Örvitinn

Kastaði dætrum mínum fyrir ljónið

Í morgun ræddi ég við fóstrurnar um að dætur mínar færu með hinum krökkunum á leikskólanum í heilaþvottinn í dag. Fari með þeim í sal og hlusti á prestinn fabúlera.

Ég veit ekki hvort margir gera sé grein fyrir hve erfið þessi ákvörðun er, en ég get ekki látið stelpurnar mínar líða fyrir skoðanir mínar. Það er ótækt að þær séu dregnar úr hópnum í svona starfi, látnar leika sér afsíðis. Þegar ég nefndi þetta við eina fóstruna í morgun spurði hún hvort við værum í sértrúarsöfnuði :-| Auðvitað halda þau það, en ekki hvað. Það er semsagt enn ein afleiðingin, fóstrurnar halda að dætur mínar og við séum trúarnöttarar. Svosem skiljanlega, margir skilja ekki að til sé fólk sem ekki trúir. Eftir að strákurinn sem var með þeim þegar Bolli prédikaði hætti á leikskólanum, hafa þær bara verið tvær útundan.

Ræddi við Kollu í fyrradag, sagði við hana að hún mætti hitta Bolla ef hún vildi. Hún var ekkert á því að fara, vildi vera hjá systur sinni. Ég sagði henni að Inga María myndi fara líka, hún sagði að þá vildi hún að þær sætu saman. Hún var semsagt hrædd um að Inga María yrði ein eftir ef hún færi, vildi ekki skilja systur sína eftir. Kolla er óskaplega góð við systur sína.

Í dag fá þær sama heilaþvottinn og hinir krakkarnar. "Jesús er besti vinur barnanna", "hver hefur skapað þig og mig". Gyða söng það með Ingu Maríu í bílnum, en hún endaði það svona "mamma og pabbi minn".

Í dag mun þessi níðingur ljúga að dætrum mínum. Ég fyrirlít þennan prest, hann er úrhrak.

fjölskyldan leikskólaprestur
Athugasemdir

jogus - 29/10/04 13:59 #

Andskotans rugl.

Nú fer ég að verða kvíðinn, ekki nema nokkrir mánuðir í að stubban mín fari á leikskóla.

Vonandi, já vonandi, þarf ég ekki að standa í svona stappi. Býst nú því miður samt við því :-(

Birgir Baldursson - 29/10/04 14:09 #

Þetta er dapurlegt, en hvað skal gera? Ég vona bara að þær beri ekki varanlegan skaða af þessu.

urta - 29/10/04 14:19 #

Skelfing finn ég til með þér og öllum öðrum í þessum sporum. Þetta er hin versta klemma. Það er ótrúlegt að svona trúboð sé stundað hjá litlum börnum (sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér) - það er fyrst og fremst siðlaust. Þetta er frekar nýr siður held ég - kannast ekki við þetta frá þeim tíma þegar mínar dætur voru í leikskóla - en þær eru nú orðnar miðaldra.

Mér finnst sjálfsagt að ungir hugsandi foreldrar mótmæli þessu hjá skólayfirvöldum sveitarfélagsins!

Halldór E. - 29/10/04 14:41 #

Þrátt fyrir að ég telji að boðun Bolla muni ekki hafa skaðleg áhrif á börnin þín, þá þykir mér sárt að þetta skuli þurfa að fara svona. Það vekur hins vegar athygli mína að börnin þín skuli vera þau einu sem ekki voru með í kirkjuheimsókninni og velti fyrir mér hvort það hafi verið kynnt sem raunverulegt úrræði að taka þátt í öðrum verkefnum á meðan.

Matti Á. - 29/10/04 14:49 #

Það vekur hins vegar athygli mína að börnin þín skuli vera þau einu sem ekki voru með í kirkjuheimsókninni og velti fyrir mér hvort það hafi verið kynnt sem raunverulegt úrræði að taka þátt í öðrum verkefnum á meðan.
Krakkarnir fara ekki í Kirkjuheimsókn, Kirkjan kemur í heimsókn á leikskólann. Þetta fer fram í leikskólanum. bréf frá leikskólanum
Það skal tekið fram að ef af verður, sækja þessar stundir eingöngu börn þeirra foreldra sem eru samþykkir. Þeim börnum sem ekki eru þátttakendur í stundunum verður boðið upp á önnur viðfangsefni á meðan.

