Örvitinn

Að virða skoðanir

Ég vitna ansi reglulega í Pál Skúlason þegar fólk talar um að maður eigi að "virða skoðanir annarra". Nú síðast í athugasemdum hjá Valdísi. Páll færir fyrir því rök í inngangi bókarinnar Siðfræði, að þetta sé firra.

Á mannamótum er því oft haldið fram að virða beri skoðanir annarra. Aldrei hef ég samt heyrt nokkurn mann færa rök fyrir þessum boðskap. Vafalaust þykir fólki það óþarft, augljóst sé hvað við er átt og engin þörf á að rökstyðja það: allir hljóti að samsinna þessu.

Ég treysti mér ekki til þess. Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar. Rök mín fyrir þessu eru ekki mjög flókin: skoðanir eru ekki einkamál þeirra sem þær hafa og þess vegna er manneskju ekki sýnd nein óvirðing þó að skoðanir hennar séu ekki virtar. Öðru nær, ein mikilvæg leið til að sýna fólki virðingu og tillitssemi í hinu daglega lífi er að gagnrýna hugmyndir þess og skoðanir, enda leitast vinir við að leiðbeina hver öðrum.

Er sú staðreynd að ótal margir virðast telja sjálfsagt að virða skoðanir annarra vísbending um það hvernig nútímafólk hugsar um siðferði? Þessi skoðun, sem að mínu viti er sannarlega og sannanlega röng, hefur verið talin bera vitni frjálslyndi og víðsýni hins upplýsta manns. Ég tel hana bera vitni afar barnalegri afstöðu til siðferðis, yfirborðsmennsku og jafnvel tvöfeldni. Barnaskapurinn er sá að trúa þessu rakalaust, yfirborðsmennskan lýsir sér í því að halda þessu á lofti sem tákni umburðarlyndis og tvöfeldnin er sú að í reynd fer enginn heilvita maður eftir þessu. Hver kysi til að mynda að virða þá skoðun nágrannans að hann hafi fullan rétt til að drepa ketti eða þjófa sem laumast inn í húsið hans? Eða þá skoðun að allir sem ekki trúa á Guð séu hættulegir villutrúarmenn? Eða þá skoðun að allar skoðanir séu jafn réttháar?

Lykilatriðið er að mínu mati tvöfeldnin. Það fer enginn eftir þessu, jafnvel þó fólk tali um að það beri virðingu fyrir skoðunum annarra, er ég sannfærður að svo sé ekki. Nema fólk sé að tala um eitthvað allt annað, því í þeim umræðum sem ég hef tekið þátt í, er átt við að ekki eigi að gagnrýna skoðanir annarra og það er sú túlkun sem Páll talar um.

Ef fólk fer eftir þessu, er það að mínu hógværa mati, komið út á hálan ís, því þeir sem ekki mótmæla undir vissum kringumstæðum eru að taka afstöðu.

Segjum að þú sért á kappleik þar sem þeldökkur leikmaður er að spila. Áhorfandi við hliðina á þér byrjar að framkvæma apahljóð og ausa yfir hann svívirðingum. Ef þú lætur rasistann ekki heyra að þú sért ósammála, en leyfir honum að komast upp með að ausa svívirðingum yfir aðra, ertu í besta falli gunga - í versta falli meðsekur. Ef þú lætur rasistann heyra það, þá ertu að sjálfsögðu ekki að bera nokkra virðingu fyrir skoðunum hans.

Í raun held ég að fólk meini að það eigi að bera virðingu fyrir trú annarra. þetta gildir nefnilega alls ekki um flest annað. Og það er þá bara allt önnur umræða: Af hverju annað viðmið fyrir trú en aðrar skoðanir? Eiga skoðanir að njóta meiri virðingar því minni sem rökin fyrir þeim eru?

Stop respecting religion and start submitting it to the same scrutiny as any other idea or argument...

Með þessu er ég ekki að segja að fólk skuli ekki gæta orða sinna og sýna nærgætni. En það getur verið erfitt ef það er sjálfkrafa óviðeigandi að setja út á ákveðnar skoðanir. Lausnin getur ekki verið sú að þær skoðanir séu stikkfrí.

Held það sé ágætt að líkja þessi við að gagnrýna börn annarra. Ef foreldrar neita að hlusta á gagnrýni útaf eigin börnum, t.d. þegar kennari setur út á barn vegna agamála, er eitthvað að foreldrunum. En það er líka ljóst að það þarf að fara rétt í slíka gagnrýni, svo foreldrar meðtaki hana en rjúki ekki út í fússi.

efahyggja
Athugasemdir

Valdís - 25/11/04 10:24 #

Ég get alveg hjólað í rasistan með orðum og gjörðum án þess að hætta að virða skoðun hans. Ef hann situr bara einn og sér með sína skoðun og lætur alla aðra í friði þá er það gott og blessað. Það sem ég set út á eru athafnir hans og ég get gert ýmislegt til að hann fái ekki að viðhafa þær lengi. Það má t.d. vísa honum af leikvanginum. Þar með er ekki verið að brjóta á skoðunum hans. Hann hefur rétt til að hafa skoðun sína, en ekki til að byggja athafnir sínar á henni.

Matti Á. - 25/11/04 10:31 #

Hann hefur rétt til að hafa skoðun sína, en ekki til að byggja athafnir sínar á henni.

Páll skrifar:

: skoðanir eru ekki einkamál þeirra sem þær hafa og þess vegna er manneskju ekki sýnd nein óvirðing þó að skoðanir hennar séu ekki virtar.
Og ég tek undir með honum, hvernig getur þú vitað skoðanir hans nema hann annað hvort opinberi þær eða byggi athafnir sínar á þeim? Ég held að Birgir hafi hitt naglann á höfuðið í athugasemd hjá þér:

Mér finnst að sumt fólk hérna sé dálítið að rugla saman annars vegar að virða skoðanir og hins vegar að bera virðingu fyrir því að fólk hafi mismunandi skoðanir. Þetta eru tveir ólíkir hlutir.