Örvitinn

"Ég veit að Guð er til"

"Ég veit að Guð er til og maður getur talað við hann. "
"Nú hvernig veistu það?"
"Maðurinn sagði það"

Samtal Kollu og Gyðu um helgina. Maðurinn er Séra Bolli, leikskólaprestur. Fortölur mínar höfðu greinilega ekkert að segja.

Svo er til fólk sem heldur því fram að þetta geri ekkert til, maður sé bara móðursjúkur.

(Glöggir lesendur sjá að ég hef bætt inn nýjum flokki fyrir greinar um leikskólaprest og umræðu því tengt.)

22:40

"Pabbi, Guð er ekki til" sagði hún í kvöld upp úr þurru, við höfðum ekkert verið að ræða þessi mál. "Nú", sagði ég, "já, hann er bara í lögum og svoleiðis". "Allir aðrir trúa að hann sé til". Hún var ekki leið, frekar stolt held ég - kannski er hún að spila með mig þessi stelpa, farin að þekkja pabba sinn :-)

Mínútu eftir að myndin var tekin missti hún kúluna á gólfið í herberginu sínu, ég var að þrífa glerbrotin og bleytuna þegar hún kom með þessa yfirlýsingu.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Tryggvi R. Jónsson - 25/11/04 14:10 #

Jæja, nú er komið að því sem ekki má, ræða um uppeldi barna.

Ég myndi nú ekki kalla þig móðursjúkan og ég ætla ekki heldur að segja að þetta geri ekkert til en mig langar til að benda þér á nokkrar kenningar úr þroskasálfræði sem beinast að hugrænum þroska (cognitive development) hjá börnum og þá sérstaklega þær sem taka á rökhugsun.

Fyrst ætla ég að taka það fram að ég þekki ekki barnið sem umræðir, hef ekki hitt það né veit nákvæmlega á hvað aldri það er. Því er það sem ég segi talað út frá hinu hefðbundna barni á foraðgerðastigi (The Preoperational Period) sem nær frá um það bil tveggja ára aldri til sjö ára aldurs. Öll börn eru einstök en það er líklegra en ekki að það passi inn á þetta stig.

Á þessu stigi samkvæmt þroskakenningum Piagets hafa börn tök á því að tala um hluti/hugtök sem eru ekki sjáanleg. Skilningur á rökfræði er mjög takmarkaður og veruleikaskyn er ekki fullmótað. Barnið getur áttað sig á einföldum hugtökum þó með þeim takmörkunum að geta ekki skilið fleiri en eina hlið á þeim. Rökfræði stýrist af skynjun en ekki þeim afstæðu reglum sem við fullorðna fólkið erum vön.

Börn á þessum aldri hafa ekki þá hugrænu hæfni að bera saman tvær fullyrðingar og meta sannleiksgildi þeirra. Fortölur gagnast því ekki. Það eru allar líkur á því að barn á þessu stigi myndi svara spurningunum: "Er Guð til?" og "Er Guð ekki til?" með sama svari (Já) og með sömu röksemdafærslu (Maðurinn sagði það/Pabbi sagði það).

Það er samt ekki þar með sagt að það eigi ekki að láta reyna á hæfni barnsins á hærri þroska en það hefur. Það þarf hins vegar að gera það hóflega því of mikill þrýstur getur valdið óþægindum hjá barninu og foreldrinu. Zone of Proximal Development frá Vygotsky er þarna ágætis hugtak og gott að hafa í huga.

Þannig að ég myndi ekki örvænta í þínum sporum. Þetta kemur mér ekki á óvart m.v. aldur og líklegt þroskastig barnsins.

Matti Á. - 25/11/04 14:28 #

Sæll, ég geri mér grein fyrir því að þetta þarf ekki að hafa alvarleg varanleg áhrif á stelpurnar, kom aðeins inn á það í þriðja þætti um leikskólaprestinn.

... Ég veit alveg að það sem prestfíflið segir mun ekki hafa nein stórkostleg áhrif á þær. Ég vil ekki að stelpurnar mínar séu "öðruvísi" útaf mér, þær mega að sjálfsögðu skera sig úr hópnum, en þá útaf einhverju sem þær velja sjálfar, ekki útaf karlinum pabba þeirra.

En mér varð líka hugsað til stráksins sem var með þeim í gærmorgun. Þessi strákur er af erlendu bergi, ég geri ráð fyrir að fjölskyldan sé annarar trúar. Það er ekki beinlínis skemmtileg tilhugsun að skilja hann einan eftir.

Ég örvænti ekki - en ég er samt ákaflega ósáttur við þessa starfssemi Þjóðkirkjunnar í leikskólum og tel hana á engan hátt samrýmast hugmyndum um umburðarlyndi og virðingu fyrir skoðunum :-)

Tryggvi R. Jónsson - 25/11/04 15:39 #

Enda held ég að það sé alveg hárrétt ályktað hjá þér. Félagslegur þroski er talsvert fyrr á ferðinni en hugrænn þroski til að fást við rök og abstrakt hluti (Piaget, Vygotsky, Erikson, o.fl.).

Það er hins vegar þarft að bjóða upp á fleiri valmöguleika (þ.e. þekkingu) í skoðunum og það á eftir að skila sér síðar. Lykilatriði er bara að gera ekki ráð fyrir að barn meðhöndli upplýsingar á sama hátt og fullorðið fólk heldur samkvæmt sínu þroskastigi.

Smá viðbótarfróðleikur um málið á stuttu og skýru máli.