Halldór E. - 29/10/04 15:24 #

Fyrirgefðu Matti, ég vissi að þetta væri heimsókn í leikskólann. Þetta kemur mér reyndar verulega á óvart, hlutfall þátttakenda. Það væri áhugavert að skoða hversu stórt hlutfall vill heimsóknirnar í raun og hversu mörg eru hrædd við að tilheyra ekki meirihlutanum. Ef það er leikskólakennaranemi sem les þetta, þá er þetta úrvals lokaverkefni í uppeldisfræðum. Útgangspunkturinn gæti verið: Er sannfæring hættuleg? Hræðast foreldrar að taka sjálfstæðar ákvarðanir í uppeldi barna sinna.

jogus - 29/10/04 20:26 #

Það væri áhugavert að skoða hversu stórt hlutfall vill heimsóknirnar í raun og hversu mörg eru hrædd við að tilheyra ekki meirihlutanum.

Það þekkja nú væntanlega flestir tilraunina sem gerð er með strikunum tveimur. Fyrir þá sem ekki þekkja til gekk hún nokkurn veginn svona:

Tvö mislöng strik eru teiknuð upp á töflu (augljóst hvort er lengra). Hópur fólks, t.d. átta stk, er beðinn um að segja hvort strikið er lengra. Trixið er að aðeins einn einstaklingur er raunverulegt tilraunadýr, hinir eru leikarar. Allir leikararnir byrja, og segja að styttra strikið sé hið lengra. Þegar kemur að síðasta þátttakandanum segir hann langoftast einnig að styttra strikið sé lengra, þótt hann viti betur. Nóg er hins vegar að einn leikarinn sé látinn segja að rétta strikið sé lengra, þá velur þátttakandinn nánast undantekningarlaust rétta strikið.

Þetta þykir sýna að menn vilji ekki skera sig úr, eru m.ö.o. tilbúnir að ganga ansi langt til að þykjast tilheyra meirihlutanum. Ég er sammála Halldóri, það væri fróðlegt hvort hér séum við að sjá dæmi um þessa tilhneigingu fólks.

Tryggvi R. Jónsson - 29/10/04 21:07 #

Sálfræðingurinn sem gerði þessa tilraun hét Ash og hugtakið sem hann var að kanna er "Social conformity". Þeir sem hafa áhuga á efninu ættu einnig að kynna sér tilraun Milgrams sem er athugun á hlýðni.

-DJ- - 30/10/04 13:50 #

Nú er fokið í flest skjól þykir mér. Hvað meinarðu að þú getir ekki látið þær líða fyrir skoðanir þínar? Nú eru öll börnin einmitt að líða fyrir skoðanir prestsins og andstöðuleysi foreldra. Er það betra? Þú átt að ala þín börn upp eftir þinni lífsskoðun bara eins og aðrir foreldrar gera. Það breytist aldrei neitt ef við sættum okkur við yfirgang annara af því að þeirra skoðun kann að þykja í meirihluta.

Andstaða þín við heilaþvott var fram að þessu til ótrúlegrar fyrirmyndar og eina vonin fyrir foreldra sem kannski hafa verið efins um rættmæti þessa trúboðs. Frábær sagan um strikin tvö og lýsir þessu auðvitað einstaklega vel.

Þú varst sá eini sem sem bentir á lengra strikið nefnilega, nú er enginn til þess.

Matti Á. - 30/10/04 19:23 #

Enda sagði ég að þetta væri erfitt.

Ég bíð eftir næsta foreldrafundi, þá mun ég standa upp og ræða þetta mál, benda á lengra strikið.

Fjóla - 31/10/04 15:59 #

Ferlega er þetta skítt, að leikskólarnir skuli leyfa svona trúboð. Nú er ég á aðeins annari línu en þú, heyrist mér (segi sonum mínum að ég viti ekki hvort guð / englar / álfar / tröll séu til, í stað þess að þeir séu ekki til, og að öllum sé frjálst hafa þá trú sem þeir vilji) en ég á samt mjög erfitt með að sætta mig við þessa ítroðslu. Í leikskóla sona minna er látið duga að senda börnin í eina kirkjuheimsókn fyrir jólin, og nógu fúlt finnst mér að þurfa að taka afstöðu til þess hvort þeir eigi að fara með. Hvað á þetta eiginlega að fyrirstilla þarna í hverfinu hjá ykkur? Hvað er þessar heimsóknir prestanna tíðar?

