á. - 22/10/04 14:12 #

    Alveg er það merkilegt þegar "háskólalærður kennari til 4 ára" snýr öllu á haus.

    Ég nenni ekki að rökræða við nafnlausar gungur sem gera mér upp skoðanir. Skal þó bæta þessu við.

    Lykilatriði þessara litlu greinar sem vakti þessi heiftúðlegu viðbrögð er: Laun kennara og verslunarfólks eru ekki svipuð. Jafnvel þó til sé verslunarfólk sem nái byrjunarlaunum kennara. Um þetta fjallaði ég nánar hér og vísaði á í athugasemd á undan þinni.

    Ég ber fulla virðingu fyrir því að starf kennarans sé erfitt og mikilvægt. Hvergi hefur annað komið fram og að gefa annað í skyn er rakalaust kjaftæði. En kennarar eru ekki eina fólkið sem tekur vinnuna með sér heim, þetta á við um svo til alla sérfræðinga, fjandakornið, ég tek vinnuna með mér heim, oft án þess að fá fyrir það borgað sérstaklega.

    Þetta er jú svipuð laun og hvaða máli skiptir þriggja ára háskólanám hvort eð er?
    Þér tekst að lesa þessa stuttu grein og missa alveg af kjarnanum, eins og fleiri.

    Anon - 22/10/04 14:33 #

    Hvað hafa sérfræðingarnir sem taka vinnuna með sér heim í laun góurinn?

    Ég tók sérstaklega fram að ÉG er núna með 2 þúsund krónur meira í laun sem kennari en þegar ég vann í verslun fyrir 5 árum síðan. Hvers vegna má ég ekki tala um að laun MÍN sem kennara og verslunarmanns séu svipuð?

    Og ef þú vilt fá að sjá þetta í eigin persónu þá er þér það velkomið - Ég skal senda þér afrit af launaseðlunum í pósti.

    Ég þarf ekkert að gæta nafnleyndar gagnvart þér sem slíkum. En þegar talað er um mál eins og ég ræddi hér á undan vil ég helst ekki mikið vera að ræða nöfn, heimilsföng eða skólastofnun sem ég starfa á. Enda kemur það ekki málinu við.

    Þar að auki hef ég enga tryggingu fyrir því að þú heitir Matti þó þú segist gera það. Alla vegana sé ég hvergi fullt nafn og kennitölu.

    Matti Á. - 22/10/04 14:43 #

    Hvers vegna má ég ekki tala um að laun MÍN sem kennara og verslunarmanns séu svipuð?
    Vegna þess að það breytir engu um það sem ég held fram hér fyrir ofan eða í greininni sem ég vísaði á, af hverju skoðar þú þetta ekki? Ég held því hvergi fram að ekki sé til verslunarfólk sem hafi laun sem nái lægstu launum kennara.

    Alla vegana sé ég hvergi fullt nafn og kennitölu.
    Líttu efst til vinstri á síðuna, þar stendur hver er ég og þar er miklu meira en þú villt hugsanlega vita um mig. Það þarf að smella tvisvar til að finna kennitöluna.

    Anon - 22/10/04 15:28 #

    Satt - Þurfti ekki að vita allt þetta ;)

    Ég var búin að skoða þessa mynd vel og vandlega. Fann hinsvegar hvergi getið hvar þú fékkst þessar upplýsingar. Oftast er það best að geta þess áður en menn alhæfa um of. Ég var einmitt að leita að því til að geta gert minn eigin samanburð þegar ég fann þessa síðu.

    Annað sem ég vildi gjarnan sjá í þessari mynd þinni væri samanburður á launum t.d. Framhaldskólakennara eða annarra aðila sem hafa að baki að lámarki 3ja ára háskólanám. Skerast gröf þeirra starfstétta og kassafólks einhversstaðar?

    Það væri góður samanburður að skoða það. Og þá kannski áttar þú þig líka á því að háskólalærðir grunnskólaennarar GETA borið sig saman við starfsfólk á kassa - alveg eins og þeir bera sig saman við framhaldskólakennara og aðrar háskólalærðar stéttir. Fyrir utan það að starfsfólk á kassa eru ekki hæstlaunaðasta verslunarfólkið.

    Síðast þegar ég heyrði voru meðallaun innan ASÍ um 250 þúsund krónur (heimild: fréttir útvarps fyrir um viku síðan). Hversu stór prósenta af félögum innan ASÍ er með þriggja ára háskólanám til þess að fá þau laun?

