Örvitinn

Ofbeldisglæpamenn bíða dóms

Í DV í dag:

Barði mann á sjúkrabeði með röri

Handrukkarinn Annþór Kristján Karlsson á yfir höfði sér dóm vegna hrottafenginar árásar að kvöldi 4. apríl 2003. Annþór, ásamt tveimur félögum sínum, fóru inn á heimili 22 ára manns, Birgis Þórs Benediktssonar, sem lá mjaðmagrindabrotinn á sjúkrabeði og lömdu hann með kylfu.

Eftir hverju er verið að bíða? Maðurinn fremur ofbeldisglæp 4. apríl 2003 og hefur ekki enn verið dæmdur.

Ég hef aldrei skilið meðhöndlun íslenska réttarkerfisins á ofbeldisglæpamönnum. Maður gæti haldið að það væri smábrot að skaða annað fólk, jafnvel stórslasa það. Svo sitja þessir aumingjar inni skemur en fólk sem hefur orðið gjaldþrota í fyrirtækjarekstri og ekki ráðið við að borga opinber gjöld.

Það er ekkert skrítið að menn séu hræddir og þori ekki að kæra þegar ofbeldisglæpamenn fá svona silkihanskameðferð.

En af hverju fjallar DV ekki um svona mál fyrr en frægur einstaklingur verður fórnarlamb? Var þetta ekki fréttnæmt áður en Friðrik Þór var laminn? Eflaust hafa þeir fjallað um svona mál og ég látið það fara framhjá mér, það kemur nefnilega fyrir að ég missi af DV!

pólitík
Athugasemdir

Eggert - 08/10/04 21:54 #

Þetta finnst mér einmitt svolítið hræðilegt - þessir menn eru að brjóta gegn einstaklingum, á meðan (viljandi eða óviljandi) skattsvikarar eru að brjóta gegn samfélaginu. Vissulega eru brot gegn samfélaginu slæm, en samfélagið á töluvert auðveldara með að jafna sig heldur en t.d. einhver mjaðmarbrotinn öryrki. Það ber eiginlega vott um fasisma að samfélag skuli verja sína hagsmuni svona miklu sterkar en hagsmuni einstaklinga. Mér finnst þetta satt best að segja fáránlegt. Það vita ALLIR sem nenna að bera sig eftir því hverjir eru handrukkarar. Nema löggan, virðist vera. Enginn þorir að segja neitt (kannski af því þessum mönnum er bara sleppt eftir yfirheyrslur).