Matti Á. - 01/11/04 00:49 #

Ég hef hingað til sagt að til sé fólk sem trúi á guð, en ég geri það ekki. Man ekki eftir því að hafa tekið svona sterkt til orða áður, en það getur þó vel verið.

En eftir þessa uppgjöf verður breyting þar á.

Aftur á móti hef ég alltaf talað um að hitt og þetta sé bara til í ævintýrum. Aðallega svo stelpurnar séu ekki hræddar við einhverjar forynjur sem ekki eru til.

Halldór E. - 02/11/04 12:45 #

Í dag mun þessi níðingur ljúga að dætrum mínum. Ég fyrirlít þennan prest, hann er úrhrak.
"Málefnalegur" málflutningur Matta um Bolla Pétur hefur áhrif. Í prestabolta í hádeginu í gær, var ég að því kominn að sparka Bolla niður, einfaldlega vegna þess að mér fannst hann hljóta að eiga það skilið. Enda búin að lesa svo margt ljótt um hann.

:-)

Matti Á. - 02/11/04 12:49 #

Hehe, áróður virkar semsagt, næstum því :-)

En ég er nákvæmlega jafn "málefnalegur" og Bolli Pétur er gagnvart mér og mínum! Stundum er nefnilega betra, að mínu hógværa mati, að tala hreint út og segja skoðanir sínar.

Málefnalegu rökin hafa öll komið fram.

leikskólakennari - 06/11/04 20:50 #

Hefur þú ekki kynnt þér Aðalnámsskrá leikskóla á Íslandi?? Legg til að þú skoðir hana vel og vandlega og takir svo ákvörðun hvort þú viljir hafa börnin þín á leikskóla sem fylgir aðalnámsskrá!! Kristilegt siðgæði er eitt af því sem leikskólakennarar (ekki FÓSTRUR) verða að fylgja eftir í sínu starfi. Það er svo foreldranna að ákveða hvort þeir vilji að börnin taki þátt í þessu eða ekki en það er mikil þröngsýni og vanþekking að vilja að þessu sé ekki sinnt í leikskóla- og skólastarfi á Íslandi.

Leikskólakennari - 06/11/04 21:04 #

Ég verð bara að bæta við hérna að mér finnst sérlega skrítið hvað sumir hér virðast vanmeta börnin sín!! Þessar fáu heimsóknir sem prestar koma í leikskólana eiga sem sagt að gera það að verkum að hugir og hjörtu barnanna spillast - þið gefið ekki börnunum mikið kredit þykir mér!!! Og hvernig er það svo með þig, kæri Matti, heldur þú ekki jól eða páska?? Það væri gaman að vita það. Ef þú heldur jól samkvæmt kristnum sið, þá ertu hræsnari!!!

Óli Gneisti - 07/11/04 11:47 #

Jólin eru ekki kristin hátíð og jólahald á Íslandi ber þess öll vitni að þau eru til að halda upp það að sólin er að rísa hærra.

Óli Gneisti - 07/11/04 11:50 #

Þannig að leikskólakennarar eiga þá til dæmis að kenna börnum að guð vilji ekki að fólk sé samkynhneigt.

skúli - 07/11/04 13:35 #

Æ, vertu ekki með þessa útúrsnúninga, Óli!

Þótt jólin byggi á fornum sólstöðuhátíðum er fyrir því þúsundára hefð á Íslandi að tengja þau fæðingu Krists. Tímasetningin er aðeins eitt dæmið af mörgum um það hvernig kirkjan getur byggt á þeim grunni sem fyrir er og gert hann ennþá ríkulegri.

Samkynhneigð og kirkjuleg vígsla er í mikilli umræðu innan kirkjunnar núna og fráleitt að halda því fram að kenning kirkjunnar sé andstæð þeim eða öðrum minnihlutahópum. Við erum ekki lögmálsþrælar og bókstafstrú er ekki stunduð innan íslensku þjóðkirkjunnar.

Mér tekur hins vegar sárt að þjónusta kirkjunnar skuli vekja jafn miklar þjáningar og fram kemur í pistli Matta. Ég veit ekki hvað er hægt að gera í stöðunni. Hinir foreldrarnir virðast hæstáðnægðir með þessa þjónustu og eins og aths.ritari bendir á - eru heimsóknir of stopular til þess að valda einhverju "tjóni" ef hægt er að tala um tjón í þessu sambandi.

