Örvitinn

Staðan á Liverpool

Liverpool tapaði 1-0 fyrir Chelsea í dag. Þau úrslit eiga ekki að koma á óvart, Chelsea fær varla á sig mörk en tekst að pota inn einu og einu. Það þurfti heldur ekki að koma á óvart að Chelsea skoraði úr föstu leikatriði í dag, þeir hafa verið duglegir við það á þessu tímabili og Liverpool enn duglegri við að fá slík mörk á sig.

Staðan hjá Liverpool er náttúrulega ekki góð, þrír leikir tapaði, einungis eitt stig á útvelli enn sem komið er.

En menn verða að líta raunsætt á þetta. Þessir þrír leikir sem hafa tapast í deildinni eru á móti Bolton, Manchester United og Chelsea á útivelli. Bolton hefur verið að spila vel það sem af er, Manchester United áttu sinn besta leik á tímabilinu þegar Liverpool kom í heimsókn og Chelsea eru gríðarlega þéttir. Það má heldur ekki líta framhjá því að jafnteflinu var stolið af Liverpool á móti Bolton, því Luis Garcia skoraði mark sem var ranglega dæmt af í þeim leik.

Liverpool hefur verið að spila illa á útivöllum þar sem af er, ég er ekki að halda öðru fram. En menn mega ekki halda að liðið sé að klúðra sínum málum algjörlega, prógrammið er búið að vera erfitt og fyrirfram gerði ég ekki ráð fyrir stigum í útileikjunum á móti Manchester United og Chelsea.

Vonandi fer liðið að bæta sig, Alonso átti ekki góðan leik í dag og Garcia var ekki nema skugginn af sjálfum sér. Aftur á móti fannst mér Diao og Traore eiga ágætan dag, margir eru að gagnrýna Dioa fyrir frammistöðu sína en ég sá ekki betur en að hann ætti nokkrar hörku tæklingar og væri að vinna ágætlega. Traore kom oft ágætlega fram og sýndi á köflum þokkalegustu boltatækni!

Það sem brást einna helst að mínu mati er að Josemi fékk litla aðstoð varnarlega á hægri kantinum, því Kewell og Garcia, sem skiptust á að leika hægri kant, unnu einfaldlega ekki nógu vel aftur. Josemi var því að fá Duff hvað eftir annað á móti sér og réð ekkert við hann.

Næsti leikur er eftir tvær viku, þá mætir Liverpool Fulham á útivelli. Sá leikur verður ákveðinn prófsteinn. Fulham liðið verður án efa lakasta liðið sem við höfum mætt á útivelli á tímabilinu. Ef sá leikur vinnst ekki fer ég að verða verulega stressaður.

Helvítis landsleikjahelgar, það ætti að banna þann andskota.

boltinn