Örvitinn

Bloggað í gátum

"þú bloggar bara orðið í gátum", sagði konan mín á Messenger fyrr í dag og átti kollgátuna um leið og hún hitti naglann á höfuðið. Vandamálið er samt ekki að hitta naglann, mun mikilvægara er að velja réttan nagla, rangir naglar eiga það til að bogna.

Er ekki öruggast að tala í gátum, svo engum sárni? Minnir mig dálítið á uppáhalds sönnunina fyrir tilvist Gvuðs, númer 216. Það er önnur saga.

Hvað um það, einn morgun í síðustu viku þegar ég og stelpurnar vorum að leggja af stað á leikskólann eldsnemma um morgun brugðu þær á leik í sófanum á ganginum. Ég tók flikkflakk afturábak, sótti myndavélina og smellti af mynd. Ég hef tekið of lítið af myndum síðustu daga, fór í fjölskyldubarnaafmæli í gær með myndavélina en tók næstum engar myndir. Það er önnur saga.

Í morgun mættum við á leikskólann rétt rúmlega tíu, eins og vanalega, þetta gengur ekki lengur. Ég þarf að ræða við dætur mínar og benda þeim á að þær þurfi að fara fyrr á fætur á morgnana :-P Skriðum á fætur um níu í morgun. Inga María vaknaði fyrst en var ansi róleg á því, dundaði sér í rúminu enda að kúka í næturbleyjuna. Hún er hætt með bleyju nema á nóttinni, en það er önnur saga. Við hentum okkur framúr og vöktum Kollu, fengum okkur morgunmat og vöktum Áróru áður en við brunuðum á leikskólann.

Mér finnst of gott að sofa. Djöfuls dragbítur er það á mannskepnunni, maður kæmi kannski einhverju í verk ef það væri pínku auðveldara að skríða framúr á morgnana.

Bókaði mig á fund klukkan tíu á miðvikudagsmorgun en fattaði svo að þá þarf ég að vakna "snemma". Fattaði líka að mig langar ekkert á þennan fund, en það er önnur saga.

dagbók