Örvitinn

Brennivín og hákarl

Í jólaboði á laugardagskvöld var meðal annars boðið upp á brennivín og hákarl. Ég staupaði alltof mikið af brennivíninu og bitarnir tveir sem ég fékk mér af hárkarlinum voru tveimur of mikið.

Þegar ég smjattaði á seinni bitanum fann ég hvað það er sem hákarlinn minnir mig á.

Það kom stundum fyrir að stelpurnar pissuðu á sig í leikskólanum, sem betur fer er þetta liðin tíð. En þegar svona slys átti sér stað biðu pissublautar buxurnar í vel lokuðum plastpoka í hólfinu þeirra. Við tókum pokann með heim og hentum inn í þvottahús, þar lá pokinn stundum óhreyfður í nokkra daga. Þegar hann uppgötvaðist að lokum þurfti að opna pokann og þá gaus upp þessi líka áhugaverða fýla, fýla sem maður gleymir eflaust aldrei.

Það var sú lykt sem ég rifjaði upp er ég tuggði hákarlinn í bílskúrnum hans Sigurgeirs seint á laugardagskvöldið. Skolaði svo óbragðinu með brennivínsstaupi og því óbragði með bjór, fullt af bjór.

Afleiðingin að sjálfsögðu óheyrileg ölvun, en það er önnur saga og óþarfi að fara út í þá sálma hér (eða hvar sem er).

Ýmislegt
Athugasemdir

höf. ókunnur - 06/12/04 15:40 #

Brennivín er besti matur bragðið góða svíkur eigi eins og hundur fell ég flatur fyrir því á hverjum degi.

Birgir Baldursson - 06/12/04 20:43 #

Höfundur ókunnur? Ég hélt alltaf að þetta hefði Leifur Haraldsson samið.

Tyrkinn - 07/12/04 13:46 #

Tyrkinn vill þakka örvitanum fyrir það að tengja hákallinn við þessa sögu. Nú munu sýnir af vel lokuðum plastpokum "verma" manni þegar hákarls verður neytt. Skál.