Óli Gneisti - 07/11/04 15:34 #

Útúrsnúningur eða ekki? Spurning Skúli, já eða nei svar, fæddist Jesús á jólunum?

Óli Gneisti - 07/11/04 15:39 #

Svo ég haldi áfram þá er rétt að benda á að þarna stendur kristilegt siðferði en ekki þjóðkirkjulegt siðferði, Biblían er afar skýr í málefnum samkynhneigðra og ég held að það sé meirihluti kristinna manna sem telur samkynhneigð vera synd, hvort sem það er á Íslandi eða í heiminum.

Siðferðisboðskapur Biblíunnar er í einu orði sagt hræðilegur, þjóðarmorð er lofsungið og trúleysingjar brenna í helvíti. Þessi bók er viðbjóður.

En það er staðreynd að það sem kallað hefur verið kristilegt siðferði í gegnum tíðina er í raun og veru komið frá grísku heimspekingunum og tengist Jesú (eða þjóðkirkjunni) ekki neitt.

Óli Gneisti - 07/11/04 16:07 #

Ég held að ég svari spurningunni minni sjálfur Skúli, Jesús fæddist ekki á jólunum (nema um tilviljun hafi verið að ræða) ef hann var þá yfirhöfuð til. Jólin eru komin til af því að kristni blandaðist öðrum trúarbrögðum. Það að halda sólarhátíð í seinnihluta desember er á engann hátt kristilegt, það sést meira að segja á jólasiðum Íslendinga að þeir eru meira og minna ókristilegir. Hvað er það í jólahaldinu sem minnir á Jesú annað en það að sumt fólk skreppi í messu?

En hefur þú Skúli einhvern tímann sagt barni að Jesú hafi fæðst á jólunum? Ef svo er þá ertu lygari, þeir sem segja börnum þetta eru vísvitandi að ljúga að þeim til þess að fá þá til fylgis við þína trú. Finnst þér það ekki svoltið siðlaust? Að ljúga að börnum? Svo lágt leggjast prestarnir. Þeir vita að fæðingarsaga Jesú er búinn til eftir á, þó fólk geti deilt um hvort Jesú var til eða ekki þá er ljóst að fæðingarsagan er uppspuni (lygi).

skúli - 07/11/04 21:10 #

Sparaðu stóru orðin lagsmaður. Þú ert að bauna umræðunni út í aðra sálma og það veistu.

Á jólunum minnumst við fæðingar Jesú. Jesús er fyrir kristnum mönnum tákn nýrrar vonar og vekur þ.m. svipaðar kenndir og hækkandi sól gerði fyrir þeim sem aðhylltust þann átrúnað fyrir daga kristni. Ég segi börnum að við minnumst fæðingar Jesú á jólunum.

Kristnir menn eru ekki lögmálstrúar - svo einfalt er það. Og þú veist ekkert um afstöðu þeirra til samkynheigðra. Hérna sérðu t.a.m. smá hugleiðingu um hvernig það siðferði hefur mótað hugsun Norðurlandabúa og hérna eru fleiri hugleiðingar í þá áttina.

Kristið siðferði greinir sig frá flestu öðru að því leytinu sem það boðar að maðurinn sé hólpinn fyrir náð Guðs og geti í krafti þeirrar fullvissu deilt kærleikanum með náunganum - af ástinni til hans einni saman.

Börnin læra þó lítið annað en frásagnir þær sem þetta siðferði er dregið af. Frásagnir þessar skipa stóran sess í menningu okkar og allir hafa gott af því að heyra þær.

Óli Gneisti - 07/11/04 21:34 #

Skúli, mér finnst ég ekkert vera að beina umræðunni á aðrar brautir, ég er ennþá fullkomlega inn í leikskólaprests/kristið siðferði umræðunni. Prestum er ekki treystandi af því þeir ljúga að börnum, þeir réttlæta líklega í höfðinu á sér en staðreyndin er að þeir ljúga vísvitandi.

Er í alvörunni svona erfitt að svara spurningum mínum? Eru fullyrðingar mínar ósannar?

  • Það sem er kallað kristið siðferði er í raun komið frá grísku heimspekingunum.
  • Jólin eru til komin af því að kristni blandaðist öðrum trúarbrögðum.
  • Prestar ljúga því að Jesús hafi fæðst á jólunum.
  • Það er enginn vafi á að fæðingarsaga Jesú sé uppspuni frá rótum.
  • Biblían inniheldur viðbjóðslegan boðskap og talar gegn samkynhneigð.

