Örvitinn

Myndrænn samanburður á launum kennara og kassafólks

Ég hef grun um að þessi þræta stafi að einhverju leyti af misskilningi, kannski kom ég gagnrýni minni ekki nógu skýrt frá mér. T.d. notaði ég starfsheitin verslunarfólk og kassafólk á víxl og hugtökin heildarlaun, meðallaun og grunnlaun voru stundum að flækjast fyrir. Rissaði því upp þessa mynd til að sýna á skýran hátt (vonandi) samanburð á launum kassafólks og kennara.

kennararogkassar.gif

Þó myndin sé rissuð byggir hún á raunverulegum tölum um heildarlaun. Á henni má sjá að nýbyrjaður kennari er vissulega með sömu laun og sumir kassastarfsmenn, jafnvel lægri en einhverjir, en hærri en flestir.

Ef ég skil kröfur þeirra sem bera laun kennara saman við laun kassafólks rétt, vilja þeir að enginn snertiflötur sé á þessum kúrfum. Þ.e.a.s. að kassafólk nái aldrei tekjum sem samsvara byrjunarlaunum kennara.

Ég ræddi þetta mál við manneskju sem þekkir vel til í verslunarbransanum og hún kváði þegar ég nefndi að meðal heildarlaun kassafólks væru rúm 150.000 krónur, sagði að þetta væri alltof há tala. En það er önnur umræða.

pólitík
Athugasemdir

Stefán - 24/09/04 09:49 #

Jamm, öll þessi hugtök: meðallaun, grunnlaun, heildarlaun, byrjunarlaun o.s.frv. er til þess fallin að flækja málið. Sjálfur skil ég ekki launaseðilinn minn og hef aldrei gert, enda fæ ég ekki eina tiltekna upphæð í laun heldur summu sem er samsett úr fjölda samlagningar og frádráttarliða. Fyrir vikið er allur samanburður við aðra mjög erfiður. Held að vinnuveitendur geri þetta vítsvitandi til að rugla fólk í ríminu.

Annar villandi samanburður í allri þessari kennaraverkfallsumræðu er þegar rætt er um framhaldsskólakennarana, sem sagðir eru hafa það svo rosalega gott. Þar er alltaf horft á heildarlaun, en framhaldsskólakennarar vinna sem kunnugt er mjög mikla yfirvinnu. (Ekki hvað síst vegna þess að menntamálaráðuneytið kann ekki að reikna hvað íslenskir unglingar séu margir og verður alltaf jafn hissa þegar framhaldsskólarnir fyllast á hverju hausti.)

Grunnskólakennarar hafa hins vegar enga möguleika á að ná allri þessari yfirvinnu - vegna einsetningar grunnskólans.

Það er reyndar atriði sem gleymist alveg í þessari umræðu. Byrjunarlaun kennara hafa alltaf verið skítlág, en unga fólkið hefur bætt sér það upp með massívri yfirvinnu sem nú er ekki fyrir hendi.

Matti Á. - 24/09/04 11:41 #

Ég kannast við það að skilja ekki launaseðilinn. Þurfti að ræða hann nokkrum sinnum þegar ég hóf störf þar sem ég taldi ekki að verið væri að borga mér umsamin laun. Mín mánaðarlaun samanstanda af grunnlaunum auk allskonar hundakúnsta til að lyfta þeim upp. Ein ástæða þess að grunnlaun eru tiltölulega lág í mínu tilviki held ég sé að yfirvinnulaun reiknast sem hlutfall af grunnlaunum, auk þess sem fleira er reiknað útfrá þeim stofni.

Það sem mig langar einna helst að vita er hvernig þróun launa er hjá grunnskólakennurum, hve lengi eru þeir að vinna sig upp í meðallaun stéttarinnar.

Stefán - 24/09/04 14:03 #

Þetta hefur þó skánað í seinni tíð. Orlofsgreiðslur voru alltaf hlutfall af grunnlaunum en eru orðnar hlutfall af heildarlaunum. Áður var það þannig að það gat verið rosalegur skellur að fara í fæðingarorlof fyrir margar stéttir.