Örvitinn

Þráinn um trúlausa

Pistill Þráins í Fréttablaðinu í dagÓskaplega er baksíða Fréttablaðsins í dag á lágu plani. Ég er viss um að margir hafa tekið undir það sem þar stendur, eflaust kinkað kolli. En þetta eru algjörlega glórulaus skrif. Einn stór strámaður þar sem trúlausum eru gerðar upp skoðanir og svo sakaðir um skort á umburðarlyndi og fordóma (hvar hefur maður séð slíkt áður?).

En auðvitað er þetta þvaður þversögn út í gegn. Trúlausir eru sakaðir um ofsatrú, en heldur einhver að Þráinn myndi skrifa álíka pistil um trúfélag?

Það tekur því varla að svara svona skrifum, oftast er best að benda bara á þau og biðja fólk um að lesa með gagnrýnu hugarfari. Það er nefnilega frekar erfitt að svara fyrir sig þegar manni eru gerðar upp skoðanir.

En ég er hræddur um að margir sem þetta lesa taki undir allt sem í pistlinum stendur án þess að fatta að í honum birtist einmitt það sem Þráinn heldur að hann sé að andmæla, fordómar og skortur á umburðarlyndi.

Smellið á myndina hægra megin til að lesa pistilinn.

efahyggja
Athugasemdir

Bjarni Rúnar - 24/11/04 14:01 #

Þetta er lélegur pistill, mér finnst Þráinn einmitt sýna mikla og ljóta fordóma þarna.

Mér finnst reyndar vegið að mér og minni lífsspeki með þessu, gert lítið úr skynsemi minni og siðferði. En það finnst eflaust mörgum kristnum líka þegar þeir lesa t.d. það sem birtist á vantrú og af titlinum að dæma þá er Þráinn líklega að bara reyna að "svara fyrir sig" eða eitthvað.

Manninum er samt eiginlega bara vorkunn, þessi skrif hans sýna glögglega að hann skilur ekki "trúlausa" og getur vart ímyndað sér gefandi og ástríka tilveru án þess að hafa einhvern "guð" til að styðja sig við. Grey kallinn, segi ég nú bara.

urta - 24/11/04 15:02 #

Þetta er sérstaklega slæmt því Þráinn Bertelsson nýtir mikils álits hjá mörgum sem pistlahöfundur.

Birgir Baldursson - 24/11/04 15:14 #

Af hverju eru trúaðir jafn viðkvæmir fyrir gagnrýni á hugmyndakerfi sitt og raun ber vitni? Gæti það stafað af því að þeir vita sjálfir sem er að trú þeirra er kjánaleg? Þeir sem sannfærðir eru um réttmæti skoðanna sinna eru ekki svona viðkvæmir þegar ráðist er að þeim, heldur svara málefnalega fyrir sig. Sá sem veit að skoðanir hans eru kjánalegar umvefur þær oftar en ekki einhverjum helgihjúpi og vill helst ekki að þær séu gagnrýndar.

Það er ljóst að Þráinn notast við kjánalegt hugmyndakerfi trúarinnar til að stemma stigu við áfengisfíkn sinni og er það bara hið besta mál. En þegar sárindi þau sem fylgja því að aðhyllast órökrænar hugmyndir brjótast út á jafn ljótan hátt og hjá þarna (hann kallar okkur öllum illum nöfnum og gerir okkur upp illa hluti án þess að færa nokkur rök fyrir því) er það alvarlegt mál. Með þessari grein er hann að ala á fordómum gegn þeim sem hafa skynsemina að leiðarljósi í lífinu og fyrir það frumhlaup ber honum að biðjast afsökunar.

Matti Á. - 24/11/04 16:09 #

Af forvitni renndi ég í fljótheitum í gegnum allar greinar síðustu 30 daga á Vantrú og fann ekki neitt sem ætti að stuða trúmenn.

Hvorki alhæfingar né skítkast. Samt eru umræðurnar stundum ansi heitar. Vissulega er gríðarlegur fjöldi greina á Vantrú og þær misgóðar, en ég held að það sé ofsögum sagt að þar sé að finna margt sem særi trúmenn, nema þá sem leita upp eitthvað þessháttar - lesa á milli línanna blammeringar sem alls ekki voru til staðar hjá höfundi.

Ég á a.m.k. tvær greinar á Vantrú þar sem ég fer ansi hörðum orðum um ákveðna hópa trúaðra, annars vegar greinina um Kraftaverkahyskið og hins vegar um Scientology. Hvorugar stuða þær trúmenn nema sú síðari, þar sem einn kom fram og andmælti því að illa væra farið með Scientology fræðin.

En aftur á móti vakti það miklu harðari viðbrögð þegar ég skrifaði grein um Sorgarstund og fjallaði um einokun Kirkjunnar á sorg í samfélaginu. Eða svo ég vitni í prestinn:

Þetta eru sorgleg skrif og á lágu plani.

Ég held semsagt að afar sjaldan, ef nokkurn tíman, hafi verið farið jafn hörðum og órökstuddum orðum um trúmenn á Vantrú, og sjást á baksíðu Fréttablaðsins í dag.