Er þetta ekki bara einfaldur sannleikur Skúli?

Matti Á. - 07/11/04 22:01 #

Afskaplega þykja mér þetta léleg innlegg hjá nafnlausu fóstrunni.

Kristilegt siðgæði er eitt af því sem leikskólakennarar (ekki FÓSTRUR) verða að fylgja eftir í sínu starfi. Það er svo foreldranna að ákveða hvort þeir vilji að börnin taki þátt í þessu eða ekki en það er mikil þröngsýni og vanþekking að vilja að þessu sé ekki sinnt í leikskóla- og skólastarfi á Íslandi.
Gott og vel, en hvar er talað um að Prestar eigi að stunda trúboð á leikskólum? Stendur það í Aðalnámskrá leikskólanna? Kristilegt siðgæði er mýta, þó Skúli reyni að sjálfsögðu að halda öðru fram. Miklu nær er að tala um almennt siðgæði, jafnvel íslenskt siðgæði, því islendingar eru afar lítið kristnir. Tal um þröngsýni og vanþekkingu frá nafnlausri gungu leiði ég hjá mér, enda rökin á afar lágu plani. Ég sé ekki betur en að nafnlausa fóstran sé að reyna að segja að ég eigi bara að drulla mér í burtu með mín börn ef ég vill koma í veg fyrir að þau séu heilaþvegin.
Ég verð bara að bæta við hérna að mér finnst sérlega skrítið hvað sumir hér virðast vanmeta börnin sín!! Þessar fáu heimsóknir sem prestar koma í leikskólana eiga sem sagt að gera það að verkum að hugir og hjörtu barnanna spillast - þið gefið ekki börnunum mikið kredit þykir mér!!!
Hér er fóstran komin út á hálan ís - ég tel satt að segja að þetta lýsi hugarfari manneskju sem hefur ekkert með það að gera að starfa með börnum. Þetta snýst ekki um vanmat heldur að gera sér grein fyrir takmörkum þeirra. Börn eru saklaus og trúgjörn. þau treysta fullorðnum og sérstaklega fóstrum. Talað er um presta eins og þar sé merkilegt fólk á ferð, merkilegra en flest annað. Þessu trúa börnin. Presturinn mætir og kennir þeim að tala við Gvuð. Maður sem þau bera virðingu fyrir lýgur að þeim. Lýgur. Þið fullyrðið að skaðinn sé lítill en það gerið þið eingungis af því þið trúið þessari lygi sjálf. Prófið að setja ykkur í spor annarra, og pælið í hver viðbrögð ykkar væru ef maðurinn sem heimsækir leikskólann reglulega væri ekki prestur heldur öfgafullur þjóðernissinni. Krakkarnir myndu hlusta á hann ræða af lítilsvirðinu um aðra kynþætti. Hver væri skaðinn? Jú, við viljum ekki að einhver kenni börnunum okkar óæskilega og ranga hluti. Presturinn er að kenna börnunum óæskilega og ranga hluti.
Og hvernig er það svo með þig, kæri Matti, heldur þú ekki jól eða páska?? Það væri gaman að vita það. Ef þú heldur jól samkvæmt kristnum sið, þá ertu hræsnari!!!

Pawel skrifaði fína grein um jól trúlausra á Deigluna. Ég tek undir það sem þar kemur fram.

Við höldum hátíð um jólin, borðum mat, getum gjafir og höfum það huggulegt. Krosslafur og faðir hans koma hvergi við sögu á okkar jólum. Kristnir hafa engan einkarétt á jólunum og eins og Óli hefur bent á stálu þeir þeim.

Vísa því tali nafnlausu fóstrunnar um hræsni til föðurhúsanna.

Og já, ég tala um fóstrur en ekki leikskólakennara, enda starfa fleiri á leikskólum en þeir sem lokið hafa leikskólakennaranámi. Fóstra er fínt orð.

Og auðvitað er það ekkert nema fordómar gagnvart starfsfólki leikskóla að halda því fram að prestur þurfi að mæta á svæðið til að kenna þeim almennt íslenskt siðgæði. Ég treysti því góða fólki sem starfar á leikskóla dætra minna fullkomlega til að kenna þeim góða siði og hegðun. Ég treysti þeim líka til að gera það án þess að ljúga að þeim.

