Örvitinn

Góð byrjun á degi

Ég, Inga María og Kolla sváfumt til að verða níu í morgun. Ég og Inga María höfðum reyndar vaknað fyrr um morgunin en náðum að festa svefn aftur. Vorum ekkert að flýta okkur á fætur heldur kúrðum aðeins lengur, sátum í góða stund undir sæng og röbbuðum saman, bjuggum til draugatjald uppi á jökli og fengum afhenta draugapizzu. Agalega notalegt.

Ég veit að maður ætti að rífa sig á fætur eldsnemma, húrra börnunum á leikskóla þar sem fagfólk gefur þeim morgunmat og gætir þeirra og drífa sig í vinnuna.

En, þessar notalegu morgunstundir eru gulls ígildi. Það er ekki sömu rólegheitin á kvöldin þegar allir koma þreyttir heim úr vinnu og skóla. Borðuðum því morgunmat í rólegheitum, stelpurnar fengu sér rice krispies, ég maulaði ristað brauð og las Fréttablaðið.

Þess vegna hafði ég ekkert samviskubit þegar ég laumaði stelpunum í leikskólann rúmlega tíu, þetta er þess virði.

fjölskyldan
Athugasemdir

sirry - 07/12/04 11:37 #

Í leikskólanum hennar Tinnu mæla leikskólastjórar með því að foreldrar noti tíman sem þau hafa með börnum sínum og komi bara seinna á leikskólan ef hægt er. En það er vist ekki þannig á öllum leikskólum. Gott þið áttuð góðan morgun.

Matti Á. - 07/12/04 11:42 #

Hópastarfið á leikskóla stelpnanna byrjar klukkan 09:15, þegar það er í gangi, en reyndar fellur það niður í desember. Frekar hefur verið mælst til þess að foreldrar mæti tímanlega með börnin sín.

En það hefur líka verið bent á að besti tíminn fyrir slíkt starf er fyrir hádegi, þannig að það eru svosem rök fyrir þessu.

Már - 07/12/04 14:15 #

Við gerum þetta stundum. Mjög ljúft og fólkið á Barónsborg virðist almennt líta þetta jákvæðum augum.

Þessa dagana (þennan mánuð og út Janúar, a.m.k.) þá mæti ég í vinnuna kl. 06:30, læt konuna um að fara með strákinn á leikskólann, en ég hætti svo í vinnunni kl. 15:00 til að sækja hann. Það er líka alveg sérlega ljúft að eiga rólegan eftirmiðdagstíma með stráknum - leika, púsla, róla og hoppa, og moka snjó ef færi gefst. Svo kemur konan heim úr vinnunni milli 17 og 18 og við étum kvöldmat.