Örvitinn

Rykþrif á myndavélaskynjara með horsugu

horsugaKom við í apóteki í dag og keypti horsugu (lítil pumpa sem maður notar til að sjúga hor úr nefni ungabarna, sjá mynd) til að þrífa skynjarann á myndavélinni.

Það er hægt að kaupa allskonar kit til að þrífa skynjara, spaða og klúta sem maður notar til að strjúka óhreinindindin af, en einfaldast er að reyna að blása þetta í burtu. Ef ég lendi í erfiðari óhreinindum fjárfestir maður kannski í einhverjum svoleiðis græjum síðar.

Hef verið að skipta meira um linsur undanfarið en venjuleg. Skýringin á því er náttúrulega sú að ég átti bara eina linsu þar til ég fékk þessa.

Sá í gær, þegar ég tók test mynd, að það var kominn frekar ljótur rykblettur á skynjarann. Maður sér þessa bletti ekkert endilega í venjulegum myndum, en þegar ljósopið er lítið og bakgrunnur einsleitur, t.d. himinn, blasir þetta við. Yfirleitt er auðvelt að fjarlægja blettina í Photoshop, að minnsta kosti meðan þetta er ekki of mikið.

Svona leit þetta út á testmyndum af loftinu, f22. Litla myndin er rykbletturinn í "fullri stærð".

ryk, test mynd

ryk í fullri stærðSíðast lét ég þrífa þetta úti í bæ, það gekk ekkert sérstaklega vel og ég þurfti að fara með vélina tvisvar. Núna ákvað ég að prófa þetta a.m.k. sjálfur áður en ég færi að eyða peningum. Fór í Menu og valdi Mirror lock-up, þá færist spegillinn semsagt upp og helst uppi. Blés nokkrum sinnum með horsugunni á skynjarann (réttara sagt filterinn fyrir framan skynjarann), maður má alls ekki blása beint á skynjarann með munninum, þar sem alltaf er hætta á að fruss komi með. Lokaði vélinni og tók aðra test mynd, rykkornið var farið.

Þetta er náttúrulega ansi frumstæð aðferð, þar sem maður er bara að blása rykinu upp og veit ekkert hvar það lendir, en líkurnar eru nokkrar á að það þeytist út eða a.m.k. eitthvað til hliðar, sitji ekki fyrir framan skynjarann.

græjur