Vésteinn Valgarðsson - 07/11/04 22:02 #

Á jólunum minnumst við fæðingar Jesú. Jesús er fyrir kristnum mönnum tákn nýrrar vonar og vekur þ.m. svipaðar kenndir og hækkandi sól gerði fyrir þeim sem aðhylltust þann átrúnað fyrir daga kristni. Ég segi börnum að við minnumst fæðingar Jesú á jólunum.

Skrifað stendur: Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi. Míþra, Hórus, Baal, Ésús og fleiri sólguðir eru sagðir "fæðast" á jólunum vegna þess að það gengur inn í táknmyndakerfi sóldýrkenda. (Reyndar, ef eitthvað meikar sens sem goðmagn, hlýtur það þá ekki að vera lífgjafi okkar, sólin?) Með tilkomu sólguðsins Ésú er hinum sólguðunum bolað burt og Ésús settur í þeirra stað en annað að mestu óbreytt. "Sólguðinn" er auðvitað bara sólin persónugerð. "Fæðingin" er ekkert annað en sólstöðurnar. Prestur (og jólasveinn) nútímans er ekkert annað en arftaki seiðskrattans (shamansins) sem stýrði helgihaldinu (sem einkum fólst í því að éta ofskynjunarsveppi) til forna.

skúli - 08/11/04 08:04 #

* Það sem er kallað kristið siðferði er í raun komið frá grísku heimspekingunum. * Jólin eru til komin af því að kristni blandaðist öðrum trúarbrögðum. * Prestar ljúga því að Jesús hafi fæðst á jólunum. * Það er enginn vafi á að fæðingarsaga Jesú sé uppspuni frá rótum. * Biblían inniheldur viðbjóðslegan boðskap og talar gegn samkynhneigð.
Hér eru flóknir þættir einfaldaðir og skrumskældir. Ég bregst þó engu að síður við þótt ég hafi það á tilfinningunni að Óli eigi eftir að endurtaka frasana sína svo sem honum er tamt:

Upphaflega er engin kenning til staðar – aðeins frásagnir sem kalla á túlkun og sannfæringin um að hjálpræðið felist í dauða og upprisu Jesú Krists.

*Umhverfi kirkjunnar sem mótað var af grískri heimspeki kallaði á framsetningu trúarinnar með skynsamlegum og rökrænum hætti sem krafðist þess að kennisetningar væru leiddar af frásögnunum og þær sundurgreindar og flokkaðar. *Umhverfi kirkjunnar var líka mótað af öðrum trúarbrögðum og þeim tungumála- og hugmyndaheimi sem þau höfðu þróað. Kirkjan talaði inn í þær aðstæður og er framsetning jólaguðspjallsins sett fram með vísan til þess. Þetta er boðskapurinn um ljósið sem skein í myrkrinu. *Prestar ljúga engu um þá hluti. Þeir segja sögur eins og margir aðrir. Þetta "lygahugtak" ykkar er margþvælt og útjaskað enda nær það yfir alls kyns frásagnir og myndlíkingar sem við beitum til þess að koma stærri skilaboðum til barna. *Fæðingarsaga Krists eins og við þekkjum hana í Mk. og Lk. er sögð í þeim anda sem að ofan greinir. *Sumt í Biblíunni er ógeðfellt og þar má finna neikvæð orð í garð samkynheigðra. En bókstafurinn deyðir og andinn lífgar við. Kristnir menn eru ekki bundir af orðum Biblíunnar frekar en þegnar þessa lands eru bundir af hverri grein lagasafnsins - því einnig þar má finna mótsagnir og sumt þarf að víkja fyrir öðru. Við sem höfum fordæmi Krists fyrir því að láta sér annt um minnihlutahópa og þá sem fyrirlitnir voru vitum hvar við stöndum í máli sem þessu.

Óli Gneisti - 08/11/04 09:27 #

"Þú skalt ekki ljúga"

Hver er að snúa útúr Skúli? Allt sem ég segi er satt og þú reynir að gera lítið úr því með þessum fimleikum.

Þú ert þreyttur á "lygahugtaki" okkar, við skilgreinum lygar ekkert öðruvísi en aðrir, þú hins vegar reynir að beygja það svo að ykkar lygar falli ekki undir það.

Prestar ljúga að börnum og þeir hafa fjárhagslegan ávinning af því, það er argasta siðleysi. Þetta er staðreynd og mér er bara alveg sama þó þér líki ekki við það, líttu í eigin barm Skúli.