Ólíkt mörgum hef ég aldrei haft mjög gaman að pistlum Þráinns, vissulega er ég oft sammála honum, en hann notar ódýrar aðferðir og iðulega hef ég verið sammála því sem hann segir en um leið séð að málflutningur hans er fyrir neðan allar hellur. Útvarpspistlar Illuga Jökulssonar voru sama marki brenndir, fínt meðan maður var sammála en þegar maður var á öndverri skoðun heyrði maður hvað þetta var allt hrikalega ómálefnalegt og illa rökstutt.

Bendi á að reglulega kemur það fyrir að Vantrúarpennar gagnrýna hvorn annann.

Þetta var ekkert sérlega fókuserað svar :-)

Bjarni Rúnar - 24/11/04 17:11 #

Matti, tilfinningalega séð skiptir það litlu máli hvort umræðan á Vantrú sé málefnaleg eða ekki. Það kemur málinu bara ekkert við! :-)

Að vissu leyti er jafnvel verra fyrir þá sem byggja stóran hluta lífsspeki sinnar á trú ef trúin eða umgjörð hennar eru gagnrýnd málefnalega og með rökum. Það er einfaldlega sárt að láta kippa stoðunum undan heimssýn sinni.

Það er líka sárt að láta kalla sig lygara, hvort sem það er sagt "málefnalega" eða sagt beint út. Sérstaklega þegar fólk "lýgur" í góðri trú, það er að segja þegar það trúir staðfastlega að það sé að segja satt. Það er mikill munur á því að "hafa rangt fyrir sér" og að vera "lygari", þó útkoman sé oft sú sama.

Þannig að það kemur mér ekkert á óvart að trúuðum sárni og sumir láti undan freistingunni að svara "skítkasti" með því að moka sjálfir flór eins og Þráinn gerði í pistlinum sínum. Það var samt afskaplega ókristilegt af honum að gera það...

Matti Á. - 24/11/04 17:32 #

Vissulega á að fara sparlega með í kalla fólk lygara, sá lýgur sem segir meðvitað ósatt. Ég hef í bræði kallað presta lygara fyrir að kenna krökkum sögur eins og um sagnfræði sé að ræða, þó þeir viti, guðfræðimenntaðir mennirnir, að þær eru ekki sannar. Það sama sagði ég um náunga sem kennir fermingarnámskeið og var að kommenta á Vantrú, hef síðan heyrt að hann sé óhefðbundinn í sinni fermingarfræðslu, ég ég sé nokkuð viss um að margt sem hann kennir standist ekki rýni.

Hef ekki kannað ítarlega hversu oft lygar koma við sögu á Vantrú (taktu eftir í þessum lista að flest tilvikin eru í athugasemdum), en það væri fróðlegt að sjá hvort þeir pistlar virki betur ef orðalagi væri breytt. Þó má ekki steingelda vefinn, stundum verða menn að tala hreint út - segja það sem þeir eru að hugsa.

Eins og ég hef áður sagt, þá get ég skilið að fólki sárni.

Þessu lauslega tengt: Vantrú: Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?

Halldór E. - 24/11/04 21:01 #

Ég var staddur í dag á stað, þar sem hver í kapp við annan hrósaði pistlinum hjá Þráni í bak og fyrir. Enda löngu komin tími til að láta þá heyra það. Hverjir þessir þeir voru var reyndar nokkuð óljóst. Annars hefði ég sjálfur haldið að þetta sé skrifað sem viðbrögð við greinum Guðmundar einhvers í Morgunblaðinu, fremur en vantru.net, þær greinar hafa enda verið misvandaðar. Ábending Þráins um hæðnisorð og kaldhæðni eru hins vegar rétt, sú aðferð er ekki vænleg til árangurs. Burt séð frá ofansögðu þá verður að segjast að niðurstaða Þráins um trúleysingja er röng. Eitt helsta einkenni virkra trúleysingja á Íslandi er einmitt félagsleg ábyrgð og leit að opnara og réttlátara samfélagi, alla vega þeir sem ég hef séð til. Ég reyndar sá ástæðu til að benda á það þar sem ég var í dag en fékk litlar undirtektir.

Matti Á. - 24/11/04 22:50 #

Já, ég gerði ráð fyrir að margir myndu kinka kolli. Finnst það satt að segja frekar sorglegt miðað við "gæði" pistilsins :-|

Mér þóttu greinar Guðmundar Guðmundssonar sem birtust í mogganum reyndar mjög góðar og svör Arnar Bárðar að sama skapi ósköp slök ;-)

Sverrir - 25/11/04 19:33 #

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf skilið hvers vegna þið nennið að vera að þessu þrasi út af trúmálum.

En greinar eins og þessi pistill Þráins verða til þess að ég skil ykkur aðeins betur.

Birgir Baldursson - 26/11/04 14:39 #

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf skilið hvers vegna þið nennið að vera að þessu þrasi út af trúmálum.

Sjá þetta.

johannes - 27/11/04 00:07 #

Þetta er meiriháttar góð grein.

Hjalti - 27/11/04 01:00 #

Nei, Jóhannes mættur. Ég hélt að þú værir hættur að tala um trúleysingja. Hvarfst eitthvað svo skyndilega frá spjallboðri vantrúar.

johannes - 27/11/04 02:09 #

Já Hjalti. Ég fór ekki neitt. Ég hef stundum bara annað að gera en að þrasa og þræta á netinu.

Matti Á. - 27/11/04 12:12 #

Er greinin hans Þráins meiriháttar?