Örvitinn

Nýja rúmið hennar Ingu Maríu

Fórum í IKEA eftir vinnu í gær til að kaupa rúm handa Ingu Maríu, afmælisgjöf frá okkur foreldrunum.

Ingu Maríu langaði í stórt rúm eins og Kolla og Áróra eiga, rúm með stiga. Eitt slíkt var til í IKEA en einnig var til venjulegt rúm sem var ósköp fínt. Inga María fékk að velja og valdi venjulega rúmið.

Settum rúmið saman eftir kvöldmat, hjálpuðumst öll að - Inga María og Kolla líka. Að sjálfsögðu lentum við í hefðbundnu IKEA samsetningarveseni, í annað hvert skipti sem ég kaupi eitthvað hjá þeim vantar gat eða eitthvað álíka. Í þessu tilviki var ekki búið að fræsa nógu vel úr og því þurftum við að klára það með skrúfjárni. Einnig tókst okkur að snúa þessu eitthvað vitlaust í fyrstu tilraun, kenni lélegum leiðbeiningum um það. Hversu óhandlaginn er maður þegar maður lendir í veseni með IKEA húsgögn ?

Okkur tókst að setja rúmið saman að lokum, Kolla ætlaði að fá að gista hjá systur sinni í nótt en það gekk vægast sagt illa. Hún fór fljótlega yfir í sitt rúm. Inga María svaf ágætlega í nótt en kom þó upp í til foreldra sinna um miðja nótt. Hún er farin að rölta þetta sjálf sem er lúxus miðað við þegar ég þurfti að fara á fætur og sækja hana.


fjölskyldan