Hjalti - 08/11/04 10:02 #

Skúli: Ertu að segja að að sagan af fæðingu Jesú sé ekki sönn (hafi ekki átt sér stað)?

skúli - 08/11/04 11:37 #

Ég hef ekki betri forsendur til þess að meta það en hver annar.

nafnlausi leikskólakennarinn - 08/11/04 15:23 #

Nógu langt var nú mótsvar þitt samt Matti, þrátt fyrir að þér þyki innlegg mín léleg!!!! Held að þú eigir í einhverju sálarbasli sem ég vona að þú náir að vinna þig út úr einhvern tímann. Gangi þér vel

Óli Gneisti - 08/11/04 17:48 #

Nafnlausi leikskólakennari, þakka þér fyrir að benda mér á aðalnámskrá leikskólana vegna þess að þar eru klausur sem banna þessa mismunun sem börnin hans Matta verða fyrir. Annars þá verð ég að segja að þú ert stétt þinni til skammar.

Matti Á. - 08/11/04 17:51 #

Svar mitt var í lengra lagi þar sem ég þurfti að benda á allar rangfærslurnar hjá þér, nafnlausi leikskólakennari.

Yfirlýsingar um sálarástand mitt frá naflausri gungu eru hunsaðar, enda svarar þú ekki einu einasta atriði sem ég set fram. Málefnafátæktin er fullkomin.

Birgir Baldursson - 09/11/04 00:42 #

En Skúli, þú hefur jafn góðar forsendur og hver annar til að meta það. Hvað í fæðingarsögu Krists er komið úr eldri trúarbrögðum? Hvaðan kemur þetta með fjárhúsið og jötuna? Hvaðan kemur þetta með vitringana? Hvaðan kemur þetta með meyfæðinguna?

Þú sérð það jafnvel og við hin að þessi saga er ekki sönn, heldur goðsögn sem sett er saman úr eldri goðsögnum. Að halda öðru fram er lygi.

Hjalti - 09/11/04 02:50 #

Ég held að Skúli hafi þvert á móti betri forsendur til þess heldur en hver annar maður, með þessa frábæru þekkingu á "umhverfi kirkjunnar", alveg eins og Birgir bendir á.

Þannig að hvort er hún sönn eða ekki?

skúli - 10/11/04 07:53 #

Ég held að Skúli hafi þvert á móti betri forsendur til þess heldur en hver annar maður, með þessa frábæru þekkingu á "umhverfi kirkjunnar"...
Miðað við það sem Hjalti hefur ritað um mína fræðigrein lít ég á þetta sem háðhvörf. Mér leiðist svona tal.

Um þetta hef ég allt skrifað í fyrra svari. Boðskapurinn er sannur: Kristur er sonur Guðs og framsögnin textans ber þess merki að skírskotað er til hugmyndaheims þeirra sem hann var ætlaður á sínum tíma.

Forsendur hef ég þó engar betri en næsti maður til þess að dæma um sannleiksgildið - þ.e.a.s. ég var ekki á staðnum sjálfur til að dæma.

Hjalti - 10/11/04 08:31 #

Eitthvað ertu að misskilja, ég var ekkert að hæða guðfræðina eða þig. Þú ert samt vel að þér hvað varðar "umhverfi kirkjunnar", sbr mjög svipaðar eldri goðsagnir.

En úr því að sannleiksgildi sögunnar hefur ekki á sannleiksgildi boðskapsins, hvers vegna viltu þá ekki viðurkenna að þetta gerðist í rauninni ekki?

skúli - 10/11/04 22:59 #

Jæja, hljóp ég á mig, afsakaðu það!

Gerðist það eða ekki? Ég trúi boðskapnum það er nóg fyrir mig.

Matti Á. - 11/11/04 00:43 #

Er þá ekki nóg að boða boðskapinn? ;-)

Hjalti - 11/11/04 15:36 #

Allt í lagi, þú veist ekki hvort þetta gerðist eða ekki. En hvort er líklegra að þínu mati?

skúli - 12/11/04 18:40 #

Ég veit það ekki með sama hætti og ég get vitað um þá atburði sem ég verð persónulega vitni að. En hér gildir hið fornkveðna, Heb. 11.1.

Matti Á. - 12/11/04 18:43 #

Fyrir okkur sem ekki erum með Biblíuna í kollinum.

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðvelt að sjá." (Heb. 11.1)