Örvitinn

Óþarfa morgunstress

Ég vaknaði fyrst klukkan 07:59 í morgun, færði mig til að vera nær vekjaraklukkunni og lagði hönd á snús takkann. Pípið var því afar stutt í þetta sinn.

Hálftíma síðar hringdi klukkan, ég snúsaði og slökkti, tími kominn til að fara á fætur. En hún hætti ekki að hringja. Ég snúsaði aftur, athugaði takkann - ég var búinn að slökkva. "Hvað er í gangi" hugsaði ég og ýtti aftur á snús takkann, Kolla kallaði úr sínu herbergi, Inga María rumskaði ekki í rúminu mínu.

Þetta var ekki vekjaraklukkann, þetta var síminn á náttborðinu. Gyða að hringja til að segja mér að Kolla þyrfti að vera mætt á leikskólann 08:45, eftir fimmtán mínútur, vegna kaffihúsaferðar - djísus kræst - hvernig hefði verið að segja mér frá þessu fyrr. Hvað um það, við tókum þetta með trukki, pissuðum, klæddum okkur og brunuðum á leikskólann, náðum í tæka tíð.

Ég þoli ekki svona óþarfa morgunstress.

dagbók