    Matti Á. - 22/10/04 16:12 #

    Ég var búin að skoða þessa mynd vel og vandlega.
    Nú, hvar gerðir þú það? Upplýsingarnar eru úr kjarakönnun VR annars vegar og frá kennurum hins vegar, en nokkrir hafa sagt opinberlega, meðal annars á vefnum, að þetta séu meðallaun kennara. Byrjunarlaunin koma meðal annars frá Sigurrósu. Auk þess hef ég aðrar munnlegar heildir. Þó þú hefðir gaman að því að sjá meira á þessari mynd var ég einfaldlega ekki að fjalla um annað. Ég er eingöngu að benda á að samanburður á kjörum kennara og kassastarfsfólks er villandi. Fyrir því hef ég, að mínu hógværa mati, fært fullnægjandi rök.
    Síðast þegar ég heyrði voru meðallaun innan ASÍ um 250 þúsund krónur (heimild: fréttir útvarps fyrir um viku síðan). Hversu stór prósenta af félögum innan ASÍ er með þriggja ára háskólanám til þess að fá þau laun?

    Mér þykir þetta grunsamlega há tala og vildi sjá nánari heimildir áður en ég gúddera hana.

    Ég hef aldrei haldið því fram að kennarar eigi ekki skilið hærri laun enda er ég ekki þeirrar skoðunar.

    Anon - 22/10/04 17:36 #

    Samkvæmt upplýsingum frá Kennarasambandi Íslands eru meðallaun grunnskólakennara um 210 til 215 þúsund krónur á mánuði. Það er aðeins "pínulítið" frá því sem þú segir að séu meðallaun. Þar ert þú sennilega að tala um tölur þar sem einungis er talað um Reykjavíkursvæðið en laun þar er mun hærri en á landsbyggðinni þar sem Reykjavík og nágrenni greiðir fyrir yfirvinnu. Mörg sveitarfélög á landsbyggðinni bjóða ekki uppá yfirvinnu og greiða því ekki fyrir hana, þrátt fyrir að kennarar þar vinni svipaðan vinnutíma. ;)

    Byrjunarlaun 24-27 ára nýútskrifaðra grunnskólakennara eru rúm 130 þúsund á mánuði. Kröfur grunnskólakennara eru meðal annars þær að byrjunarlaun verði sambærileg við laun framhaldsskólakennara. Byrjunarlaun framhaldsskólakennara eru tæp 240 þúsund á mánuði. Meðallaun Framhaldsskólakennara eru hinsvegar um 350 þúsund krónur á mánuði.

    Svo ef við skoðum samanburð á heildar meðallaunum þessara þriggja starfstétta aðeins nánar þá sjáum við svolítið áhugavert.

    Starfsmaður á kassa 154 þús Grunnskólakennari 215 þús Framhaldsskólakennari 350 þús

    Hvort eru meðal-heildarlaun grunnskólakennara nær framhaldskólakennaranum eða kassastarfsmanninum? Ég veit að það er ekki alveg rétt að segja að laun kassastarfsmanns og Grunnskólakennara séu nákvæmlega þau sömu. En er samt ekki svolítið skrítið i þessum samanburði að grunnskólakennarinn er nær kassaafgreiðslumanninum en sambærilegri stétt hvað varðar nám og starf?

    Þú ert búinn að koma þeirri skoðunn þinni nokkuð skýrt á framfæri að meðal-heildarlaun grunnskólakennara og lægst launaðastu starfstéttar innan VR eru ekki alveg sambærileg. Enda ættu þau alls ekki að vera nálægt því sambærileg. Ef hins vegar er litið á meðal - heidlarlaun sölu og afgreiðslufólks (sem væri kannski réttara þar sem ÖLL heildarlaun grunnskólakennara eru tekinn inní s.s. greiðsla fyrir fagstjórn og annað faglegt starf) sést samkvæmt þessari sömu launakönnun að heildar-meðallaun eru um 231 þúsund. Ég veit hinsvegar ekki hver stór hluti verslundarfólks hefur þriggja ára háskólanám að baki eða hver stór hluti þessara starfa KREFST þess að maður hafi þriggja ára háskólanám.

    Að lokum vil ég enn og aftur taka fram að þínar tölur sýna að það er ekki alveg réttmætt að að segja að laun kassaafgreiðslufólks og grunnskólakennara séu þau sömu eða þá svipuð. En það er ekki þarmeð sagt að það megi ekki bera þessar tvær stéttir saman. Alla vegana eru launin "svipaðri" en ef borin eru saman laun Grunnskólakennara og Framhaldskólakennara. Er það ekki eitthvað til að hugsa um?