Örvitinn

Trúaðar stofnfrumur

Rambaði á þessa frétt á mbl.is, feitletranir eru mínar.

Vilja gera úttekt á notkun stofnfruma til lækninga

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að stofnuð verði nefnd sem geri úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að í nefndinni sitji fulltrúi landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Siðfræðistofnunar, Prestafélags Íslands, vísindasiðanefndar, læknadeildar Háskóla Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúss, Krabbameinsfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins verði formaður nefndarinnar. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. janúar 2006.

Hvað í ósköpunum á hlutverk prestsins að vera í þessari nefnd? Þetta mál kemur trú ekkert við og út í hött að flækja yfirnáttúrufræðingum í málið.

Annars gott mál að koma þessu starfi í gang og vonandi verða heimilað að vinna með stofnfrumur úr fósturvísum manna sem allra fyrst. Eina ástæðan fyrir því að um þetta mál er deilt vestan hafs eru mikil ítök trúmanna. Ekki nokkur ástæða til að flækja trúmönnum í málið hér.

Hvert á hið trúarlega sjónarmið að vera? "Þetta er vont vegna þess að Jesús hefði verið á móti þessu" eða "Þetta er gott mál vegna þess að þetta samrýmist orðum Gvuðs" ! Eða á hlutverk prestsins að vera að stjórna bænum fyrir og eftir nefndarfundi, tóna á milli ályktana?

Og af hverju bara fulltrúi Prestafélagsins? Hvað með gyðinga, múslima, bahaia og alla hina trúmennina, af hverju fá þeir ekki að vera með? Nei, það er að ekkert vit í því að hleypa fólki inn í þessa umræðu á forsendum trúar, í þessu máli á skynsemin að ráða.

kristni pólitík